Minning um góðan dreng

 

Túnin koma græn undan snjónum

Þegar sest er niður að morgni fyrsta dags, eftir útför sonar okkar, sem fram fór frá Villingaholtskirkju í gær þann 2. maí, verður hugsað til baka.

2023-05-03 (1)Indriði var fæddur 23. júlí 1970 og var fyrsta barn okkar hjónanna og tímarnir voru dálítið aðrir en er í dag.

Farsímaöldin var ekki komin og faðirinn var að vinna við smíði ,,réttarinnar” hjá Sláturfélagi Suðurlands á Selfossi þegar þau undur gerðust að hann var kallaður í síma sem var alllangt frá og í því stóra húsi sem enn má sjá, þegar ekið er þar framhjá og þar var hann á annarri hæð.

Algallaður rafsuðustrákur, nýlega orðinn tuttugu og eins árs, tók sér göngutúr til að komast í símann sem var á annarri hæð og spurði hvort rétt væri að einhver þyrfti að tala við hann. Það reyndist rétt vera og tíðindin sem bárust úr ,,tólinu” voru þau að honum hefði fæðst sonur og að móðir og barn væru á spítalanum við Austurveg á Selfossi.

Fyrsta barn ungra hjóna var mætt í heiminn og gleðin var mikil hjá unga parinu og öðrum aðstandendum.

Yndislegt barn, sem allir sem að stóðu dáðu frá fyrsta degi og varð fljótt ,,hjartakóngurinn” hennar langömmu sinnar.

Tímarnir voru dálítið aðrir og ýmsar aðstæður í þjóðfélaginu öðruvísi en í dag og skömmu seinna kom að því, að faðirinn réði sig til sjós á skip sem sigldi m.a. til Sikileyjar og það fór svo, að á endanum komust áhafnarmeðlimir í land og fyrsta hugsun hins unga föður var að kaupa eitthvað á unga piltinn sem beið hans heima og það tókst og keyptir voru forláta ítalskir barnaskór, sem fengu góðar móttökur frá móðurinni þegar heim var komið.

Barnið tjáði sig sem eðlilegt var, ekki mikið um ágæti fótabúnaðarins en átti eftir að ganga töluvert á skónum og í hugum okkar er mynd að piltinum litla að reyna nýju skóna sína.

Árin liðu, pilturinn stækkaði og eignaðist systkini sem hann elskaði og dáði og var efnilegur í alla staði, mikið stolt foreldra sinna og fleiri aðstandenda og þar kom að barnið breyttist í ungling.

Óveðurskýin hrönnuðust upp og þeim fjölgaði smátt og smátt og urðu dekkri, en ljósið í myrkrinu var að þrátt fyrir allt og fíknina sem að sótti, breyttist persónuleikinn ekki og væntumþykjan til þeirra sem að honum stóðu var ætíð sú sama og öll eigum við góðar minningar sem taka yfir sársaukann sem fylgir því að sjá á eftir sínum nánustu verða vímunni að bráð.

Indriði tók að lokum það til bragðs að setjast að á Kanaríeyjum og fann sér þar húsnæði með hjálp góðra vina og tímarnir urðu betri og betri.

Nú var orðin sú breyting á fjarskiptum frá því sem áður var lýst, að hægt var að hringja og ,,taka spjall” hvenær sem hugur stóð til og þess var notið af foreldrum, systkinum og vinum og flest virtist horfa til betri vegar.

Allt tekur enda og þar kom að tíðindi bárust um að Indriði væri látinn og í fyrstu var óljóst hvernig andlátið hefði borið að, en þar kom að upplýsingar bárust og höggið var mikið.

Indriði hafði setið á bekk í almenningsgarði og eftir athugun kom í ljós að hjartað góða hafði gefið sig og hætti að gegna sínu hlutverki.

Söknuðurinn var og er mikill hjá okkur sem næst honum stóðu og í ljós hefur komið að það nær mun lengra.

Við blessum minningu Indriða og munum allt hið góða sem hann gaf okkur og hugsum til þess að nú er hann kominn á betri stað, þar sem vel verður tekið á móti honum af ástvinum sem farnir voru á undan.

Við sem eftir sitjum munum ekki kvíða því, að hitta hann að nýju þegar þar að kemur og vitum að hann mun sem ætíð, taka vel á móti þeim sem til hans koma.

Eftir nokkuð þungan vetur ber svo við að snjórinn er óðum að hjaðna og túnin sem áður voru hulin, koma nú græn undan snjónum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...