Þruma, kurr og öfgafullur kommúnismi, reiðarslag og gerræði og er þá ekki allt upp talið, því það vantar orku og komið er nóg af skattlagningu á ferðaþjónustuna.
Að kommúnismi hafi og eigi eitthvað sameiginlegt með ,,stefnu” Vinstri grænna er reyndar spurning, því þankagangur og hugmyndafræði þess stjórnmálafyrirbrigðis er svo sérkennileg að hæpið er að kenna það við venjulega vitræna hugsun og engan vegin við tilraun til að búa til hugmyndafræði sem rekja má aftur til þess sem var um miðja nítjándu öld.
Við erum á frekar skrýtnum stað í íslenskri pólitík, stað þar sem venjuleg viðmið eiga ekki við og þar sem flokkur sem við teljum vera lengst til hægri af því sem í boði er í flokkaflórunni Sjálfstæðisflokkurinn, er nálægt því í mörgum málum að vera það kalla má flokk heilbrigðrar skynsemi.
Ekki lengst til hægri, nema stundum og af mönnum sem augljóslega telja sig vera yst á hægri kantinum, en oftast, eins og fram kom hér að fyrr, flokkur sem gengur út frá því að lögmál eins og þau að 2+2=4 séu almennt í fullu gildi.
Afsprengi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisn, virðist ekki vita hvaðan hún er að koma, hvar hún sé, né hvert hún er að fara.
Framsóknarflokkurinn er eins og hann hefur verið alla tíð. Fyrst og fremst flokkur sveitanna að eigin mati, þ.e. landbúnaðarins og ferðaþjónustunnar í seinni tíð og vegna þess að hún fer að stórum hluta fram í sveitum, þó ekki sé það alveg.
Landbúnaður í huga framsóknarmannsins er sauðkindur, kýr, hestar og síðan eitthvað annað, sem þeir hafa séð en ekki áttað sig á, s.s. garðyrkja, svínarækt og kjúklinga, ásamt varphænsnabúskap til eggjaframleiðslu, því framsóknarmaðurinn vill fá harðsoðið egg á brauðið sitt og gjarnan með síld líka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli