Lögreglan virðist hafa setið fyrir tveimur ungum konum er þær voru á leið heim úr Fjölbrautarskólanum við Ármúla og bróður þeirra sem bundinn er við hjólastól var tekinn líka.
Móðirin er 47 ára, en faðirinn var myrtur árið 2017 og eins og hver maður sér þá eru aðstæður þessa fólks alls ekki góðar og versnuðu enn, eftir að íslenskir ráðamenn komu því svo fyrir að því var vísað á götuna í Grikklandi.
Vitanlega getur Ísland ekki tekið við endalausum straumi af flóttamönnum. Samt virðist sem mikið sé hægt að gera ef vilji er fyrir hendi, sé tekið mið af hve vel hefur gengið að taka við úkraínsku fólki og gæludýrum þess. Sannast þar að vilji er allt sem þarf, í þessu sem svo mörgu.
Að undanförnu höfum við horft uppá hvernig fólk er flokkað eftir uppruna en ekki aðstæðum þess, þegar tekin er afstaða til þess hvort veita skuli því hæli.
Tekið er vel á móti Úkraínum (og frægum skákmeistara), en ekki vel á móti ýmsum öðrum sem eru að leita að skjóli.
Eðlilegt er að spyrja, eftir hverju sé farið?
Hvers vegna er ekki hægt að taka á móti fólkinu sem hér var rætt um í upphafi, þ.e. fólkinu sem vísað var til Grikklands á dögunum?
Og hvert var rússneska parinu vísað sem sótti um að fá að vera hjá okkur, vegna þess að það óttaðist um sinn hag, í landi sínu?
Því var trúlega ekki vísað eitt eða neitt og látið sjá um sig sjálft. Vonandi er að það finni sér stað til að vera á og þar sem það nýtur einhverrar verndar.
Skömmin vegna afgreiðslu þeirra og fleiri og almennrar mismununar situr eftir hjá þeim sem telja sig vera að stjórna landinu okkar, eftir vafasaman sigur í kosningum.
Maðurinn á myndinni hér að neðan fór til Grikklands og komst að því að þar er allt í besta lagi, varðandi aðbúnað flóttamanna og ef rétt er, þá sannar það að margt gott er hægt að gera þó verkefnið sé í fljótu bragði að sjá erfitt og allt að því óleysanlegt.
Annar möguleiki er að maðurinn hafi séð það sem hann vildi sjá og sé að segja okkur frá niðurstöðum sem byggjast á ályktunum sem urðu til með þeirri aðferð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli