Fréttir á aðfangadag o.fl.

 Við lauslegt yfirlit á fréttum, getum við séð umfjöllun á CNN.COM og BBC.COM um ferðalög af mismunandi gerð.

Á CNN halda menn sig við Jörðina og farið er um ,,sundið“ milli Suður Ameríku og Suðurskautslandsins, þar sem straumar mætast með tilheyrandi ólgu.

Þegar litið er aðeins til hægri á skjánum birtast kunnuglegar myndir þar sem verið er að auglýsa ferðalög til Íslands.

Á BBC er farið aðeins lengra, því þar er sagt frá geimfari sem er á leið til Sólarinnar.

Þegar við höfum lokið skoðun á þessum frásögnum, af ferðalögum af mismunandi tagi, getum við leitt hugann að því sem á gengur í samskiptum manna og þjóða, þar sem ekki hefur tekist að leysa ágreining með eðlilegum mannlegum samskiptum.

Það er barist um austurhéruð Úkraínu og það er barist í Ísrael og Palestínu og reyndar miklu víðar í heiminum.

Það er sem sagt ekki sérlega friðsamlegt í veröldinni, þó hátíð friðar sé að ganga í garð meðal kristinna þjóða og enn og aftur horfum við upp á það, að menn ná því ekki að greiða úr ágreiningi sínum með friðsamlegum hætti.

Maðurinn sem kosinn var til forseta í Bandaríkjunum sér þann kost vænstan að ,,kaupa“ Grænland af Dönum og honum kemur það væntanlega ekkert við, að á Grænlandi býr þjóð og hefur búið um tíma sem mældur er í hundruðum og jafnvel þúsundum ára.

Hrokinn er ekki mældur í fingurbjörgum í ,,guðs eigin landi“ og reyndar reiknum við með að guð hafi lítið komið nærri hugmyndasköpun af þessu tagi.

Það er nefnilega svo, að hrokinn verður ekki mældur í rúmmáli né með vigt, hvorki í því landi né öðrum.

Þá langar til að ,,kaupa“ Grænland og þeir ætluðu að ráða því t.d. hvernig Vietnamar hegðuðu lífi sínu; fórnuðu þar sínum eigin mönnum og enn fleiri íbúum Vietnam, í tilraun til að komast yfir land sem þeim kom ekkert við.

Hunskuðust síðan burt við frekar lítinn orðstír, þreyttir og þjakaðir, auk þeirra sem komu heim og höfðu áður komið heim í pokum, þ.e.a.s. ef þeir þá fundust.

Og þeir eru ekki einir um hátterni af þessu tagi, því sagan greinir frá ámóta framferði svo langt aftur sem hægt er að kanna og þar koma margar þjóðir við sögu.

Við höldum samt í vonina um frið í heimi og reynum að láta þá von endast allt árið og árin en ekki aðeins yfir jólahátíðina.

Gleðilega hátíð!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...