Í Morgunblaðinu er sagt frá því að skortur sé á heitu vatni í landinu, en í sama blaði er líka sagt frá því að ekki sé skortur á heitu vatni í Reykjavík.
Niðurstaðan af þessu er, að meintur skortur er þá utan Reykjavíkur en þar þakka menn skortleysið því, að nóg sé af heitu vatni enn, á því svæði sem nýtt er af Hellisheiðarvirkjun.
Hér er um að ræða góðar fréttir fyrir Reykvíkinga, en þeim mun verri fyrir þá íbúa landsins sem ekki búa í Reykjavík.
Vantar kannski vatn í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ? Vonandi ekki, en það er vitað að víða vantar vatn til upphitunar, en mótsögnin er sú að nóg er til af heitu vatni þegar að er gáð.
Gríðarleg sóun á sér stað á heitu vatni hjá einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum og sú sóun skýrist af því að hitinn í vatninu er ekki nýttur nægjanlega vel vegna þess að þegar heitu vatni er ,,hent” og það látið renna til sjávar, er enn heilmikil orka í vatninu.
Hægt væri að ná mun meiri orku úr vatninu áður en því er ,,hent”.
Hér verður ekki fjallað um heita potta sem sprottið hafa upp í nútímanum sem einskonar ofvaxinn risasveppagróður vítt um héruð.
Varmi tapast úr vatninu með ýmsu móti frá því það fer af stað frá virkjun, hvar sem hún er og vitanlega er það þannig, að því fjær sem virkjunin er notandanum, því meiri varmi glatast á leiðinn. Því er best að uppsprettan sé sem næst þeim sem koma til með að nota orkuna.
Við þetta verður vitanlega ekki alltaf ráðið og það eru ekki nærri öll sveitarfélög sem búa svo vel að uppspretta heits vatns sé í ,,túngarðinum heima”.
Að þessu sögðu er það svo, að heitt vatn getur þurft að sækja um nokkuð langa leið þar til það er komið á þann stað að dreifikerfi tekur við og að því gefnu, að vel sé þar frá öllu gengið, þá er komið að hönnun kyndikerfis neytandans og því hvernig hann nýtir vatnið til annarra hluta en kyndingar.
Hver er stærð ofna? Hvað er vatnið heitt þegar það fer í frárennslið?
Grunur er um að mikið sé bruðlað með heitt vatn á þann hátt, að hitinn sé ekki nýttur svo sem best má vera, en við skulum huga að því hvað sé hægt að gera til að nýta hitann sem er í vatninu þegar það fer í frárásina. Hve heitt er það? Er það 30°, 40° eða 20°?
Hver sem þessi tala er þá er hægt að ná mikilli orku úr vatninu til viðbótar með t.d. varmadælum, en þar stendur hugsanlega hnífur í vorri jarðhitakú, því varmadælur þurfa raforku og það er hreint ekki víst að svokallaðir ,,vinir umhverfisins” geti hugsað sér að nýta orku fallvatnanna til aukinnar raforkuframleiðslu.
Og þar með erum við komin að lokapunkti þessara hugleiðinga, í bili að minnsta kosti, því ýmislegt getur verið í veginum þegar komið er að því að virkja blessuð fallvötnin okkar og hreint ekki víst að nokkur áhugi sé á því að gera það vegna nýungar sem kölluð er því fagra nafni ,,sjónræn áhrif”, sem því aðeins eru áhrif, að menn ætli sér að meta það svo.
Sjónræn áhrif af virkjunum eru svo dæmi sé tekið góð fyrir undirritaðan en afleit fyrir ýmsa aðra.
Því skulum við taka okkur saman í andlitinu og hætta öllum framkvæmdum, því þau hafa sjónræn áhrif á einhverja, einhverstaðar og einhvern tíma og ef ekki frá þessu sjóarhorninu, þá hinu.
Niðurstaða þessara hugleiðinga er sem sagt sú, að best sé, að gera helst ekkert og aldrei.
Því skulum við halla okkur aftur og láta okkur líða vel og fljóta sofandi að einhverjum ósi, þar sem allt er í besta lagi, bestra tíma eða í tímaleysi og utan þess rúms sem hægt er að ráða við.
Láta þau sem á eftir okkur koma um að leysa málið, það er svo þægilegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli