Í Morgunblaði dagsins (21.11.2022) eru þrjár fréttir sem vekja athygli. Sú fyrsta er frásögn að því sem kallað er ,,loftslagsráðstefna" og sem fram fór í Egyptalandi og sem var hinn besti hittingur, fyrir þau sem nutu þar dagpeninga og huggulegheita.
Öll eru þau væntanlega sæl og kát að stefnunni lokinni; tilbúin að segja fyrir um hvernig bæta megi heiminn og njóta tilverunnar.
Í þeirri næstu er sagt frá sprengjuregni sem Úkraínar varpa
á Zaporizhzhia kjarnorkuverið og sem heimsbyggðinni er orðið nokkuð kunnugt. Lítið var samt um það talað, áður
en Úkraínarnir tóku upp á því að reyna sem þeir geta að valda öðru Chernobyl-
slysi.
Hvað þeim gengur til með því er ekki gott að segja, en
heiftin er mikil og heitingarnar líka. Ekki má heldur gleyma því að þetta er
það sem þeir hafa verið að gera undanfarin ár á Donbass svæðinu; ráðast á,
sprengja og skemma og myrða. Og sá ,,skotgrafarhernaður" gat ekki endað
nema á tvo vegu: Annað hvort létu Rússar þetta yfir ganga til eilífðarnóns, eða
gripu til örþrifaráða og sem öllum er nú kunnugt varð það síðarnefnda fyrir
valinu.
Hvernig þessum hildarleik lýkur er ekki gott að segja, en kjarnorkuógnin vofir yfir bæði í formi kjarnorkuvera, svo sem í Zaporizhzhia, en einnig getur svo farið að gripið verði til kjarnorkuvopna af einhverju tagi.
Nema menn hafi vit til að setjast niður og stemma á að ósi; ræða sig niður á
ásættanlega lausn og ljúka hernaðinum.
Hernaður leysir sjaldnast málin til lengri tíma litið, en
kostar ómældar eyðileggingar af ýmsu tagi, svo ekki sé nú minnst á mannfallið
og hörmungar því tengdu, sem setjast að í fólki og tekur jafnvel kynslóðir að jafna.
Löndin sem átt hefur að siða til með hernaðaríhlutun, á ævi
þess sem þetta ritar, eru orðin fleiri en talin verði á fingrum og þar sleppur
nær enginn heimshluti.
Úkraínar eyddu um átta árum í að koma íbúunum á Donbass
svæðinu í skilning um að þeir ættu að teljast til Úkraínu og teljast þar með
Úkraínar og það gekk ekki, hvorki með góðu né illu.
Nú er það illa í gangi og héruðin sem um ræðir eru enn fjær
því en áður að geta talist til Úkraínu, en ef til vill mun niðurstaðan verða sú
að náttúruleg landamæri fari eftir Dnjepr!
Þar er samt einn annmarki á, því höfuðborg Úkraínu stendur við það sama fljót, og gera má ráð fyrir að mönnum þyki það ekki sérlega vel heppnuð staðsetning!
Og þó halda megi því fram að fljótið sé heppileg markalína
milli landanna, er nokkuð víst að Úkraínar myndu seint fallast á slíka
niðurstöðu. Niðurstöðu sem í raun þýddi að flytja þyrfti höfuðborgina langar
leiðir til vesturs!
_ _ _
Auk þessa sem hér var talið rakst bloggari á varnargrein lögfræðings sem telur söluna á Íslandsbanka í flesta staði ef ekki alla, vel lukkaðan gjörning.
Verði það niðurstaðan að svo sé, má reikna með að sameiginlegar eigur þjóðarinnar verði ,,seldar“ vildarmönnum svo hratt sem mögulegt er og til þess séð að þær falli sem allra flestar í ,,réttar“ hendur og náttúrulega fyrir sem allra minnst!
Hvernig það kemur til með að gerast verðum við að láta okkur nægja það eitt, að horfa á og fylgjast með, enda eins og allir
vita, ekkert vit í ,,almenningi“!
Í lokin er svo fésbókarfærsla sem að mati þess sem þetta
ritar er þess eðlis að betur hefði verið sleppt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli