Sameining framhaldsskóla
Það er ekki ofsagt að tillaga ráðherra menntamála, um
sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á sama stað hafi vakið
viðbrögð.
Undirritaður hefur leyft sér að grínast með málið, sem er
ekki rétt að gera sé það skoðað svo sem vert er.
Meiningin með hugmyndunum er örugglega góð, en hvort þær eru
framkvæmanlegar á eftir að koma í ljós.
Í Morgunblaðinu birtist í dag (8.9.2023) aðsend grein eftir
Þorstein Gunnarsson sem er fyrrv. rektor Háskólans
á Akureyri og tekur þátt í að leiða stýrihóp mennta- og barnamálaráðherra
um eflingu framhaldsskólans.
Greinin er málefnaleg og skýrir nokkuð vel það sem um er að
ræða og þar segir m.a.:
,,[John] Dewey benti á fyrir
meira en einni öld síðan er aðgreining eða tvíhyggja milli bóknáms og verknáms
úrelt. Í nútíma samfélagi eigum við að draga úr þessari tilgangslitlu
flokkun í bóknám og verknám. Í framtíðinni ætti svo til hver framhaldsskóli
hér á landi að geta boðið fram margs konar samsett nám, t.d. bóknám, iðn- og
starfsnám og listnám, svo nokkrar tegundir náms séu nefndar, sem býr ungt
fólk sem best undir framtíðina. Hér er þó ekki um algild markmið að ræða og
taka þarf tillit til styrkleika hvers framhaldsskóla, sögu, hefða, staðsetningar
og hagkvæmni í rekstri.“
Vel getur verið að það aðgreining náms líkt og verið hefur
sé ekki með öllu rétt og verður undirrituðum hugsað til þess, er hann stundaði
sitt nám til starfsréttinda. Þá sem stundum áður urðu ýmsar breytingar á námi til starfsréttinda til vélstjórnar.
Reglan hafði verið að fyrst tóku menn ,,sveinspróf“ eftir
nám í iðnskóla og starfsþjálfun hjá meistara. Síðan breyttist það og gefinn var
kostur á að fara þá leið að fara í svokallað námsskeið og síðan þrjá bekki í
Vélskóla Íslands, en full starfsréttindi fengust að loknu sveinsprófi í járniðnaðargrein
og starfsþjálfun á vettvangi.
Síðan var þessu breytt í ,,áfangakerfi“, sem lauk með fullum
réttindum, að lokinni þjálfun í starfi um tiltekinn tíma.
Í grófum dráttum var þetta svona, en vel getur verið að
eitthvað hafi gleymst í þessu þróunarferli.
Sveinsprófinu lauk undirritaður að lokum í Fjölbrautaskólanum
í Breiðholti með ,,fullum“ réttindum, enda stafsþjálfuninni þá löngu lokið á
starfsvettvangi.
Þessar hugleiðingar eru hér settar niður eftir lestur greinar
Þorsteins sem eru allrar virðingar verðar, að mati ritara.
Menntamálin þurfa að vera í sífelldri þróun og hvers vegna
eru MA og VMA ekki sama stofnunin sem gefur nemendum kost á námi sem greinist í
ýmsar áttir að lokum?
Tenglar á greinar um þessi mál sem lesnar voru og kveiktu
hugleiðingar: Menntun
í framhaldsskóla, jafnrétti og lýðræði (mbl.is); „Efling“
framhaldsskóla - Vísir (visir.is); Illa ígrunduð
áform Ásmundar - Vísir (visir.is); Vanhugsuð
sameiningaráform - Vísir (visir.is)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli