Þegar meðvirkni og múgæsing ræður för

 

Frétt Bændablaðsins

Íslenskir þingmenn og ríkisstjórnin sem situr í skjóli meirihlutans sem kosinn var í síðustu kosningum setur nýtt met.

Met í meðvirkni, múgæsingu, vanhugsun, flumbrugangi, vanmati, slakri landafræðikunnáttu og vafalaust fleiru, við einhliða niðurfellingu tolla á innfluttu kjöti frá Úkraínu, kjöti sem er svo alls ekki tryggt að sé þaðan upprunnið. 

Það getur enginn verið viss um, eins og staðan er í því ágæta landi.

Flumbrugangurinn og rökin fyrir honum, eru að Ísland sýni stuðning sinn í verki og leggi sitt að mörkum til ,,að halda efnahag landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök", þá komast menn að því í greinargerð að: 

,,Ekki [sé] talið líklegt að flutt verði inn kjúklingakjöt eða egg þar sem flutningsvegalengd er svo mikil."(!)

Annað er komið á daginn og búið er að flytja inn ,,hátt í 80 tonn af frosnu kjúklingakjöti frá Úkraínu á síðasta ári". 

Og finnst það nú í matvöruverslunum pakkað í umbúðir, merktar ónafngreindri íslenskri kjötvinnslu svo sem sagt er fá í frétt í Bændablaðinu, því sem út kom þann 9. febrúar. Hvernig því var komið til landsins eftir hið djúphugsaða mat alþingismanna, hlýtur að verða rannsóknarefni fyrir sérfræðinga í flutningakerfum um ókomna framtíð.

Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi um breytingu á tollalögum, um einhliða niðurfellingu tolla á vörur sem eru upprunnar í Úkraínu, komust menn að þeirri niðurstöðu að lögin gætu leitt til þess að fluttar yrðu til Íslands landbúnaðarvörur í meira mæli en áður og innflutningurinn gæti ,,haft neikvæð áhrif á verð og framboð íslenskra landbúnaðarvara".

Til að rökstyðja málið frekar kemur síðan niðurstaða sem byggir á landafræðikunnáttu fornaldar:

,,Ekki er talið líklegt að flutt verði inn kjúklingakjöt eða egg þar sem flutningsvegalengd er mikil."(!)

Ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar á þingi í þessu máli, úr stjórn og stjórnarandstöðu(?), sammæltust um gjörninginn, m.a. á þeirri forsendu að svo ógnarlangt væri til Úkraínu að ekki væri raunhæft að flytja landbúnaðarvörur þaðan.

Því er eðlilegt að spyrja hvar þetta fólk telji Úkraínu vera á hnettinum og hvort það hafi virkilega ekki haft spurn af kæligámum og frystigámum né flutningaflugvélum? 

„Ekki er talið líklegt að flutt verði inn kjúklingakjöt eða egg þar sem flutningsvegalengd er mikil.“

Ef röksemdafærsla þingmanna er almennt lík því sem segir í feitletruðu setningunni hér að ofan, þá er sannarlega ekki von á góðu.

Landafræðikunnátta þingmannanna virðist sem sagt vera af frekar skornum skammti, því Úkraína er í Evrópu eins og hún hefur verið um árþúsundir þ.e.a.s. landsvæðið sem við teljum til Úkraínu og þaðan er flutt út eitt og annað m.a. kornvara. Vandi var um þá flutninga á tímabili eftir að ófriðurinn komst á það stig sem nú er, en ekki er annað vitað en að þokkalega gangi nú um stundir.

Að halda því fram að vegalengdin til Úkraínu sé slík að ekki sé hægt að flytja þaðan vörur með nútímaflutningatækni er ótrúleg firra og benda má á að margvíslegar vörur eru fluttar milli landa vítt og breitt um heiminn án vandkvæða, þó vegalengdin sé mikil og margfalt meiri en frá Íslandi til Úkraínu.

Fólk kemur þaðan og fer þangað, ýmist vegna þess að það langar til að komast þaðan frá hernaðarógninni sem að steðjar, eða vegna þess að það á erindi þangað og þá erum við komin að öðru:

Fóru hinir íslensku innflytjendur á kjúklingakjöti og öðru kjöti, ef um það er að ræða, til Úkraínu og kynntu sér framleiðsluna, aðbúnað, vinnslu og reglugerðir (ef einhverjar eru) ásamt eftirliti yfirvalda með því að eftir því regluverki sé farið, ef eitthvert er?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...