Á myndinni sjáum við nokkrar af þeim fréttum sem verið hafa í umræðunni síðustu daga.
Sé farið eftir efri röðinni frá vinstri, þá er þar fyrst að taka að verið er að ræða um ,,losunarheimildir" vegna brennslu olíu í skipunum sem flytja okkur varninginn heim og að heiman, þ.e. vörur á erlenda markaði s.s. fiskafurðir, ál og fjölmargt fleira og þar á meðal kindakjöt sem ,,selt" er til útlanda á verði sem er langt undir því sem það kostar að framleiða afurðina.
Að því slepptu, er um nauðsynlega tekjuöflun þjóðarinnar að ræða, því nútímaþjóðfélag þarfnast tekna erlendis frá, til að geta keypt sér fyrir það sem þarf og verður ekki reynt að telja það allt upp hér.
Á myndinni næst til hægri, er verið að fjalla um hið undarlega ,,hvalveiðistopp", sem þar til bær ráðherra setti degi áður en vertíðin átti að hefjast. Og við vonum að ekki verði fundið upp á því að stöðva fiskveiðar líka á þeirri forsendu að verið sé að deyða dýr. Því þó við viljum vera góð og til fyrirmyndar í flestu, þá viljum við hafa eitthvað til að lifa á!
Ráðherrann sem um ræðir, gæti eins tekið upp á því að stöðva álsölu til útlanda á þeirri forsendu að ekki megi eyða íslenskri orku í að framleiða ál og satt að segja kæmi ekki á óvart að fundið yrði upp á því.
Sótt var um undanþágu á kolefnisskatti vegna flugvéla á þeirri forendu að Ísland væri eyja langt út í hafi og að til hennar og frá, yrði ekki komist án þess að sitja á rassi sínum í orkuspúandi flugdrekum. Það fékkst fram og gekk furðu vel, enda vilja flestir skreppa til útlanda til að lyfta sér upp og þ.á.m. vinstrigræningjar.
Nú vilja menn að það sama gildi um siglingar, að tekið verði tillit til þess að Ísland er eyja út í miðju hafi, en þá kemur babb í hinn íslenska bát! Vinstrivæningjum allra flokka er það ekki ásættanlegt og er helst á þeim að skilja sem, að daml skipa yfir Atlantshafið sé hinn mesti óþarfi. Auk þess sem þau geti bara brennt ,,einhverju öðru", til að vera laus við óhreinkun andrúmsloftsins.
Þetta ,,eitthvað annað", er eins og liggur í orðanna hljóðan, bara eitthvað og enginn veit nákvæmlega hvað það á að vera. Við erum svo heppin að eiga þá sem komið hafa fram með útlistanir á því hvernig komast eigi af í þessu efni, en því hefur verið kurteislega svarað með því að ,,mat ráðherra sé ekki alveg rétt" og kom það fáum á óvart.
Ljósi punkturinn er að framsýnn athafnamaður hefur náð árangri í því að selja útlendingum íslenskt vatn og gengið vel svo sem sjá má.
Vondu fréttirnar eru í neðri röðinni eins og vera ber og þar ber talsvert á frásögn af flóðunum sem urðu í Noregi þegar stífla brast. Þar var ekki hægt að opna lúgur til að hleypa út vatni og sýnir það okkur að fylgjast þarf vel með varnarbúnaði mannvirkja af þessu tagi. Það mun ekki hafa verið gert og því fór sem fór og kannski verða einhverjir látnir fara fyrir vikið.
Raforkan er uppseld og ekki fást heimildir fyrir nýjum virkjunum vegna ofurástar umhverfisvæningja sem vilja tryggja að helst engu verði raskað í landslaginu og þ.á.m., að ekki verði stíflaðar ár til raforkuöflunar. Því til viðbótar situr samfélagið okkar uppi með gömul lög sem hvetja sveitarfélög svo sannarlega ekki til að heimila byggingar orkumannvirkja.
Í horninu lengst og neðst til hægri eru síðan fastir liðir eins og venjulega: Ekki er ræddur losunarskattur (á skip) og ekki verður ,,bundinn endir á samstarfið enn".
Við tökum eftir enn- inu og bíðum eftir framhaldinu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli