Evrópskt gasbras


Á skjáskotinu hér að ofan er haft eftir Putin: ,,að vesturveldin vilji þurrka Rússland af hinu pólitíska landakorti". Hann telur að það geti orðið fyrirhafnarmikið og lítil ástæða er til að efast um að það sé rétt. 

Það er ekkert nýtt að verið sé að agnúast út í rússnesk stjórnvöld af vestrænum stjórnmálamönnum og skemmst er þess að minnast að fyrir nokkrum árum var reynt að ,,svelta" þá til hlýðni með því að reyna að svipta þá aðgangi að ýmsum eftirsóttum matvælum úr landbúnaði og sjávarútvegi. 

Og auðvitað tóku íslenskir stjórnmálamenn þátt í því!

Niðurstaðan varð að íslenskur sjávarútvegur og landbúnaður skaðaðist, en hvort rússneskur almenningur tók eftir því að ekki fengust lengur íslenskar vörur er óvíst. Hitt er víst, að Rússar brugðust hárrétt við og efldu framleiðslu sína á landbúnaðarvörum og skömmu síðar voru þeir orðnir útflytjendur í stað þess að vera innflytjendur.

Íslenskir bændur og sjómenn sátu uppi með skaðann en Rússland elfdi og styrkti innviði sína. 

 Miðillinn ,,The Zerohedge" tók saman og sagði frá orkuhungrinu í Evrópu og segir þar frá því hvernig mönnum hefur gengið að venja sig af rússneskum orku eftir að viðskiptaþvinganir voru teknar upp gagnvart Rússlandi. 

Evrópusambandið bannaði rússnesk kol og stefnir að því að hætta að mestu olíuinnflutningi þaðan fyrir árslok 2022. Tilgangurinn mun vera að svipta Rússa góðri tekjulind.

Að hætta notkun á rússnesku gasi reyndist vera meira mál en gert var ráð fyrir og vonast var eftir. Birgðir af gasi sem komið hefur eftir leiðslum, eru að verða búnar og því hefur eftirspurn eftir gasi eftir þeirri leið, breyst í eftirspurn eftir fljótandi gasi (LNG), m.a. frá Rússlandi!

Miðillinn hefur það eftir Wall Street Journal að innflutningur ESB á fljótandi jarðgasi hafi aukist um 41% milli ára fram í ágúst.

Rússneskt fljótandi gas hefur ekki verið ofarlega í umræðunni, að því er haft er eftir Maria Shagina hjá International Institute for Strategic Studies í London í WSJ.

Verð á jarðgasi hefur hríðlækkað í Evrópu síðustu vikur, eftir að greint var frá því að fjöldi LNG-flutningaskipa sé þar í gasflutningum. En samkvæmt ,,MarineTraffic" eru um 60 LNG-skip, eða u.þ.b. 10% af LNG-skipum í heiminum, um þessar mundir á siglingu eða liggjandi við akkeri í Norðvestur-Evrópu, Miðjarðarhafinu og við Íberíuskagann. 

Skipin sem munu að miklum hluta vera bandarísk eru talin vera fljótandi geymsla fyrir gas, vegna þess að þau geta ekki losnað við farminn vegna vandamála varðandi uppgjör á honum og flutningsgjöldum.

Skipin munu að stórum hluta vera bandarísk.

Eftirspurn eftir jarðgasi hefur rokið upp í Evrópu vegna skorts sem myndaðist þegar ESB reyndi að draga úr kaupum á rússnesku jarðgasi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og Vesturevrópa er orðin stærri á markaðnum en Asíulöndin,  sem helsti innflytjandi á LNG frá Bandaríkjunum (65%).

ESB hefur heitið því að draga úr kaupum á rússnesku jarðgasi um næstum tvo þriðju hluta og Litháen, Lettland og Eistland hafa heitið því að hætta alfarið innflutningi á rússnesku gasi. 

Evrópa er ekki ein í þessu gasbrasi, því í ljós hefur komið að Kína hefur flutt inn næstum 30% meira gas frá Rússlandi það sem af er þessu ári en áður var.

Í greininni sem hér er vitnað til er bent á, að þessi viðskipti efli fjárhag Rússlands í stað þess að grafa undan honum eins og ætlunin hafi verið að gera. 

,,Í upphafi skyldi endirinn skoða", segir í íslensku orðtaki og óhætt er að segja að það sé í gullnu gildi hvað þessi mál varðar!

Sagt er í greininni að sök(!) Sviss vegna viðskiptanna við Rússland sé mikil vegna milligöngu í viðskiptunum. 

Hvort um sök í því efni er um að ræða verður að teljast umdeilanlegt, því hin kalda staða er sú að þjóðir Evrópu þurfa á gasi að halda, hvað sem líður kreddum stjórnmálamanna.

Og ekki bætti úr sú skammsýna ákvörðunartaka að loka kjarnorkuverum, sem reyndar þurfa á úrani að halda og sem einna best er að fá frá... já einmitt: Rússlandi!

,,Heiðra skaltu skálkinn svo hann skaði þig ekki" segir íslenskt máltæki og mættu menn hafa það í huga, hvort heldur sem búið er í Úkraínu, eða innan ESB. Brölt í Brexiti eða verið Bidensku heimsveldisbrölti.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...