Fætt er fjárlagafrumvarp og kominn er nýr fjármálaráðherra og í Heimildinni er lítillega sagt frá því.
100 milljarða halli á tveimur árum er víst eitthvað til að stæra sig af, í ríkisstjórn tíðra ráðherraskipta og stýrivextir á tíunda prósent líka, ef menn vilja sækjast eftir frægð.
Hvort því fylgir sá frami sem vonast er eftir er ekki eins víst.
Greinin sem myndin er af er úr Heimildinni en fréttina heyrði bloggari fyrst í Ríkisútvarpinu en sem sást þar ekki á rituðu formi, þegar til stóð að athuga hvort um misheyrn hefði verið að ræða.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa skipt um ráðuneyti af miklu kappi, einn þeirra langaði t.d. til að verða forseti á Bessastöðum og lagði 54 milljónir í baráttuna fyrir að ná embættinu.
Vinstrigræningi sem genginn var í íhaldsbjörg, virtist þjóðinni ekki traustvekjandi kostur í embættið og þar með var úti það ævintýri.
Ráðherra sem ætlar að vera búinn að byggja brú, sem ekki er enn búið að hanna, yfir Þjórsá fyrir árslok 2024 er tæplega álitlegur fjármálaráðherra en getur þó skákað í því skjólinu, að sá sem þar var fyrir, hafði ekki reynst sérstaklega vel í ráðstöfun fjármuna úr hinum sameiginlega sjóði landsmanna.
Rétt er að taka fram, að komið er fram nýtt ártal hvað varðar byggingu brúarinnar sem fyrr var nefnd, en hvort það stenst betur en hið fyrra verður tíminn að leiða í ljós.
Yfirskrift fjárlagaplaggsins mun vera ,,þetta er allt að koma" og eru það orð sem gera má ráð fyrir að fæðingarlæknir myndi nota til uppörfunar og hughreystingar.
Það er eitt og annað sem er rétt að koma, því til stendur að byggja nýtt fangelsi fyrir gistivini réttlætisins, auk brúarinnar fyrrnefndu.
Það á nenilega að efla og styðja „hóflegan raunvöxt útgjalda“.
Eins og það hefur gengið undanfarin ár hjá þeim sem í ríkisstjórnarbrúnni standa, er vart hægt að álykta annað en, að um glamur sé að ræða.
Verði það hins vegar að veruleika, þá verður líkast til lokað fyrir leikaraskap af ýmsu tagi eins og t.d. ríkisstjórnarflandur út á land til fundarhalda og flug með flugvélarfarm af alls konar vildarvinum yfir hálfan hnöttinn í boði alþjóðar.
Þar sem saman var komið í þeim tilgangi að stuðla að bættri umgengni við náttúruna!
Rétt er að taka það fram, að ,,útálandifundarhöld" eru ekki uppfinning ríkisstjórnarinnar lánlitlu og síbreytilegu, því ef rétt er munað var sá siður tekinn upp fyrir nokkrum kjörtímabilum síðan.
Hver tilgangurinn er annar en að bregða sér í skreppitúr í boði alþjóðar er ekki vitað.
Stjórnarráðið mun vera í Reykjavík og þurfi fólk að fara út á land til að sletta úr klaufunum, þá er eðlilegast að hver geri það í boði sjálfs sín.
Að ríkisstjórnin hressist líkt og Eyjólfur forðum er óvíst, en við vonum það besta og að liðsmenn hennar fari að finna fjöruna sína í pólitíkinni og átta sig á til hvers þau voru kosin.
Það styttist í kosningar og í þeim mun þjóðin segja sína skoðun með lýðræðislegum hætti svo sem vanalegt er og vonandi tekst vel til með talningu atkvæða!
Þegar þar að kemur, mun koma í ljós hvort einhver frambjóðandi hefur í ógáti boðið sig fram í vitlausum eða vitlausari flokki en hann hafði ætlaði sér og guð hafði mælt með.
Við bíðum spennt eftir framhaldinu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli