Fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra segir ferðaþjónustuna vera að drepa íslenskan landbúnað.
Ekki er það ofát á landbúnaðarvörum sem því veldur, eftir því sem komist verður næst, en formaðurinn og ráðherrann fyrrverandi, segir Framsóknarflokkinn hafa miklar áhyggjur af stöðunni og eftir honum er haft orðrétt:
,,„Ég bara skora á ríkisstjórnina að bretta upp ermar og opna augun og gera sér grein fyrir því að matvælalandið Ísland, við erum að tapa því út úr höndunum ef þeir ekki taka stórt á núna,”
Bragð er að þá barnið finnur segir einhverstaðar og því rengjum við ekki orðin. Við eru að tapa matvælalandinu Íslandi úr höndum okkar segir Guðni og rétt er að koma því á framfæri, að það er ekki vegna ofáts á þeim landbúnaðarvörum sem framleiddar eru í landinu.
Í fréttinni sem birtist á visir.is er eftirfarandi hvatning höfð eftir Guðna:
,,„Stjórnmálamennirnir verða að vakna og gera sér grein fyrir því að þetta er atvinnuvegur, sem lifir eða deyr hvort sem þeir taka á. Þeir halda utan um búvörusamningana, utan um tollamálin, utan um verðlagninguna, þannig að þeir koma að þessu öllu og þeir geta ekki verið stikkfrí.”"
Guðni segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með Svandísi Svavarsdóttur og er hann ekki einn um það, ef að líkum lætur.
Eftirfarandi er haft eftir formanninum fyrrverandi:
,,„Ferðaþjónustan átti að bjarga hér landsbyggðinni. Nú er ferðaþjónustan, sem ferðamaðurinn vill njóta. Nú er hún að drepa landbúnaðinn. Það er auðvelt að hætta og loka fjósinu og breyta því bara í gistihús. Þetta er bara alvarlegt mál eins og oft koma á borð þessarar þjóðar.""
Það næsta sem við fréttum af ráðherranum fyrrverandi, er að hann er kominn á kjördæmisþing Samfylkingarinnar - sem gestur - og virðist kunna vel við sig á þeim stað, enda Samfylkingin komin með 30% fylgi á meðan Framsóknarflokkurinn er í 8 prósentum eftir því sem segir í Morgunblaðinu.
Ekki fylgir sögunni að Guðni sé genginn í Samfylkinguna, en straumur fylgisins liggur þangað og er það ekki að undra, sé tekið mið af hvernig ríkisstjórn allra(?) pólitískra átta hefur haldið á spilunum.
Má þar nefna, auk þess sem hér hefur verið nefnt, innflytjendamál, hvalveiðimál, utanríkismál og orkumál, að ógleymdu dekri við rafbíla, sem virðast svífa ofar vegum að mati ríkisstjórnarinnar.
Með þeirri undantekningu, að fjármálaráðherrann virðist gera sér grein fyrir, að allt kostar sem nýtt er og að það gildir jafnt um rafbíla sem aðra bíla, að þeir slíta vegunum, en þar talar hann fyrir daufum eyrum félaga sinna í ríkisstjórnarsambræðingnum.
Félagarnir muna ekki hve rafmagnsstraujárnið getur verið þungt!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli