Landbúnaðarráðherra fékk blómvönd frá Bændasamtökunum við setningu Búnaðarþings.
Bændasamtökin vilja ekki vera sem aðrir atvinnuvegir undir Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneyti. Eins og sjá má í fyrirsögn þessarar fréttar hugsa forystumenn Bændasamtaka Íslands hærra og vilja meira, því ekki ætlum við þeim að þeir telji landbúnað ekki vera atvinnuveg. Vissulega er landbúnaðurinn sérstakur og fjölbreyttur, en að hann teljist ekki vera atvinnuvegur og að forystumenn Bændasamtakanna líti svo á að landbúnaður eigi ekki samleið með öðrum atvinnuvegum í ráðuneyti atvinnuvega er dálítið sérstakt.
Eins og fyrr sagði er landbúnaðurinn sérstakur. Hann er að hluta ríkisrekinn í þeim skilningi að t.d. sauðfjárræktin er í gegnum búvörusamninga o.fl. á framfæri ríkissjóðs og hún væri ekki til í núverandi mynd ef það væri ekki svo. Ýmsar aðrar búgreinar spjara sig þokkalega án stuðnings eða sérstakra samninga við ríkið og það eru ekki nema búgreinin fyrrnefnda, nautgripa og garðyrkja sem í einhverjum mæli njóta stuðnings frá ríkinu. Þó allt sé það hverfandi í samanburði við þá fyrstnefndu.
Sitthvað bendir til að gamlir siðir séu enn í fullu gildi og í hávegum hafðir. Sé myndin hér fyrir ofan skoðuð sést að einn af smærri öngum landbúnaðarins á undir högg að sækja og þar eru hafðar áhyggjur af því hvað verði um lítið félag í nýju félagskerfi? Verður að því hlúð, eða verður það sett hjá og út í kuldann?
Vísbendingar eru um að svo verði:
Geitfjárbændur sóttu um styrk til Matvælasjóðs varðandi afurðir sínar og fengu höfnun, sem rökstudd var með því að geitur færu illa með land.
Á sama tíma fengu sauðfjárbændur góðar viðtökur í sama sjóði og þá voru ekki uppi áhyggjur af illri meðferð lands og það þrátt fyrir að rannsóknir vísindamanna sýni að gróðureyðing hálendisins má rekja til óhóflegrar beitar þess fénaðar á viðkvæman gróður þess.
Viðtal við Oddnýju Steinunn |
Við vitum sem sagt það sem við höfum lengst af vitað, að landbúnaðargreinar eru ekki metnar jafnar, hafa aldrei verið það og að ekki stendur til að svo verði.
Þó ekki sé nema vegna þeirrar vitneskju, treystum við því illa að fyrirhuguð sameining Bændasamtakanna sé eitthvað sem hægt er að byggja á, treysta á, eða trúa að sé annað og meira en glamur sem sett er fram til þess eins að tvístra og veikja þau félagssamtök sem stofnuð hafa verið á undanförnum árum, til að vera bakhjarl þeirra búgreina sem Bændasamtökin hafa aldrei gengist við.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli