Hundsbit þykir ekki gott, en það gæti verið verra

 Biden heitir karlinn og er óbitinn eftir því sem best er vitað, en hvort hann er bitur vitum við ekki, en það gengur á ýmsu.

Skjámynd 2023-10-05 135352Svo langt er gengið, að í fréttum Útvarps allra landsmanna, var sagt frá því að besti vinur og ráðgjafi(?) forsetans í Bandaríkjunum hundinum Commander hafi verið komið fyrir á ónefndum stað, væntanlega í þeirri von að þar verði enginn fyrir biti.

Hundurinn er númer tvö í röð þeirra sem sendir er á brott frá þeim forsetahjónunum.

Hjónin kenna um streituvaldandi umhverfi hins Hvíta húss og af því má ráða, að hvuttarnir hafi ekki ráðið við álagið sem verunni í húsinu fylgir.

Samkvæmt orðabókinni þýðir nafn hundsins leiðtogi, yfirmaður eða eitthvað í þá veru, sem þá er væntanlega yfirhundur í þessu tilfelli, því ekki hafa borist af því neinar fréttir að hvutti hafi breyst í mann.

Eigandinn virðist á stundum ekki vita hvort hann er að koma eða fara, svo ekki er ólíklegt að Commanderinn hafi tekið til sinna ráða og reynt að vísa húsbónda(?) sínum veginn og hafi svo verið, hefur sannarlega ekki veitt af.

Húsbóndinn hinn óbitni(?) Biden, hefur verið í brasi um nokkurn tíma, staðið í stríðsrekstri, með baldinn verktaka sem rámur rymur og það svo, að öldunginum í Hvíta húsinu er vorkunn, þó hann nái ekki öllu sem úr þeim hálsi berst. 

Enda fór svo að uppvíst er orðið, að farið sé að sneyðast um í  vopnabúrum.

Gæti þar með verið kominn fram nýr starfavettvangur fyrir Commanderinn, sem gæti annað hvort tekið að sér að stjórna Bandaríkjunum fyrir Biden, eða þá Zelensky í hjáverkum, fyrst hann er ekki fær um að stjórna Úkraínu nema í hjáverkum vegna flökkueðlisins.

Hér heima á ísa köldu landi er allt miklu hversdagslegra. 

Fjármálaráðherra leggur til að af rafbílum verði innheimt gjald, líkt og gert er á öðrum bifreiðum og þó það sé hversdagslegt, eru rekin upp ramakvein, af hálfu þeirra sem telja eðlilegast að aðrir en þeir sjálfir, greiði fyrir notkun  þjóðveganna.  

Skjámynd 2023-10-05 113104

Þeir telja bæði sjálfsagt og eðlilegt að eingöngu sé greitt veggjald af bifreiðum sem brenna bensíni og gasolíu.

Niðurstaða ferðafrömuðanna, sem hér eiga hlut að máli, er að slík gjaldtaka, muni auka líkur á að orkuskiptin fari í vaskinn!

Af þessu má ráða að málið er viðkvæmt, rafbílarnir líka og raunverulegur grundvöllur virðist enginn undir atvinnuveginum og verður fróðlegt að fylgjast með, hvort almennt verður tekið undir þessi orð þar á bæ.

Hvort rafbílavæðing þjóðarinnar er líkleg til að lukkast, er reyndar ekki líklegt og bloggara hefur borist til eyrna, að þegar hafi sést menn á ferð um landið með bensínknúnar rafstöðvar sér til bjargar, til að hlaða bíla sína á ferðalögum.

Sé það rétt, blasir við að dæmið gengur ekki upp og kyrrðin og rómantíkin við tjaldútileguna verður lítil, með urrandi rafstöðvar við höfðalagið.

Að telja það sjálfsagt og eðlilegt að vera undanþeginn því að greiða veggjald til samfélagsins og ætla það öðrum, er viðhorf sem þarfnast skýringar svo ekki sé meira sagt.

Af Íslandi er það annars að frétta að ráðherra snupraði annan slíkan á opinberum vettvangi og sagði sem svo: ,,„Ég gæti líka rætt samnefnarann yfir þetta flest. Svandísi Svavarsdóttur sem situr með mér í ríkisstjórninni, ríkisstjórninni sem þið auðvitað elskið öll svo heitt og innilega. Um hana get ég sagt eitt, semsagt ríkisstjórnina ekki Svandísi: Þessi ríkisstjórn er skárri með Sjálfstæðisflokkinn í honum en án hans,“"

Það er sem sagt farið að hvessa dálítið við ríkisstjórnarborðið og skal engan undra eins og framganga vinstrigræningjanna hefur verið. 

Vextir sliga, ef háir eru og í Svörtuloftum er stefnt að því að hafa þá svo háa að bíti og því er ekki ólíklegt að hundur Bidens geti fengið vist í þeim glæsilegu húsakynnum sem þar eru.

Verði það úr, þá er óskandi að honum verði valinn staður við dyr peningaskápsins og úthlutað þar því hlutverki að bíta niður verðbólgudrauginn.

Geta þá stjórar og ráðgjafar gengið til annarra starfa, en þeirra að berjast við draug, sem þeir kunna ekki að kveða niður.

Eins og við vitum er Biden óbitinn, þó blankur sé orðinn og krankur dálítið og hver veit nema að hann hressist og gangi í endurnýjun lífdaganna fái íslenski verðbólgudraugurinn hundslega meðferð, fyrir tilstuðlan hins bitglaða hunds.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...