Í Kjarnanum getum við lesið um hvernig utanríkisráðherra okkar hefur upp á sitt eindæmi gert Ísland að aðila að sameiginlegum ,,viðbragðssveitum" sem kallaðar eru uppá enskuna ,,Joint Expeditionary Force", og það gerði hann með bréfi sem sent var til varnarmálaráðherra Bretlands 11. janúar sl.
Við vitum flest að utanríkisráðherrann er Guðlaugur Þór Þórðarson úr Sjálfstæðisflokki og minnir þessi gjörningur óþægilega á það þegar þáverandi formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks skráðu Ísland í ,,hóp hinna viljugu þjóða", þegar morðæði var runnið á forseta Bandaríkjanna þess sem sem þá var.
Við fengum síðan að fylgjast með því í beinni útsendingu hvernig Írak var lagt í rúst með tilheyrandi manndrápum, sem ,,toppuð" voru þegar handbendi innrásarhersins slitu höfuðið af fyrrverandi æðsta manni ríkisins í fremur ófaglegri hengingu.
Um svipað leyti bárust fréttir úr fangelsinu Abu Ghraib, þar sem viti firrtir bandarískir fangaverðir gerðu sér það til dundurs að misþyrma íröskum föngum með ótrúlega ógeðslegum hætti.
Ekki þótti ástæða til að bera þessa skráningu undir Alþingi; þeir gerðu þetta bara svona prívat og persónulega NATO- vinirnir í þáverandi ríkisstjórn, utanríkisráðherrann og forsætisráðherrann.
Verður manni þá hugsað til þess hvernig stjórnmálamenn þessarar gerðar myndu stjórna ef þeir væru æðstu menn ríkja, ríkja sem slíkir dæma fyrir ólýðræðislega tilburði ýmiskonar.
Nú hefur utanríkisráðherra okkar, án þess að spyrja kóng eða prest, klínt þjóðinni í fyrrverandi viðbragðssveit og við vitum nú hvernig stjórnmálamaður hann er.
En við vitum ekki enn, hvort gjörðin var borinn undir samstarfsflokkana í ríkisstjórninni. Vitum þó að Framsóknarflokkurinn hefur tæpast verið þungur í taumi ef að líkum lætur, en fróðlegt væri að fá fram hversu taumléttur hinn vinstri græni flokkur forsætisráðherranns hefur verið.
Var hann taumléttur þægur og lipur félagi varðberginganna, eða var einfaldlega ekki haft fyrir því að ræða málið við fólkið á þeim bæ?
Þáverandi forsætisráðherra þótti þetta nú svo sjálfsagt að hann brást illa við þegar hann var spurður um veru lands vors á lista hinna viljugu þjóða, hann er jú lærifaðir utanríkisráðherra. Hvað ætli komi okkur svo næst á óvart?
SvaraEyða