Til hamingju Seltirningar með nýju borholuna!

 

 Skjáskot úr Morgunblaðinu 26.10.2022

Það er liðin tíð að menn séu að rogast með kolapoka til kyndingar á Seltjarnarnesi, eins og var þegar undirritaður ólst þar upp á árunum 1949 til 1958.

Á þeim árum var kynt upp með kolum og mér er minnisstætt þegar afi var að koma þeim inn um gluggaop á útvegg, inn í kyndiklefann.

Á þessum tima var Seltjarnarnesið dreifbýlt og gjörólíkt því sem það er í dag, næsta hús til austurs var glæsibygging á þeirrar tíðar mælikvarða og til vesturs var og er húsið Bollagarðar, en það áttu menn trillu og brugðu sér út á sjó og sóttu fisk í soðið þegar tækifæri gafst.

Seinna var byggt hænsnahús norðan við Skuldina okkar og það gat verið gaman að snúast í kringum karlana sem það áttu.

Í dag er frétt um það í Morgunblaðinu, að tekin hafi verið í notkun borhola með heitu vatni í stað annarrar sem gafst upp á tilveru sinni og sýnir það okkur að kolaburður er ekki lengur stundaður á Seltjarnarnesi nema ef vera kynni til kyndingar á grillum þeirra sem ekki nota gasgrill. 

Ég ók mér til skemmtunar hring um nesið um daginn og breytingin er mikil. Varla sést lófastór blettur sem ekki er búið að byggja á, breyta í malbikaða götu, eða rækta þar skrúðgarð.

Nema yst út á nesendanum, þar sem Nesstofa er og nánast hægt að teygja sig í Gróttu, þar er vin í steinsteypu- eyðimörkinni, sem vitanlega er engin eyðimörk, þó fortíðarþráin fái mann til að finnast að svo sé!

Hvað sem öllu þessu líður, er ástæða til að fagna því að hiti í jörðu sé notaður til kyndingar húsnæðis og vonandi er að holan reynist Seltirningum vel og hvað sem líður fyrrnefndri þrá, þá er vel byggt að sjá og gamli Mýrarhúsaskólinn virðist vera í góðu viðhaldi og er glæsilegur, og það sama má segja um hinn ,,nýja".

Þar voru tekin fyrstu sporin í skólagöngunni og er ég sá húsið vöknuðu minningar og á hugann leitaði sú hugsun að sveitarfélagið sem ég bý í núna, hefði mátt taka sér til fyrirmyndar, þá virðingu fyrir sögulegum mannvirkjum sem sýnd er á Seltjarnarnesi, þegar ráðist var í að brjóta niður skólabyggingu frá 1946. 

Sagan sagði að komin væri í það mygla í kjallara vegna vanhirðu væntanlega, en við erum nokkur sem teljum það sérkennilegt ef ekki er hægt að þurrka upp kjallara á húsi sem stendur á hól!

En þessi pistill átti að vera um bernskustöðvarnar en ekki nútímann, svo best er að enda hann á Passíusálmi númer 51 eftir Stein Steinarr!:

Á Valhúsahæðinni

er verið að krossfesta mann.

Og fólkið kaupir sér far

með strætisvagninum

til þess að horfa á hann.

Það er sólskin og hiti,

og sjórinn er sléttur og blár.

Þetta er laglegur maður

með mikið enni

og mógult hár.

Og stúlka með sægræn augu

segir við mig:

Skyldi manninum ekki leiðast

að láta krossfesta sig?




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...