Werner Ívan Rasmusson spyr spurninga í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
Spurninga sem ekki virðist mega spyrja, sé tekið mið af ríkjandi umræðustraumi eða múgæsingu sem ríkir um málið.
Spurningarnar eru vel þess virði að þær komi fram, séu hugleiddar og metnar.
1) ,,Fróðlegt væri að vita hvers vegna þeir [Rússar] létu til skarar skríða einmitt núna. Fannst þeim að sér þrengt eða var það valdafíkn sem réð ferðinni?"
Eftir af hafa fjallað um hörmungarnar sem nú dynja yfir Úkraínu kemur síðan önnur spurning.
2) ,,Að auki eru svo allar þær hörmungar sem fólk hefur þurft að búa við í níu mánuði, og hvað með alla flóttamennina sem neyðst hafa til að flýja heimili sín og búa hér og þar við öryggisleysi og óvissu?"
Og síðan sú þriðja.
3) ,,Stuðningur ríkja Evrópu og Bandaríkjanna hefur verið fólginn í drápstólum af fullkomnustu gerð, sem hafa leitt til aukinnar hörku af hálfu Rússa og til enn frekari eyðileggingar á lífsnauðsynlegum innviðum. Eigum við að trúa því að vestrænir stjórnmála- og hernaðarsérfræðingar hafi ekki átt að sjá þetta fyrir?"
Fjórða.
4) ,,Ein spurning hlýtur að brenna á vörum manna og hún er: Hvaða hagsmunir eru svo þýðingarmiklir að ESB og BNA skuli þora að velja jafn áhættusama aðgerð og að styðja opinberlega annan stríðsaðilann með vopnasendingum í miðri orrahríðinni?"
Og fimmta.
5) ,,Hrópið heyrist, líka frá utanríkisráðherra Íslands: „Úkraína verður að vinna stríðið.“ Hvernig sigur verður það?"
Sjötta.
6) ,,innviðir í samgöngum og orkumálum stórskemmdir og gífurlegt mannfall hermanna og óbreyttra borgara. Var í alvöru ekki hægt að leysa deiluna á annan hátt, eða var ekki vilji til þess vegna dulinna hagsmuna?"
Og sjöunda.
7) ,,Og eins og ávallt eru það þeir saklausu sem líða fyrir þá seku. Er ekki mál að linni og ríki Evrópu reyni í alvöru að stöðva manndrápin, því á endanum tapa allir. Eitt vekur þó sérstaka athygli og það er að engin náttúruverndarsamtök hafa haft uppi mótmæli gegn stríðinu í Úkraínu þrátt fyrir að því fylgi óheyrileg mengun á öllum sviðum. Nefna má smíði hergagna, sem krefst vinnslu og flutnings hráefna með óvistvænni orku og framleiðslu, flutning hertóla um langar leiðir á milli landa og síðan orkunotkun tækjanna í orrustum. Hús og önnur mannvirki sprengd í loft upp, eitthvað mengar það. Og svo kemur uppbyggingin sem mengar líka. Er ekki komið mál að linni og ráðandi menn slíðri vopnin?"
Allt eru þetta góðar og gildar spurningar, en í þeirri múgæsingu sem ríkir er frekar hæpið að menn vilji svo mikið sem hugleiða svörin við þeim.
Ofbeldið sem ríkt hefur í Donbass undanfarin ár, hefur ótrúlega lítið verið rætt og ofbeldið sem nú ríkir þar og í Úkraínu má ekki ræða nema frá einni hlið.
Það verður aldrei frjó umræða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli