Ekki er allt sem sýnist og á vísir.is er sagt frá áhuga á að til landsins sé flutt inn matvara frá Úkraínu.
Verslun með vafasama matvöru er ekki það sem best er að velja sér, finnist mönnum ástæða til að ,,styðja" þjóð, en það er gefið sem ástæða fyrir þörfinni á innflutningnum.
Fram hefur komið að kjúklingarnir sem ræktaðir eru í Úkraínu, eru í raun framleiddir af hollensku fyrirtæki og að arðurinn af starfseminni verður þá væntanlega eftir þar.
Bent hefur verið á, að sýklalyfjaónæmi er á varhugaverðu stigi í landinu og það er augljóslega ekki það sem íslenskt heilbrigðiskerfi þarf helst á að halda að stuðlað sé að innflutningi fjölónæmra baktería inn á íslenskan matvörumarkað.
Þá má líka velta því fyrir sér hvernig eftirliti sé háttað í landi sem er í stríði, býr við sífelldar loftárásir og að innviðir eru meira og minna brostnir.
Er ef til vill slíkur skortur á matvælum á íslenskum matvörumarkaði, að sækja þurfi matvörur þangað, sem helst má efast um að innviðir og eftirlitskerfi séu í lagi?
Vilji Ólafur og félagar létta íslenskri þjóð lífið, ættu þeir að leita á önnur mið og ekki þangað þar sem allt er meira og minna í kaldakoli.
Stuðningur við úkraínsku þjóðina getur t.d. falist í því að halda áfram að kaupa þaðan kornvöru, sé það hægt og teljist það enn standast þær kröfur sem gerðar eru.
Korn sem yrði síðan notað til eldis í íslenskum landbúnaði líkt og verið hefur, en þó því aðeins, að það uppfylli þær gæðakröfur sem krafist er af íslenskum yfirvöldum.
Standi mönnum hugur til að styðja úkraínsku þjóðina, þá ættu þeir að leggjast í friðarleiðangur og berjast fyrir friði milli þjóðanna sem stríða, svo hægt sé að eiga við þær traust og góð viðskipti á eðlilegum viðskiptagrunni.
Að flytja inn matvöru frá landi þar sem innviðir og eftirlitskerfi eru meira og minna lömuð er ekki góður kostur fyrir íslenska þjóð og ekki heldur kjötheildsala.
Auk þess sem ýmislegt bendir til að innviðirnir hafi ekki verið í sem bestu horfi fyrir ófriðinn sem nú er, en það er annað mál sem vonandi verður tekið á þegar núverandi stríði lýkur.
Að láta síðan að því liggja, að hugmyndin sé sett fram af góðmennsku jaðrar við hræsni svo ekki sé meira sagt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli