Sandburður í Landeyjahöfn hefur verið til vandræða frá því að hún var tekin í notkun.
Nú horfir það til betri vegar eins og sjá má í þessari frétt Morgunblaðsins og það sem er til vandræða núna, stefnir í að verða útflutningsvara framtíðarinnar.
Katla er austar og upp hafa komið hugmyndir um að breyta því sem hún hefur spúð upp úr sér, í verðmæti og selja úr landi en ljón hafa verið í veginum.
Óburðugt ,,teygt" vegakerfi í strjálbýlu landi er ekki talið geta staðið undir flutningunum á efninu til Þorlákshafnar og engin höfn sem stendur undir nafni er í grennd við námusvæðið.
Er hugsanlegt að leysa málið þannig að efninu verði dælt í skip sem heldur sjó fyrir utan; liggur fyrir akkerum og beitir vélarafli að öðru leiti til að halda sér á staðnum?
Sanddæluskip hafa verið við Landeyjahöfn allar götur síðan hún varð til og stöðugur sandburður er í höfnina og fyrir utan hana og eina ráðið hefur reynst vera, að soga hann upp í skip og losa annarsstaðar.
Er ef til vill mögulegt að fara sömu leið með sandinn sem til stendur að taka við Vík: að dæla honum í skip sem heldur sjó fyrir utan?
Sannfærandi rök hafa verið færð fyrir því að vegakerfið í óbreyttri mynd standi ekki undir flutningum á efninu og því þarf að leita nýrra leiða.
Leiðina frá Þrengslum til Þorlákshafnar er hægt að styrkja, breikka og bæta og á því er þörf. Að því loknu liggur beint við að flytja hólinn sem rætt hefur verið um, til hafnar í Þorlákshöfn.
Lítil hætta er á að náttúran sjái ekki til þess að búa til nýja slíka hóla í framtíðinni eins og hún hefur gert í fortíðinni og verður að svo lengi sem sjá má og jafnvel lengur en það!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli