Hvað kemur út úr köldu faðmlagi?

Grein eftir Maxim Hvatkov, rússneskan blaðamann, sem birtist á Russia Today.


,,Kuldalegt faðmlag", og hvernig einn af nánustu nágrönnum Rússlands brást hlutleysi sínu og þjóðarhagsmunum, til að geta troðið illsakir við Rússland

Árið 2022 varð algjör viðsnúningur á nálgun Finnlands varðandi samskiptin við Rússland. Hlutleysisstefna, sem hafði verið ráðandi frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, vék fyrir harðri gagnrýni á sókn Rússa í Úkraínu og í að beita sér fyrir hörðum refsiaðgerðum og ferðabanni á rússneska ríkisborgara innan ESB og umsókn um aðild að NATO.
Finnsk stjórnvöld létu ekki þar við sitja og hafa tekið skref sem minna á stefnu Eystrasaltsríkjanna. Í nóvember kynntu Finnar áform um að reisa múr meðfram landamærunum að Rússlandi. Þeir réttlættu þörfina fyrir slíka girðingu með áhyggjum sínum um að rússnesk stjórnvöld gæti notað farandfólk í pólitískum tilgangi.

Samkvæmt franska blaðinu Le Monde mun 200 kílómetra löng og þriggja metra há girðing með gaddavír á toppi sínum, kosta um 380 milljónir evra (403,5 milljónir dollara). Hún á að  verða búin næturmyndavélum, ljósum og hátölurum á viðkvæmum stöðum. Varnarlína þessi verður byggð í þremur áföngum frá mars 2023 og til 2025-26. Að sögn finnskra embættismanna mun þetta vera eitt metnaðarfyllsta verkefni sem landamæravarsla landsins hefur ráðist í.

Annað furðulegt dæmi, er staðan sem eigendur hreinræktaðra hunda frá Rússlandi eru í. Þeir  eiga í vandræðum með að skrá gæludýr sín hjá finnska hundaræktarfélaginu og það þó, samkvæmt því sem fram hefur komið í finnska ríkisútvarpinu YLE, að allir hundar sem búa í Finnlandi frá og með 2023 þurfi að vera skráðir á lista finnsku matvælaöryggisstofnunarinnar.

Finnland hefur beitt sér fyrir því að halda uppi alþjóðlegum höftum gegn Rússlandi. Petri Honkonen, vísinda- og menningarmálaráðherra Finnlands, telur að Alþjóðaólympíunefndin eigi ekki að milda afstöðu sína gagnvart rússneskum íþróttamönnum og telur að það eigi að halda áfram að útiloka rússneska og hvítrússneska íþróttamenn frá keppnum. „Stefna alþjóðlegra refsiaðgerða byggir á þeirri hugmynd, að rússneskt samfélag verði að borga fyrir gjörðir sínar. Það á líka við um rússneska íþróttamenn,“ sagði Petri nýlega.

Ástandið hefur einnig haft áhrif á rótgróin efnahagsleg tengsl milli landanna. Þar er einna mest áberandi sú ákvörðun sem kjarnorkufyrirtækið Fennovoima tók í maí um að segja upp samningi sínum við rússneska ríkisfyrirtækið Rosatom, sem undirritaður var árið 2013. Samkvæmt þeim samningi átti Rosatom að reisa kjarnorkuver sem myndi framleiða um 40% af þeirri orku sem Finnland þarfnaðist.

Samband ríkjanna hefur ekki alltaf verið svona.

Saga Rússlands og finnska nágrannaríkisins hefur lengi verið samtvinnuð og fyrir rúmum 100 árum voru Helsinki og Moskva svæðismiðstöðvar innan sama ríkisins, þ.e. rússneska heimsveldisins sem þá var.

Finnland varð hluti af Rússlandi árið 1809 eftir afgerandi sigur Rússa í rússneska-sænska (finnska) stríðinu, en það væri ekki rétt að kalla þá innlimun ofbeldisfulla eða skaðlega fyrir Finna. Þegar Finnland var hluti af Svíþjóð var það hvorki þjóðríki, né hafði stjórn sinna mála, en sem hluti af Rússlandi naut Stórhertogadæmið Finnland mikils innra og ytra frelsis og naut forréttinda sem ekki voru í boði fyrir önnur yfirráðasvæði Rússa.

Alexander I (1777-1825) flutti eitt sinn ræðu á frönsku, þar sem hann ávarpaði fund Finnlandsþings, þar sem hann sagði: „Ég hef lofað að viðhalda stjórnarskránni ykkar, grundvallarlögum ykkar - og þessi samkoma tryggir að mér sé kleyft að standa við það loforð."  Finnland gekk í rússneska heimsveldið og var leyft að halda sænsku borgaralögunum. Alexanders II (1818-1881) er minnst fyrir þátt sinn í að endurreisa finnska þingræðið, eins og styttan hans, sem er fyrir framan Helsinki-dómkirkjuna á Öldungadeildartorginu, er til vitnis um.

Í um hundrað ár lagði Finnland nánast ekkert til í formi greiðslna fyrir ríkjasamsteypuna. Hið mikla sjálfræði olli Fennomania, finnskri þjóðernishreyfingu sem barðist fyrir því að finnska yrði notuð af íbúum svæðisins í stað sænsku, en sænskan hafði verið þvinguð upp á Finna um aldir. Skammlíf tilraun til rússneskuvæðingar Finnlands, sem gerð var seint á 19. og fram á 20. öld, varð að engu, þegar  finnskur embættismaður Eugen Schauman myrti Nikolay Bobrikov, ríkisstjóra Finnlands.

Rússneska byltingin breytti þessu og ríkjasambandið slitnaði.

Á 20. öld lentu Finnland, sem nú var orðið sjálfstætt, og Sovétríkin í tveimur andstæðum fylkingum. 30. nóvember 1939 markaði upphaf stutts en blóðugt stríðs milli landanna tveggja, sem var þekkt sem Vetrarstríðið. Opinber ástæða átakanna, var vilji sovéskra leiðtoga til að færa landamæri landsins frá Leníngrad vegna vaxandi spennu í Evrópu. Finnland hafnaði algjörlega kröfu um að skipst yrði á landsvæðum. Þrátt fyrir mikið tjón (yfir 100.000 manns féllu) neyddu Sovétríkin Finnland til að láta af hendi norðurhluta Karelsku eyjanna og fjölda annarra eyja í Finnskaflóa og til að samþykkja að leigja Sovétríkjunum hluta Hanko-skagans.

Finnland barðist með öxulveldunum alla síðari heimsstyrjöldina. Það fór í stríðið í júní 1941 og það er vel þekkt að Finnland hjálpaði Þýskalandi að halda Leníngrad í umsátri með því að halda óbreyttum borgurum í fangabúðum og með hernámi sovésku Karelíu. Það var ekki fyrr en árið 1944 sem Rauði herinn, fór að sækja fram og batt að lokum enda á þátttöku Finnlands í stríðinu.

Þessi tvö stríð náðu hins vegar ekki að breyta ríkjunum í svarna óvini. Þvert á móti, eftir að hafa áttað sig á tilgangsleysi þess að berjast við öfluga nágranna sína, hélt Finnland hlutlausri stöðu í gegnum kalda stríðið, á sama tíma og það hlúði að nánum efnahagslegum tengslum við Sovétríkin, sem síðan stuðlaði að efnahagslegum árangri landsins.

Finnska þjóðin naut einnig mikils álits á diplómatískum vettvangi, þar sem finnska höfuðborgin hýsti fjóra fundi leiðtoga Bandaríkjanna og Rússlands. Árið 1975 hitti Gerald Ford, Leonid Brezhnev í Helsingi. Í kjölfarið kom svo leiðtogafundur Bush og Gorbatsjov árið 1990, fundur Bill Clintons með Borís Jeltsín árið 1997 og leiðtogafundur Trump og Pútín árið 2018.

18. maí 2022 má kalla daginn sem Finnland sagði skilið við hlutleysið. Þann dag sótti landið um aðild að NATO, ásamt Svíþjóð.

Enn sem komið er, hafa aðeins ungverska og tyrkneska þingið neitað að staðfesta aðild Finnlands að bandalaginu. Í skiptum fyrir samþykkt aðildar lofuðu yfirvöld í Stokkhólmi og Helsinki tyrkneskum stjórnvöldum, að hætta að styðja kúrdísk og tyrknesk stjórnarandstöðusamtök, framselja meðlimi Verkamannaflokks Kúrdistans og aflétta vopnasölubanni.

Utanríkisráðherra Finnlands, Pekka Haavisto, nefndi „kjarnorkuógnir Rússa“ sem aðalástæðu þess að sækjast eftir aðild að NATO. Þann 24. febrúar breyttist öryggislandslag í Evrópu, sagði hann. Vegna þess og að Finnland á landamæri að Rússlandi, vill Finnland finna fyrir stuðningi og styrkja varnir sínar.

Samskipti Rússlands og Finnlands hafa aldrei gefið tilefni til áhyggjuefna undanfarna áratugi, sagði Vladimir Olenchenko, háttsettur fræðimaður við Evrópufræðasetur IMEMO í Moskvu.

Í viðtali við RT lagði hann áherslu á að Finnland hefði mikinn hag af samstarfi við Rússland. Kristiina Hietasaari, forstöðumaður Visit Finland, spáði yfir 600 milljóna evra tekjutapi á ári sem afeiðingu þess að Finnar lögðu á bann gagnvart rússneskum ferðamönnum.

Olenchenko telur að mannlegi þátturinn sé lykilástæðan bak við þessa nýju stefnu finnsku ríkisstjórnarinnar.

„Þeir sem eru við völd í Finnlandi í dag hallast að Evró-Atlantshafsheiminum, það er Evrópu og Bandaríkin. Og þar sem Bandaríkin hafa tekið árásargjarna and-rússneska afstöðu, samræma sænsk og finnsk stjórnvöld viðleitni sína við stefnu Bandaríkjanna. Hvers vegna þeir gera það, er spurning sem við höfum ekki fengið nægar upplýsingar um. Það sem skiptir máli er að þessa stjórnmálamenn skortir pólitískt sjálfstæði, þar sem rök þeirra eru ekki afleiðing þeirra eigin greiningar eða athugana. Það eru bara afrituð slagorðin sem búin eru til í Bandaríkjunum,“ sagði hann.

And-rússnesk viðhorf í Finnlandi eru samt langt frá því að vera eins og í Eystrasaltsríkjunum, þar sem móðursýkin er á háu stigi, sagði Vadim Trukhachev, prófessor við deild alþjóðasamskipta, stjórnmálafræða og utanríkisfræða RSUH í Moskvu við RT

„Ólíkt Baltnesku löndunum, hafa Finnar lært að hagnast á nálægð sinni við Rússland, þrátt fyrir að hafa aldrei líkað við landið. Þangað til nýlega, hefur þeim tekist að fela sanna afstöðu sína til Rússlands, sem er ekki ósvipuð og Eistlendinga. Kynslóðaskipti  hafa orðið í finnskum stjórnmálum. Sanna Marin, 37 ára forsætisráðherra í dag, er ólík fyrrverandi forsetum Urho Kekkonen, Tarja Halonen, eða jafnvel 74 ára sitjandi forseta, Sauli Niinisto,“ sagði Trukhachev.

Fjölmiðlar kalla Niinisto stundum einn af hinum vestrænu „vinum“ Pútíns forseta. Og jafnvel núna, eftir að hafa talað fyrir aðild að NATO, er orðræða forsetans mun hófstilltari en hinna yngri forsætisráðherra hans. Í desember 2022 sagði hann að samband við Rússland væri mikilvægt fyrir þjóðina, samband sem Finnar þyrftu að varðveita, að minnsta kosti sem nágrannar með 1.340 km landamæri, jafnvel þó að það taki tíma að endurheimta traust Finnlands að fullu.

„Kynslóð Marins tekur gildi fram yfir peninga. Eins og komið hefur í ljós, hefur gamla finnska Rússlandstengda fælnin í Helsinki verið mögnuð af lönguninni til að fylgja evrópskum gildum sem nútíma Rússland passar ekki í. Þetta gerir Rússland sjálfkrafa að keppinaut, ef ekki að óvini. Og ,,hin sérstaka hernaðaraðgerð" í Úkraínu hefur vakið ótta Finna um að þeir gætu verið næsta eða þar næsta skotmark Rússlands,“ útskýrði Trukhachev.

Síðasti en ekki sísti þátturinn sem veldur verri samskiptum Rússlands og Finnlands, er lítill en áhrifamikill sænskur ættbálkur í finnskum stjórnmálum. RSUH prófessorinn kallaði þennan hóp „rússófóbískasta samfélag í Skandinavíu".

Olenchenko telur finnska stjórnmálamenn hafa beitt sér gegn langtímahagsmunum sínum að undanförnu. Breytingar á tvíhliða samskiptum við Moskvu munu óhjákvæmilega hafa áhrif á uppbyggingu efnahagslífs Finnlands, utanríkisviðskipti þess og lífskjör borgaranna. Hvers vegna Finnland vill allt þetta, er spurning sem ekkert skynsamlegt svar hefur fengist við.

„Ávinningurinn af hlutleysi er að halda sig fjarri skautunum, því það gerir [öllum] kleift að halda jöfnum samskiptum við alla, sem er gott fyrir efnahagslífið og almenning,“ sagði Olenchenko.

Það eru ólíkar skoðanir í Finnlandi um stefnu þess gagnvart Rússlandi og engar líkur eru til að vinstribandalagið, sem er hliðhollara Rússlandi, geti myndað eins flokks ríkisstjórn. En það er eini stjórnmálaaflið sem er á móti inngöngu í NATO. Finnska ríkisstjórnin er bandalag, þar sem helsti drifkraftur and-rússneskra viðhorfa er Græna deildin, en meðlimur þeirra Pekka Haavisto er utanríkisráðherra, bætti Olenchenko við.

Hann spáir því að samskipti Rússlands og Finnlands muni nú verða lík og Rússlands og Svíþjóðar, það er slæm, en betri þó en samskipti þeirra við Eystrasaltsríkin eða Pólland. Afstaða Finnlands til Rússlands verður harðari en flestra annarra ESB- landa. Þess má geta að Svíþjóð og Finnland starfa saman og þar er Svíþjóð í forystu.

„Þeir dagar eru liðnir þegar Rússar gátu verið yfirvegaðir og rólegir varðandi samskipti sín við Evrópu. Núverandi kynslóð stjórnmálamanna hefur markað sér reglur og gildi; Rússar eru í þeirra augum veik þjóð, sem nemur aðeins 2% af vergri landsframleiðslu heimsins, þjóð sem gæti að þeirra mati brotnað niður. Það hefur orðið til að raska jafnvæginu og sem þýðir það, að samningaviðræður við hana eru ekki inni í myndinni. Ríkisstjórn Finnlands fylgir þessari Evrópureglu,“ sagði Trukhachev.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...