Sprett úr spori í lestri Bændablaðs

 Í fyrsta eintaki Bændablaðsins sem kom út á árinu 2023 kennir margra grasa og hér fyrir neðan er sýnishorn af því sem þar var í boði.


Talsvert var fjallað um kornrækt og önnur ræktunarmál svo sem við er að búast af blaði sem að mestu fjallar um málefni landbúnaðarins.

Á forsíðunni sjáum við að vel gengur að framleiða viskí og þörfin fyrir korn til framleiðslunnar er slík að þörf er fyrir hundraðföldun kornræktarinnar. Þar er einnig greint frá því að nautakjöti sé hent vegna þess ,,að merkingar á gripum séu ófullnægjandi", eins og segir í inngangi fréttarinnar.

Kornbændum fjölgar og voru alls 283 bændur í þeirri grein sem fengu styrk fyrir ræktun korns. Gera má ráð fyrir að nokkrir möguleikar séu til staðar varðandi kornrækt og þá ekki aðeins fyrir vínframleiðslu, heldur einnig til fóðurframleiðslu og til manneldis. Fram kemur í greininni að ,,hækkandi fóðurverð á heimsmörkuðum" sé m.a. það sem styður við aukna ræktun korns.

Á öðrum stað er sagt frá því að ekki sé enn komið endanlegt verð á innfluttum áburði frá ,,flestum innflytjendum", en gera má ráð fyrir að þær tölur liggi fyrir innan tíðar.

Afurðaverð til sauðfjárbænda hækkar um 5% hjá SS og að landsmeðaltali um 16%, þáttur ríkisins er ekki inni í þessari tölu, en eins og við vitum flest, er búgreinin að stórum hluta ríkisrekin.

En ein er sú búgrein sem að stærstum hluta gengur vel og rekur sig sjálf og aflar þjóðinni gjaldeyris, þ.e. hrossaræktin og við lesum um að útflutt hross voru á þriðja þúsund og meðalverð á grip er 916.000 krónur eftir því sem segir í fréttinni, en flutt voru út 1465 hross á fyrstu tíu mánuðum síðastliðins árs.

Af mörgu er að taka í þessu efnismikla blaði en það er á blaðsíðu 14 sem stóra fréttin er að mati þess sem þetta ritar, en þar er sagt frá því að verið sé að vinna að rannsóknum á því hvort hægt sé að vinna prótein úr grasi. Í Danmörku hefur þetta verið rannsakað, eins og fram kom fyrir nokkrum árum, en hér er það Matís sem er að gera rannsóknir á þessu og verður áhugavert að fylgjast með hvert sú vinna leiðir. Verkefnið er unnið í samstarfi Matís, Bændasamtakanna, Landbúnaðarháskóla Íslands og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Haft er eftir Margréti Geirsdóttur verkefnastjóra hjá Matís ,,að ef rannsóknin sýni að það sé fýsilegt að framleiða prótín úr grasi hér á landi sé það liður í að auka fæðuöryggi" hérlendis og við skulum vona að þessi vinna leiði til góðrar niðurstöðu.

Það er síðan á bls. 28 sem sagt er frá gervikjöti, ,,kjötlíki". Sú vara reynist ekki vera öll þar sem hún er séð þegar að er gáð og inniheldur ýmislegt sem er miður hollt, s.s. ,,járn sem ekki er aðgengilegt fyrir meltingarveg manna" eins og segir þar. Framleiðslu kjötlíkis er lýst í niðurlagi fréttarinnar og niðurstaðan er, að það sé ekki hollt né sérlega geðsleg matvara!

Að minnsta kosti þrjár aðsendar greinar eru í blaðinu frá sauðfjárbændum um sauðfjárrækt og samskipti þeirra við ríkið og niðurstaða þess sem les, er að það sé greinilega ekki æskilegt að byggja tilveru sína á því að treysta á ríkissjóð til framfærslu, með verktöku af því tagi sem þar er gert. Eðlilegast virðist að sauðfjárbændur segi samningum sínum við ríkið upp og framleiði síðan það sem þeir geta selt á innlendum markaði. Sé grundvöllur fyrir framleiðslu til úflutnings, eins og stundum er látið í veðri vaka, þá er réttast fyrir greinina, að keppast við að framleiða fyrir þann markað og afla sér tekna með því, en að öðrum kosti að laga sig að innlendum markaði.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...