Greinar eru skrifaðar um stríðið í Úkraínu og birtast á ýmsum miðlum og þar á meðal í Zerohedge.com .
Sú grein sem þar birtist er um margt áhugaverð, yfirgripsmikil og fróðleg. Niðurstaða greinarhöfundar er að styrjaldarrekstur vesturlanda í Úkraínu sé tapaður og eru færð fyrir því margvísleg rök.
Ályktun af því tagi ætti svo sem ekki að koma á óvart, því það eru varla nema örvita menn sem vilja þrengja svo að kjarnorkuveldi að það grípi til örþrifaráða.
En aftur að greininni.
Í henni kemur ýmislegt fram, eins og það hversu góður forseti Úkraínu sé í því að spila á píanó með einum ,,fingri"! Í þessum pistli verður ekki farið út í að lýsa því hvernig sú spilamennska fer fram, en vísað í fyrrnefnda grein sem nálgast má með tenglinum hér að ofan hafi menn áhuga á.
Mannfall úkraínska hersins er sagt vera hroðalegt og þegar orðið mun meira en hjá Bandaríkjunum í öllu Víetnam stríðinu.
Fullyrðing sem kemur verulega á óvart þeim sem byggja vitneskju sína á íslenska Ríkisútvarpinu!
Samkvæmt þeim miðli er framtakssemi
Rússa á þessu sviði einkum bundin við saklausan almenning og gott ef ekki, helst
þau sem alminnst mega sín: konur, börn og gamalmenni.
Mannfall úkraínska hersins mælt á tímaeiningu, er rúmlega 140 sinnum meira en hjá Bandaríkjunum í Víetnam stríðinu, segir í fyrrnefndri grein hins bandaríska miðils.
Líkin eru ekki flutt til Evrópusambandslandanna né Bandaríkjanna, þannig að almenningur í þeim löndum er ónæmur fyrir hryllingnum.
Bókin Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum er ógleymanleg þeim sem lesið hafa. Villimennska og hryllingur stríðs er dreginn þar upp af einum þeirra sem barðist í fyrri heimsstyrjöldinni.
Og líklega náði hann sér aldrei
eftir þá upplifun.
Rússneskir hermenn falla líka og falla m.a. lifandi í hendur óvinarins, sem eitt sinn var vinur, og við munum eftir sýndarréttarhöldum yfir ungum pilti sem hlýddi skipun og skaut mann á götu í Kænugarði.
Pilturinn spurði í öngum sínum
nærstaddan aðstandanda sem í réttarsalnum var, hvort hún ,,myndi nokkurn tíma
geta fyrirgefið sér"?
Um var að ræða hermann sem hlýddi fyrirmælum og átti ekki annars kost. Yfir honum var réttað eins og um venjulegan glæpamann væri að ræða.
Hvað ætli slík réttarhöld væru kölluð, ef fram færu í Rússlandi yfir úkraínsku ungmenni sem framið hefði glæp samkvæmt skipun yfirboðara síns?
_ _ _
Það eru að koma jól hjá austurkirkjunni og forseti Rússlands boðaði einhliða vopnahlé af því tilefni.
Því var hafnað með hefðbundnum fúkyrðaflaumi forseta Úkraínu, sem sagði eitthvað á þá leið, að ekkert vopnahlé yrði fyrr en búið væri að sigra Rússa.
Þar gæti orðið bið á, því eftir því sem lesa má í sögubókum hafa margir ætlað sér að sigra Rússa. Þeir eru ósigraðir enn, þrátt fyrir að hafa lent í margvíslegum hremmingum og skemmst er að minnast þess, hvernig þeim tókst að sigra nasistaher Þjóðverja og fylgiríkja þeirra í seinni heimsstyrjöldinni - og... þar komu Úkraínar við sögu.
Það fór fyrir nasistahernum líkt og Napóleon, nema Napóleon komst lengra og gat sprangað um götur Moskvu og kveikti elda sem brunnu glatt um tíma og varð síðan að hunskast burt með lið sitt, sem var orðið skelfilega lítið þegar heim var komið.
Hvort forseti Úkraínu nær lengra leiðir tíminn í ljós og við sjáum hvað setur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli