Kristrún Frostadóttir hefur komið eins og ferskur vindur inn í hús sem staðið hefur lengi með gluggana lokaða, en dyrnar hálfopnar, eða ef til vill tæplega það.
Dyrnar hafa verið opnaðar og gluggarnir líka, loftað hefur verið út, ljósin kveikt og kaffikönnunni stungið í samband. Nýja meðlætið sem komið er á borðið í stað þess gamla (sem vonandi er komið í ruslafötuna) er ilmandi og senn mun fersk kaffiangan berast um húsið.
Kristrún kemur úr fjármálaheiminum, þekkir muninn á plús og mínus, kann prósentureikninginn líka og ekki bara það, því hún kann ýmislegt fleira fyrir sér og hefur náð að sanna sig sem þingmaður.
Það blása sem sagt ferskir vindar um Samfylkinguna þessa dagana og svo gæti farið að hugmyndin um ,,turn" geti aftur orðið að veruleika.
Hugmyndin um turnana tvo var reyndar aldrei neitt sérstaklega spennandi, gufaði fljótlega upp og litlu mátti muna Samfylkingin sjálf gerði það líka, eða öllu heldur kólnaði niður og hyrfi á vit sögunnar, þeirrar sem kann að greina frá mörgum íslenskum stjórnmálaflokkum sem hafa sprottið upp og síðan horfið.
Þegar svona var komið var kveiktur Logi sem er Einarsson og kemur frá Akureyri og hefur honum með hjálp góðra manna tekist að halda Samfylkingunni lifandi; hún hvarf því ekki alveg af þinginu, lifir enn og haldið er í vonina.
Það fór sem sagt fyrir Samfylkingunni líkt og þegar kveikt er á rakettu, sem misst hefur prikið, að puðrast í allar áttir, missa marks og skemmast, en til voru þau sem héldu sínu striki: Héldu í prikið!
En turninn hrundi hratt og örugglega.
Hinn turninn sem kallaður var, hefur sigið hægt og jafnt í jörðu, eins og gerist oft þegar ekki er gætt nægjanlega að því, að byggingin standi á traustum grunni, en þar er unnið að ,,þéttingu byggðar" við Valhöll svo ekki er mönnunum alls varnað!
Flug litlu rakettunnar sem Samfylkingin var orðin að sumra mati, var orðið stjórnlaust en hefur nú verið stöðvað og stefnir til nýs markmiðs með nýjum formanni og því bera að fagna. Því ekki veitir af að íslensk þjóð búi svo vel, að á stjórnmálasviðinu séu alvöru stjórnmálaflokkur og flokkar, sem gæti hagsmuna lands og þjóðar.
Samfylkingin stendur fyrir jöfnuð, þó hún hafi aldrei borðið nafn sem vísar í þá átt og gera má ráð fyrir, að sé mönnum alvara með hugmyndum um endurris, þá verði því breytt; að flokkurinn fái nafn sem vísar í raunverulega stefnu í málefnum þjóðarinnar.
Ekki er það samt svo að tilfelli Samfylkingarinnar sé einstakt í íslenskri pólitík og nægir að horfa á það flokkakraðak sem í boði er núna:
Nafn Sjálfstæðisflokksins vísar í að þjóðin skuli vera sjálfstæð, Framsóknarflokkurinn að sækja skuli fram, - og líklegt er að átt sé við þegar fé er rekið af fjalli. Viðreisn að reisa skuli eitthvað við. Miðflokkurinn að flokkurinn sé núll og nix! Og það sama er um Flokk fólksins sem ber nafn sem óljósara getur ekki orðið. Að lokum eru það Piratar sem sumum hefur dottið til hugar að vísi til gríska bókstafsins pi, sem engum hefur tekist að reikna til enda og að seinni hluti nafnsins sé þaðan kominn: Það er flokkur sem enginn sér fyrir hvað stendur og það hvorki í nútíð né framtíð.
Nú gætu verið að renna upp tímar með tilveru afls á sviði stjórnmálanna sem gætir hags lands og þjóðar og hefur jöfnuð að markmiði. Markmið sem nær útilokað er að ná, en eftir sem áður er bæði jákvætt og sjálfsagt að stefna að.
Það er því fagnaðarefni ef kominn er fram flokkur sem stendur fyrir það jákvæða í því sem hér var talið, en hugsar að auki um efnalegan jöfnuð í samfélaginu, að allir eigi sinn sanngjarna rétt til afkomu og aðgengi að gæðum lífsins og jöfn tækifæri til að hasla sér völl.
Vonandi er, að ekki nái sér á flug sértrúarsöfnuðir af ýmsu tagi innan flokksins, eins og gerst hefur á síðustu árum og sem m.a. lýsti sér í því að það ætti að stjórna því hvað börn í skólamötuneytum fengju að borða, að banna skyldi blóðmerabúskap svokallaðan og að taka skyldi danskan forsætisráðherra sér til fyrirmyndar og drepa alla minka á minkabúum - sem skriðu sjálfir dauðir upp úr gröfum sínum, en það er önnur saga!
Auk þess sem taka skyldi upp fyrrnefnt sértrúareldi á skólabörnum í skólamötuneytum.
Þegar þar var komið, spurðu sumir sig þeirrar spurningar: hvar yrði numið staðar í fáránskunni?
Öðrum datt í hug hið fornkveðna sem mun vera frá Dönum komið sem fleira gott:
Það þarf að vera regla á vitleysunni!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli