Að orkuöryggi til almennings og heimila sé ekki tryggt til frambúðar hlýtur að teljast allnokkur frétt.
Við höfum talið okkur trú um (mörg) að við byggjum í landi þar sem aðgangur að orku til heimila og minni atvinnurekstrar væri nánast gulltryggt.
Sé tekið mið af því sem sagt er hér í fyrirsögn á myndinni sem er klippa úr Morgunblaðinu, er það sem við mörg höfum trúað og treyst byggt á ótraustum grunni.
Í umfjöllun blaðsins er sagt frá því að Orkustofnun telji að ekkert sé í lögum sem tryggi almennum orkunotendum aðgang að orku og að frumvarp sem til standi að leggja fram um orkumálin taki ekki á þessu atriði.
Um er að ræða stjórnarfrumvarp sem lagt er fram af umhverfisráðherra. Lagt var upp með að aðgengi almennings að orku yrði tryggt, en svo mun ekki vera.
Hér hljóta að hafa verið gerð mistök sem gengið verður í að leiðrétta!
Að öðru og alls óskyldu.
Það er hart í ári hjá karlinum og félögum hans í Bandaríkjunum, en við því kunna menn ráð vestur þar, gamalkunnugt ráð sem við kunnum mörg líka og höfum sum reynt með misjöfnum árangri.
Yfirdráttur er það stundum kallað þegar nauðsynlegt er að taka skyndilán til skamms tíma, sem oftar en ekki er svo breytt í lán til lengri tíma, en það er önnur saga.
Biden karlinn, stendur nú frammi fyrir slíkum kosti og gott ef það heitir ekki að lyfta skuldaþaki, sem er vitanlega mun huggulegra að segja en það sem fyrr var nefnt, þó ekki sé nema vegna tvíræðni íslenskunnar.
Ríkissjóður Bandaríkjanna er sem sagt peningalaus og það er ekki gott svona almennt talað, en hreint afleitt þegar staðið er í styrjöld af nýrri gerð.
Bandaríkin eru svo sem þaulvön að stríða á aðrar þjóðir, en það er nýtt að vera með verktaka að stríðinu; verktaka sem ekki er gott að hafa stjórn á og lítt kann ef til vill með peninga að fara og kann sér jafnvel ekki læti, að vera kominn í sjóðinn mikla og geta ausið aurum í allar áttir.
Samkvæmt klippunum sem hér fylgja með og eru úr Morgunblaðinu, er skiljanlegt að lyfta þurfi ,,rjáfrinu", en verra er að ,,viðræður" þar um eru komnar í strand!
Svo bregðast krosstré sem önnur tré, minnir okkur að sé stundum sagt og ekki er gott ef þaklyftingin hefur strandað á umbúnaðinum, tréverkinu sem allt ber uppi, en gerir það ef til vill ekki lengur vegna fúa.
Klippurnar í þessum pistli eru allar úr Morgunblaðinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli