Það var stór áfangi í dreifingu orku, þegar teknar voru í notkun gaslagnirnar frá Rússlandi um Úkraínu og yfir til vestur- Evrópu.
Mynd úr The Guardian
Fljótlega fór samt að bera á því að ekki yrði um vandræðalausa miðlun að ræða, því gasið sem lagði af stað í lögnunum skilaði sér ekki allt þangað sem til stóð að það færi, þ. e. til vestur- Evrópulandanna sem greiddu fyrir það sem þau fengu…, en ekki fyrir það sem sent var af stað.
Það eru eðlilegir viðskiptahættir að greitt sé fyrir það sem afgreitt er.
Finnst flestum en ekki öllum.
Fljótlega fór að bera á því að það bar ekki saman mælingum á því sem sent var af stað og því sem tekið var út og þegar málið var kannað kom í ljós að boruð höfðu verið göt á lagnirnar og útbúinn aftöppunarbúnaður til að hægt væri að ná sér í gas án þess að borga þyrfti fyrir það.
Götin voru í Úkraínu og þar fór fram hin úkraínska miðlun á ódýrri orku.
Nú bregður nýrra við, því hinir orkuþurfandi Úkraínar hafa tekið upp á því að loka fyrir streymi á gasi til þjóðanna í vestri.
Og þeir gera það um hávetur þegar þörfin fyrir orku til hitunar er mest en þeim sást yfir að hægt er að loka fyrir á fleiri stöðum og nú fæst ekki lengur ókeypis gas úr lögnunum góðu í Úkraínu!
Frá þessu er sagt í ýmsum miðlum, s.s. The Guardian og CNN.COM, og þótt það hafi verið stór áfangi á sínum tíma að geta fengið streymandi gas til upphitunar o.fl. með þessum auðvelda hætti, þá er það ekki svo lengur.
Eftir að ófriðurinn milli landanna færðist í það horf sem verið hefur í seinni tíð, hafa gasflutningarnir með þessari leið verið ótryggir en við því hefur verið brugðist með ýmsum hætti.
Það hljóp svo dæmi sé tekið á snærið hjá bandarískum aðilum, sem sáu sér færi til að flytja út gas til Evrópu með gasflutningaskipum en eins og flestir munu átta sig á, þá er það ekki eins hagkvæmur kostur eins og að gasið streymi einfaldlega um leiðslur.
Og ekki má heldur gleyma því að vistvænskan fýkur út um strompinn á flutningaskipunum!
Úkraínar loka fyrir gasstreymið eftir lögnunum og þakka þannig fyrir hinn vestræna stuðning, sem verið hefur við þá í átökunum milli þjóðanna og sem hefur svo dæmi sé tekið, kostað íslenska þjóð milljarða ef ekki milljarðatugi ef allt er talið.
Fyrir Rússa er þetta trúlega ekki mjög mikið mál því þeir selja gas í margar áttir en fyrir íbúa Evrópu, a.m.k. suma, er þetta vont mál, því orkuverð hefur farið hækkandi og tekið æ meira í pyngjur allra sem gasið nota.
Og svo má ekki gleyma því að nú gera má ráð fyrir því að Rússar loki fyrir streymi á gasi til Úkraínu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli