Það er ekki oft sem leiðari í dagblaði vekur bloggara af blundi, hálfsofandi fyrir framan skjáinn, en það gerðist í morgun þegar rennt var yfir Morgunblaðið, en þar sagði m.a. þetta um áhuga ráðherra Framsóknarflokksins á aðhaldi í ríkisrekstri:
,,Það er átakanlegt að hlusta á innviðaráðherra tala um aðhald í ríkisrekstri fyrir hádegi og 14 ný göng eftir hádegi, en þá verða fjöllin víst búin.“
Skömmu seinna er vikið að aga í ríkisútgjöldum hjá því sem sumir kalla slumpastjórninni og aðrir slettustjórninni, þar sem slett er fram 2 milljörðum í eitt og 1.2 í annað o.s.frv.:
,,Það ber ekki heldur vott um aga í ríkisútgjöldum þegar sveitarfélögunum voru afhentir 5 milljarðar vegna málefna fatlaðra án þess að ráð væri fyrir því gert og án umræðu að séð verður. Eða að 15 milljarðar fari nær stjórnlaust í málefni hælisleitenda á ári án þess að það megi ræða það nema í hálfum hljóðum.“
Síðan kemur þessi ádrepa:
,,Væri ríkisstjórninni alvara með aðgerðunum, þá væru þær ekki smáplástrar af þessu tagi. Það kæmi tekjulágum og barnafólki betur að lækka virðisaukaskatt á matvöru en að gramsa í millifærslukerfinu. Ef það á að lina húsnæðiskreppuna þá þarf ríkisvaldið að geta lagt sveitarfélögum línurnar um lóðaframboð. Ef það á taka frá peninga fyrir framtíðina væri nær að greiða niður skuldbindingar vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) en búa til Þjóðarsjóð. Og ef ríkið vill draga úr þenslu þá eru hægust heimatökin að draga úr þenslu ríkisins.“
Í vísnahorni Halldórs Blöndal í Morgunblaðinu 7.6.2023, sama dag og leiðarinn birtist, má lesa eftirfarandi vísu eftir Káinn:
,,Þegar fátt ég fémætt hef/í fórum mínum/úr sálarfylgsnum gull ég gref/og gef það svínum.“
Og einhvern veginn er það svo, að þó margar blaðsíður hafi verið á milli leiðarans og vísnahornsins, er sem þetta hafi verið valið saman af vandlegri yfirvegun!
Á sömu síðu og leiðarinn er síðan vönduð umfjöllun um efnahagsmál með fyrirsögninni: ,,34.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum“ og þar segir:
,,Allt að 48 þúsund einstaklingar og tæplega 34 þúsund fjölskyldur hér á landi voru undir lágtekjumörkum á árinu 2020 og eru þá meðtaldar húsnæðis- og barnabætur í ráðstöfunartekjum þeirra. Að meðaltali vantaði þær rúmar 2,1 milljón kr. í ráðstöfunartekjur á ársgrundvelli til að ná skilgreindum lágtekjumörkum.“
Þessu til viðbótar er einnig á leiðarasíðunni aðsend grein eftir Helgu Völu Helgadóttur og má þá segja að ein blaðsíða í dagblaði teljist fullsköpuð!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli