Falleinkunn á firru

 

Myndin er af blaðsiðu 41 í Bændablaðinu (25. mars 2021)


Það er líklegast ekki ofsagt að verkefni sem ýtt var úr vör að tilstuðlan sauðfjárbænda hafi skilað slæmri útkomu, samkvæmt því sem lesa má í Bændablaðinu í grein sem er skrifuð af tveimur dýralæknum, þeim Halldóri Runólfssyni og Katrínu Andrésdóttur.

Læknarnir tveir byrja grein sína á að segja frá því að í Bændablaðinu sem kom út þann 11. mars sl. hafi verið fjallað um skýrslu Hólmfríðar Sveinsdóttur um  ,,tilraunaverkefni um heimaslátrun haustið 2020.“

,,Markmið verkefnisins var að leita leiða til þess að auðvelda bændum að slátra sauðfé heima til markaðssetningar [og að gera það] þannig að uppfyllt væru skilyrði regluverks um matvælaöryggi og gætt væri að dýravelferð og dýraheilbrigði. Lagt var upp með að afurðir af gripum sem slátrað væri í tilraunaverkefninu færu ekki á markað.“

Dýralæknarnir telja nauðsynlegt að kafa betur ofan í ,,verkefnið“ sem alls 25 bæir munu hafa tekið þátt í, eða eins og þar segir: ,,Undirrituð telja nauðsynlegt að rýna nánar í skýrsluna og skoða hvernig tekist hefði að uppfylla sett skilyrði.“

Til að gera langa sögu stutta, er niðurstaða dýralæknanna sú, að þekkingu bænda, aðbúnaður og vinnubrögðum hafi verið áfátt og því til viðbótar höfðu bændurnir ekki haft fyrir því að kynna sér reglugerð (nr. 856/2016) af óskýrðum ástæðum.

Þá kemur fram að skortur var á ,,lágmarks hreinlætisaðstöðu í nokkrum tilfellum“ og að hætta hafi verið á jarðvegsmengun (listeríu).

Síðan segir:

,, Aðrar sjúkdómsvaldandi örverur eins og E. coli (STEC), Salmonella og Clostridium geta borist með kjötafurðum í fólk. Því miður bendir allt til að E. coli (STEC) bakterían sé hluti af örveruflóru íslenskra nautgripa og sauðfjár og því full ástæða til að vanda vinnubrögð í slátrun og kjötvinnslu.“

Til stóð að eftirlit dýralækna færi m.a. fram með rafrænum hætti(!) og það tókst ekki svo fullnægjandi væri. Þá var ekki hægt að meta hreinlæti við meðferð afurðanna ,,þar sem myndskeið og myndir hafi ekki verið af þeim gæðum að hægt væri að meta t.d. hár á skrokkum“.

Réttast er að áhugasamir lesi grein dýralæknanna sem er í Bændablaðinu sem út kom þann 25. mars 2021 og er á blaðsíðu 43.

Sauðfjárbændur, sumir hverjir, hafa reynt að telja sjálfum sér og öðrum trú um að það geti orðið bót að því fyrir afkomu greinarinnar að lömbunum yrði slátrað heima á bæjunum og vinnsla og sala fari fram þaðan.  

Eins og fram kemur í grein dýralæknanna þarf ýmislegt til að það geti gengið upp. Það er ekkert sem bannar að bændur komi sér upp sláturhúsum og vinnslu og dæmi eru um að það hafi verið gert og greinarhöfundar nefna tvö þekkt dæmi þar um.

Heimaslátrun sú sem tíðkast hefur um langt skeið og fram hefur farið við vafasamar aðstæður - svo ekki sér djúpt tekið í árinni - er hins vegar ekki það sem getur leyst af hólmi sláturhúsin sem notast hefur verið við fram til þessa.

Fúsk og svartamarkaðsbrask leysir engan vanda né býr til lausnir á offramleiðslu þeirri sem nú er. Finnst ekki með lógum kinda að hausti heima á bæjum, í vélaskemmum, úti á hlaði, í fjárhúsum, né á hlöðum úti og síðan sölu kjötsins fram hjá heilbrigðiseftirliti og skattyfirvöldum.

Lausnin er til og það þarf að nota hana. Laga framleiðsluna að raunverulegum markaði fyrir afurðina og breyta kerfi sem er þannig að sauðfjárbændur eru sem verktakar á vegum ríkisins í framleiðslu á kjöti sem ekki er markaður fyrir.

Horfast í augu við að  draumar um að íslenskt kindakjöt verði eftirsótt af erlendum þjóðum, standast ekki skoðun, eru á skjön við veruleikann og má rekja til ástands í heimsmálum sem við vonum að aldrei komi aftur.

Grein dýralæknanna er falleinkunn á firru sem aldrei gat gengið upp. Hvað hún kostaði skattborgarana vitum við ekki, en það hefur vafalaust verið sem lítill dropi í það peningafen sem búið hefur verið til utan um þessa búgrein. 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...