Bændasamtökin í fortíð og nútíð

 Í Heimildinni er farið yfir hallarbyltinguna sem gerð var hjá Bændasamtökunum, þegar kosinn var nýr formaður og framkvæmdastjóri, sem ný forysta rak síðan úr starfi án sýnilegrar ástæðu.

Við erum nokkur sem munum það sem var hjá Bændasamtökunum – áður Stéttarsambandi bænda – og síðan breytingarnar sem seinna urðu.

Bændasamtökin áður voru áður fyrr fyrst og fremst samtök sauðfjár- og kúabænda, enda þær búgreinar umsvifamestar á þeim tíma og þá einkum sauðfjárræktin, sem auk afurða af kindinni til sölu á innanlandsmarkaði, framleiddi svo mikið umfram þörf, að flytja þurfti afurðina út í skipsförmum.

Smávegis greiðslur fengust fyrir kjötið og Skipadeild Sambandsins, sem sá um flutninginn til annarra landa, fékk eðlilega greiðslur fyrir.

Þannig var þetta um langan tíma og þar kom, að stórir draumar vöknuðu hjá þeim sem gegndu trúnaðarstörfum fyrir bændur og niðurstaða þeirra varð, að ekkert minna dygði en að byggt yrði glæsihótel til að hýsa starfsemina og framkvæmdin yrði fjármögnuð m.a. með því að leggja gjald á bændur landsins og þ.á.m. bændadætur og syni sem áttu oft eina eða fleiri kindur sem þau fengu að njóta innleggsins af að hausti.

Með árunum fjaraði smátt og smátt undan og æ minna var í kassanum til að borga reikningana og svo fór að blaðran sprakk og þau sem þá voru komin til starfa hjá samtökunum, urðu að bjarga því sem bjargað varð og máttu taka saman, flokka, hreinsa og henda og flytja að lokum starfsemina annað og nú er Hótel Saga ekki lengur til.

Eitt af síðustu verkum þeirra sem áður réðu húsum, var að fjárfesta í hótelhúsgögnum fyrir ómældar upphæðir og hafa þær eflaust verið bornar út líka en ekki fer miklum sögum af, að mikið hafi fengist fyrir þau í endursölu þ.e.a.s. ef þau fóru þá ekki á haugana.

Það kom í hlut nýrra vanda að hreinsa út og sópa, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og kosinn var vænn maður úr hópi garðyrkjubænda til að stýra samtökunum með nýrri stjórn og nýjum framkvæmdastjóra.

Það fólk gekk síðan í að í að gera það sem gera þurfti og var það ekki lítil vinna, að hreinsa út allskyns uppsafnað rusl sem orðið hafði til með tímanum.

Frá þessu er m.a. sagt í grein Heimildarinnar sem tengillinn er á í upphafi þessa pistils og verður það ekki rakið lengra, en þegar tiltektinni var lokið var gerð hallarbylting og kosinn sauðfjárbóndi sem formaður samtakanna og framkvæmdastjórinn rekinn og nýr ráðinn.

Þannig var þeim þakkað fyrir vel unnin störf, að þau voru látin víkja.

Það þykir gott að hafa grænmeti með kjötmáltíðunum og því var það, að mörgum í bændastétt, þótti það ekki verra að garðyrkjubóndi væri í forystu, þ.e. bóndi sem framleiðir það sem haft er með flestum kjötréttum.

Það er nefnilega fleira matur en feitt kjöt!

Hin nýja bylting varð til þess að horfið var aftur til fyrri tíðar að því leiti til, að hinn nýi formaður er sauðfjárbóndi.

Sumir segja að sagan gangi í hringi, breytist og endurtaki sig síðan og svo er að sjá sem það hafi sannast hjá samtökum bænda en hvort að eftir eins og hálfa öld verður kosinn til forystu samtakanna maður úr hópi þeirra sem sameina og horfa til framtíðar, mun tíminn einn leiða í ljós.

_ _ _

Það er framkvæmdastjórinn sem látinn var hætta, þegar nútíðin breyttist í fortíð, sem rætt er við í grein Helga Seljan og sem vitnað var til hér í upphafi.

Í grein Helga er m.a. eftirfarandi haft eftir Vigdísi Häsler fyrrverandi framkvæmdastjóra:

„Framsóknarmenn voru aðallega pirraðir því Bændasamtökin voru þeirra vígi. Ég lagði mig hins vegar fram um að vera frekar í sambandi við og nálgast fólk í öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Ég var að vinna fyrir atvinnugreinina en ekki einstaka stjórnmálaflokka. Ég held að það hafi gengið vel,“ segir Vigdís og bætir við að þó að hún hafi verið að vinna á Alþingi og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafi hún aldrei verið í starfi þar sem pólitíkin var jafnmikil. „Það er alveg ofboðsleg pólitík í Bændasamtökunum.“

„Menn verða að passa að þetta verði ekki eins og hér áður fyrr þegar Framsóknarflokkurinn ók um sveitir landsins ásamt forystu Bændasamtakanna. Við erum með alls konar landslag af bændum. Þeir eru Píratar, þeir eru Sjálfstæðismenn, Vinstri græn, á óháðum listum – allt pólitíska litrófið.“

„Ég hlustaði ekki á umfjöllun um landbúnað og keypti mér ekki kótilettur“, segir Vigdís Häsler á einum stað í viðtalinu.
Myndirnar eru úr grein Heimildarinnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...