Lifum í nútíð, ekki fortíð

 Hjá Bændasamtökunum er ýmislegt að gerast eins og svo oft áður og félagar í samtökunum þurfa að kjósa sér formann.

Sitjandi formaður gefur kost á sér til endurkjörs, hefur verið farsæll í starfi og náð að sameina samtök bænda.

Bændur í landinu eru alla vega, þeir fást við margvíslegan búskap, en það er kjötframleiðslan sem tekur mest pláss í umræðunni og um hana er þarft að ræða.

Kjötframleiðslugreinarnar eru nokkrar: S.s. alifuglarækt - til framleiðslu á kjöti og eggjum -, svínarækt, nautgriparækt - til mjólkur og kjötframleiðslu, þá má nefna geitfjárrækt og sauðfjár, auk þess sem talsvert fellur til af hrossakjöti, þó þau séu nú orðið ekki beinlínis ræktuð í þeim tilgangi svo teljandi sé.

Bændasamtökin hafa breyst og ætli ekki megi segja að svo sé nú komið, að flestir bændur finni sig í samtökunum, hvaða búgrein sem þeir annars stunda.

Við erum enn nokkur á fótum, sem munum hvernig samtökin voru, þ.e. þegar þau voru bundin við hefðina sem var, þegar landbúnaðurinn var sauðkindur, kýr og hestar og þá í þeirri röð.

Undirritaður tók, svo dæmi sé tekið, þátt í því að sigla með heilu skipsfarmana af nýslátruðu lambakjöti í heilum skrokkum, til útlanda í sláturtíðinni. Kjöt sem selt var þangað svo nýslátrað og ferskt, að það var ekki einu sinni komið almennilegt frost í það! Frystikerfi skipsins þurfti að keyra á fullum afköstum allan lestunartímann og á siglingunni yfir hafið, til að ná upp frosti í vörunni, til að við henni yrði tekið í erlendri höfn.

Allt er þetta liðin tíð sem betur fer, þó finna megi sögur af frystigámum með lambakjöri, sem flækst hafa landa á milli, þar til þeir döguðu að lokum uppi, t.d. í Færeyjum; voru þá búnir að flækjast allt til sólarlanda og enginn vissi til hvers!

Það voru stigin gæfuskref þegar Bændasamtökin breyttust í nútímahorf; breyttust frá því að vera fyrst og fremst samtök sauðfjárbænda og yfir í það að vera samtök allra bænda.

Vissulega var fyrirferð sauðfjárræktarinnar mikil á fyrri tímum þegar kindakjöt var KJÖTIÐ og kom þar á móti fiskinum sem var ÝSAN, hin eina og sanna.

En nú eru breyttir tímar og við lifum í nútíðinni.

Meira er nú neytt í landinu af kjúklingakjöti en kindakjöti og það svo miklu munar, ef hlutfallið bein á móti kjöti, væri tekið með og því er það, að samkvæmt hinu forna viðmiði, ætti formaður Bændasamtakanna að koma úr röðum kjúklingabænda!

Svo er ekki og það er ágætt, hefur gefist vel og núverandi formaður hefur haft gott vald á hlutverki sínu.

Þó er komið á móti honum framboð!

Sauðfjárbændur harma sinn hlut og sakna fyrri tíðar sem rekja þarf nokkur ár aftur, eða aftur til þess sem var, áður en núverandi formaður kom til sögunnar, en hann hefur leitast við að gera öllum búgreinum jafnt undir höfði, ef svo má segja.

En af hverju harma sauðfjárbændur sinn hlut? Er það vegna þess að ekki hafi verið haldið vel á því sem að þeim snýr? Svarið er nei.

Núverandi formaður kemur úr röðum garðyrkjubænda og það hefur gefist vel og ekki annað að sjá en hann hugi að hag bændastéttarinnar sem heildar, og hvers vegna ætli það sé?

Algengasta meðlæti sem notað er með kjöti, er einhver afurð garðyrkjunnar.

Það eru afurðir garðyrkjunnar sem sameina okkur í kjötátinu!

Það skyldi nú ekki vera að þar sé fundin ástæðan fyrir því að núverandi formaður sameinar en sundrar ekki, að hann sjái vítt yfir og vilji hag allra jafnt?

Hugsi ekki um sérhagsmuni, heldur heildarhagsmuni.

Geti menn ekki fundið sér farveg og verið sáttir við sinn hlut undir slíkum kringumstæðum, ættu þeir að kanna hvort ekki sé rétt að stofna sérstök samtök um að koma sínum málum á framfæri.

Þess þarf reyndar ekki, þegar betur er að gáð, því slík samtök sauðfjárbænda eru þegar til staðar og eru innan heildarsamtaka bænda!

Gallinn er bara sá, að hér hefur verið dottið niður í gamalt uppþornað hjólfar, eftir þau sem ekki töldu menn og konur til bændastéttarinnar, nema þeir byggju með sauðkindur.

Við getum horft til fortíðarinnar og lært af henni, en ekki lifað í henni!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...