Björn Bjarnason skrifar grein um landbúnaðarmál í Morgunblaðið 25.6.2021.
Í grein sinni fer Björn yfir málin og á einum stað
segir þar, að samningurinn við ESB sem gerður var árið 2015 hafi verið
,,misráðinn".
Björn er ekki stóryrtur í greinum sínum eftir því sem ég hef
séð, þannig að vert er að veita því athygli þegar hann kveður þetta fast að
orði og gefur einkunn sem þessa.
Á það að umræddur samningur væri illa lukkaður var bent af mörgum strax árið 2015 og oft síðan og þar á meðal af þeim sem þetta ritar.
Við munum að sá sem var í forsvari fyrir landbúnaðarmál í
ríkisstjórninni sem var við völd árið 2015 var núverandi samgönguráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins, og þó ofsagt sé að hann beri einn alla ábyrgð á samningnum, er þó óhætt að segja að ábyrgðin sé mikil.
Tilgangurinn var augljós og greinilegur, þ.e.a.s. að opna á markað fyrir kindakjöt í ESB- löndunum. Ekki er vitað til að gerð hafi verið nokkur greining á hver markaðstækifærin væru og helst var svo að sjá, sem blautur fingur hafi verið settur upp í loftið og niðurstaðan orðið sú að handvalið hafi eftir óskhyggjunni einni hver tækifærin væru og engu máli hafi skipt hvernig vindurinn blés.
Engin greining, ekkert mat og óskhyggjan réði för.
Markaðstækifærin reyndust engin. Höfðu engin verið og verða trúlega engin og aldrei. Nema að talið sé að markaðstækifæri felist í að selja vöru á verði sem er langt undir framleiðslukostnaði.
Og einn gámur af kindakjöti dagaði uppi í Færeyjum eftir eins eða tveggja ára ævintýraflakk um Evrópu og dvöl á Spáni.
Við skulum ekki óska þess að sú staða komi aftur upp sem var, þegar Evrópu skorti matvæli eftir ægilegar hörmungar af mannavöldum. Þá var hægt að selja kindakjöt úr landi. Síðan er liðinn mannsaldur.
Þegar ráðherranum var bent á hve varasamur samningurinn væri, á
fundi með sunnlenskum bændum þar sem hann var til umfjöllunar, svaraði ráðherrann því m.a. til, að menn yrðu ,,að standa sig".
Bændur sem framleiða nautakjöt, mjólkurafurðir, svínakjöt, svínakjötsafurðir og alifuglakjöt og afurðir þess, áttu ,,að standa sig" gagnvart innflutningi til Íslands á afurðum þeirra framleiðslugreina til að íslenska ríkið gæti ,,selt" kindakjöt til Evrópulanda.
Voru notaðir sem skiptimynt í samningagerðinni og hagsmunir þeirra voru vegnir og léttvægir fundnir.
Hafi sunnlenskir og aðrir bændur og afurðastöðvar þeirra
,,staðið sig" í þeim ólgusjó sem samningurinn olli bændum og fyrirtækjum
þeirra, þá er það þrátt fyrir þá samningsgjörð sem ráðherrann barði í gegn, en
ekki vegna hennar.
Landbúnaðarráðherrann fyrrverandi og núverandi formaður
Framsóknarflokksins býður sig fram fyrir Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.
Auðvitað verður sauðfjárhald að aðlaga sig öðrum sjónarmiðum. Víða á láglendi er gott land til sauðfjárbúskapar og með því að halda því innan fjárheldra girðinga væri unnt að koma á mikillri hagkvæmni. Það myndi t.d. sparast mjög mikið fé ef hætt væri að reka sauðfé á hálendið sem ber því miður mjög mikil einkenni rányrkju liðinna alda. Fyrrum þegar girðingar voru af skornum skammti og fjárheldir vörslugarðar mikil fyrirhöfn þá er skiljanlegt að fé hafi verið rekið á fjall svo unnt væri að heyja um hásumarið.
SvaraEyðaEn í dag er það mikil tímaskekkja að sauðfjárbændur líti á land nágranna síns m.a. skógarbænda með gagnaugunum eingöngu.