Eldurinn sem þarf að slökkva

 

Hér að ofan eru myndir af fréttum rússnesku fréttastofunnar TASS.

Þar má sjá að menn eru að hugleiða hvort ekki sé kominn tími til að ljúka ófriðnum sem er búinn að vera á milli Úkraínu og Rússlands síðastliðin ár og sem komst á nýtt og ógnvænlegra stig fyrir nokkrum mánuðum.

Í nær öllum fréttatímum heyrum við og sjáum eyðilegginguna, fréttum af látnu og sköðuðu fólki, bæði hermönnum og almennum borgurum. 
Og eins og sjá má og heyra eru Rússar tilbúnir til að ganga til samninga, eða réttara sagt, búnir að opna á möguleika á samningaviðræðum.

Til að semja þarf tvo til segir íslenskt máltæki. Hér þarf því meira til en það fyrsta er, að Rússar og Úkraínar átti sig á að komið er nóg af hernaði í bili og kominn sé tími til að ræða málin, ræða það sem ekki hefur verið rætt í áraraðir, en löngu er kominn tími til að ræða.

Og hefði betur verið gert fyrr. 

Erjur hafa verið milli sjálfstjórnarsvæðanna Donetsk og Luhansk og Úkraína um margra ára skeið og þær erjur hafa ekki verið ræddar, né svo mikið sem viðurkenndar, af hálfu þeirra sem að þeim hafa staðið, þ.e. Úkraína. 

Spurning er um hvort um var að ræða öfl sem fóru sínu fram án vitneskju og stuðnings úkraínskra yfirvalda, eða hvort um var að ræða sveitir sem voru undir beinu eða óbeinu valdi stjórnvalda.

Spurningu um það þarf að svara á hreinskilinn hátt og að því svari fengnu: Að vinna úr málinu og leita lausna.

Ekkert af þessu vill forseti Úkraínu, og gera verður ráð fyrir að hann tali fyrir úkraínsk ,,stjórnvöld" hver sem þau eru. 

Eru það innlend öfl sem teljast stjórna landinu, eða eru það erlend öfl sem gera það?

Okkur hefur verið talin trú um, að NATO væri varnarbandalag vestrænna þjóða, en nú vitum við betur, því bandalagið teygir sig mun lengra en það. Við vissum það fyrr hve loðið og teygjanlegt það þjóðasamstarf er. Reyndar má setja fram spurningu um hvort um  samstarf sé að ræða. 

Við sáum að ekki var spurt um rétt eða rangt þegar ráðist var inn í Írak á upplognum forsendum. 
Það má líka setja fram spurningar um hvort loftárásirnar á Serbíu hafi ekki verið stríðsglæpur og vel má gera það, án þess að réttlæta voðaverkin sem þar voru unnin.

Úkraína er ekki í NATO, en bandalagið hefur aflað landinu vopna af fjölbreyttu tagi og ekki má gleyma hlut Evrópusambandsins sem kynnt hefur verið sem viðskiptabandalag en sannað sig á síðustu mánuðum að vera hernaðarafl.
_ _ _

Við sem höfum talið að Ísland ætti að ganga inn í ESB verðum að skoða hug okkar um það hvort við viljum að landið gangi inn í viðskiptabandalag sem í raun er einnig hernaðarbandalag?

Sá sem þetta ritar hefur gert upp hug sinn og telur best að Ísland haldi sig fyrir utan félagsskapinn sem greinilega hefur siglt undir fölsku flaggi. 
Ísland er í NATO og það ætti að duga landi og þjóð hvað þá hluti varðar, auk þess sem í gildi er varnarsamningur við Bandaríkin.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...