Heilbrigðisráðherrann okkar úr Framsóknarflokknum, flutti þjóðinni góðar
fréttir á dögunum, er hann sagði frá því að til stæði að flytja inn sjúkt og slasað fólk frá Úkraínu.
Auðvitað fögnum við því ekki að þar sé staðan slík, að flytja þurfi fólk til annarra landa til lækninga, en við fögnum af öðrum ástæðum.
Svo var nefnilega að skilja, sem komið hefði í ljós að allt tal um of mikið álag og þrengsli í íslenska heilbrigðiskerfinu væri á misskilningi byggt. Öfugt við það sem fram til þessa hefur verið talið, er til nægt rými á spítölunum og nóg er af heilbrigðisstarfsfólki til að sinna þessu og því stendur til að flytja inn særða og veika Úkraína.
Gott er til þess að vita, að hægt sé að leysa vanda annarra þegar svo stendur á, en best af öllu er, að í ljós skuli vera komið að nægt rými sé á spítölunum fyrir sjúklinga, öfugt við það sem áður var talið og gera má ráð fyrir, að í framhaldinu verði hætt fjáraustri í nýbygginguna við Hringbraut; spítalann sem byggja átti fyrir peningana sem fengust frá ,,frúnni í Hamborg", en týndust á leiðinni.
Það fór sem sagt eitthvað öðruvísi en menn reiknuðu með og því er nú verið að moka peningum í bygginguna úr galtómum ríkissjóði (sem ekki reynist tómur þegar betur er að gáð) og gott til þess að vita að nú geti orðið hlé á því!
Danir standa sig vel í styrjaldarbröltinu og ætla að losa sig við um 100 gamla skriðdreka til Úkraínu og eru þar með orðnir þeir fimmtu stærstu í stuðningi við vopnaskakið samkvæmt því sem segir á RÚV.
Ekki kemur fram hvort drekarnir eru í nothæfu ástandi, en alla vega losna Danir við gamla dótið sitt.
Við Íslendingar getum ekki notað okkur ástandið austur þar til að hreinsa til með þessum hætti, enda fátt til af hertólum á ísa köldu landi, nema ef telja mætti gömul varðskip. Hver veit nema Úkraínar gætu dröslað þeim eftir einhverri sprænu austur þar og stillt þeim upp sem varnartólum, þ.e.a.s. ef þau héldust á floti yfir hafið.
Bandaríkjamenn eru búnir að ,,greina" fljúgandi furðuhlut sem þeir skutu niður. Eins og við var að búast var um loftbelg að ræða og vestur það liggja menn nú yfir því hvað skuli gera næst og hver veit nema þeir reyni að sauma hann saman til að feykja honum yfir til Kína til að jafna leikinn.
---
Jarðskjálftahrina er hafin fyrir norðan Gjögurtá og er svo langt í burtu að hún er á jaðri þess sem mælar Veðurstofunnar geta fundið og því þarf trúlega ekki að búa sér til áhyggjur út af þeim titringi.
Auk þess sem fréttir af slíku eru ,,ekkifréttir" í hugum flestra Íslendinga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli