Framkvæmdastjóri ASÍ veldur hugljómun

 Það er ekki oft sem birtast greinar í fjölmiðlum sem eru þess eðlis að fyrir manni opnast nýr heimur með nýjum hugljómunum. 

Og ekki nóg með það. Það sem áður var, er ekki og það sem ekki var, er orðið að staðreynd.

Ritari er alinn upp af fólki sem vissi hvað fátækt var og það vissi að ekkert verður til af engu. Það vissi líka að eitthvað sem er, getur orðið engu. 

Þannig var það og hafði alltaf verið og þegar það fólk kynntist kennisetningum sósíalismans (stjórnmálastefnu sem nýaldarsinnar í verkalýðshreifingunni og víðar hafa tekið sér í hendur og hnoðað í nútímaform eftir eigin höfði), þá rann upp fyrir því fólki að málin gætu snúist um að skipta gæðunum öðruvísi en gert hefði verið. Skipta því sem er öðruvísi en verið hefði.

Nú þarf ekki lengur neitt að vera. Veruleikinn er orðinn afstæður eða fljótandi og engri hönd á hann festandi.

Fram er komin ný og heppilegri kennisetning.  Kenning sem flýtur út um víðan völl og gengur út á, að verðmæti séu einhverskonar fljótandi hugrenningar sem komi viðurkenndu og úreltu staðreyndaþusi ekki neitt við. 

Tíminn líður og margt breytist vissulega, en að fastarnir í tilverunni umbyltist gjörsamlega er ekki það sem úreltur karl sem rekur tilveru sína til miðrar tuttugustu aldar, reiknar með.

Í hinni merku grein sem ritari rakst á, í vefmiðlinum Kjarnanum og sem nálgast má með tenglinum sem er snemma í þessum hugleiðingum segir m.a.:

,,En stað­reyndin er sú – og ætti ekk­ert að þurfa að árétta það – að hag­fræði fjallar um mann­legt sam­fé­lag og telst til félags­vís­inda. Þær breytur sem eru að verki í hag­kerf­inu eru allar háðar mann­fólk­inu og verða ekki með nokkru móti færðar undir grunn­hug­tök eðl­is­fræð­inn­ar. Ef það eru til staðar lög­mál í hag­fræði þá eru þau, ólíkt lög­málum efn­is­heims­ins, sífelldum breyt­ingum und­ir­orp­in."

Eins og sjá má þá  er hagfræði félagsvísindi og kemur ekki staðreyndum neitt við.

Hagfræði og trúarbrögð fara samkvæmt þessu saman og er það fróðlegt fyrir okkur sem höfum allt lífið baksað við að greiða reikninga með krónum og aurum (meðan auranna naut við) að fá upplýst að það hafi allt verið á misskilningi byggt.

Hefði svo dæmi sé tekið verið gott að vita þetta þegar reikningar voru komnir á gjalddaga.

Þá hefði maður bent þeim sem vildu fá sitt, á að krafan væri byggð á alrangri kenningu því bókhaldið væri byggt á kennisetningum sem ekki stæðust skoðun.

Plús væri ekki plús nema samkomulag væri um það. Eins væri um mínusinn og öll hin stærðfræðitáknin, þau væru í raun öll á misskilningi byggð, nema misskilningurinn væri sameiginlegur skilningur aðila.

Veröldin er svo sannarlega skrýtin. 

Það sem mér finnst vera ljós, er myrkur í augum nýsósíalista og öfugt og framvegis er það samkomulagsatriði hvort dagur er dagur eða nótt.

Og er kannski tilveran ekki annað en ímyndaður fugl út í mýri?  


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...