Samið við Bretland

 

Myndin er úr ,,Dagskráin fréttablað" og sýnir smalamennsku með nútímalegum aðferðum.

Ritara þessarar síðu barst ábending um að birst hefði grein eftir formann Bændasamtanna um samning sem nýlega var gerður við Bretland varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur.

Greinina ritar formaðurinn í Fréttablaðið undir fyrirsögninni ,,Nýr tónn í viðskiptasamningum“.

Þar segir frá því að: ,,Bretland [sé] einhver mikilvægasti markaður Íslendinga fyrir bæði vörur og þjónustu“[…] og að ,,það [sé] mikið hagsmunamál fyrir Ísland að viðskiptakjör við Bretland [haldist] sem næst því sem var meðan Bretland var hluti af ESB.“

Þá segir einnig að ástæða sé til að fagna ,,að utanríkisráðherra gerði samning með allt öðrum forsendum en síðasti stóri viðskiptasamningur Íslands sem gerður var við ESB árið 2015 og tók gildi 1. maí 2018 að lokinni fullgildingu. Í [þeim] samningi Íslands við ESB var samið um um það bil 1,8 kílógramm í útflutningi á móti hverju kílógrammi í innflutningi.“

Eftir lítið eitt lengri lestur kemur fram að þessu hafi verið ,,snúið á hvolf“ í samningunum við hið útgengna Bretland úr ESB, því eins og í grein formannsins segir: ,,þar var samið um 20 kg af útflutningi á móti hverju kílógrammi í innflutningi. Þó það sé enn þá þannig að Bretar fái mun stærri markaðshlutdeild heldur en Íslendingar fá þá er samningurinn mun sanngjarnari en fyrri samningur.“

Núverandi samningur er sem sagt rúmlega tíu sinnum betri en samningur sá sem formaður Framsóknarflokksins gerði í sinni tíð árið 2015, samkvæmt þessum samanburði.

Við fáum síðan að vita að formaður Bændasamtakanna hafi verið í fermingarveislu þegar honum bárust fréttirnar s.l. sunnudag!

Í greininni segir frá því að vart hafi samningurinn verið ,,gerður“ þegar ,,Félag Atvinnurekenda [hóf] að kvarta yfir niðurstöðunni“. Við erum einnig upplýst um hve mörg orð hafi verið notuð til að fagna samningnum af Félagi atvinnurekenda þ.e. 20, en 713 orðum hafi verið varið til að gagnrýna samningsniðurstöðuna og leiðbeiningar til Bændasamtakanna varðandi samningsgerðina, og að læðist grunur um, að Bændasamtök Íslands hafi ekki verið langt undan varðandi ,,ráðgjöf“ þegar samningurinn var gerður 2015!

Það er ánægjulegt að sjá að formaður B.Í. telur: að ,,leikur stjórnvalda að etja saman búgreinum […] gengur ekki lengur.“ Ekki er samt víst að allir trúi því að svo sé.

Á það ber að líta í þessu sambandi, að samið var um útflutning á kindakjöti til Bretlands en ekki öðru kjöti og að á vef Utanríkisráðuneytisins má lesa eftirfarandi texta:

,,Hvað landbúnaðarafurðir varðar eru tryggð viðbótartækifæri til útflutnings fyrir lambakjöt og skyr með tollfrjálsum innflutningskvótum, sem nema 692 tonnum fyrir lambakjöt og 329 tonn fyrir skyr. Þannig má segja að samningurinn stækki Evrópumarkað varanlega fyrir íslenskar útflutningsvörur. Þessi niðurstaða náðist án þess að stækka til muna innflutningsmöguleika til Íslands. Ísland mun veita Bretlandi tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir 19 tonnum af hverskonar osti, 11 tonnum og ostum sem verndað afurðaheiti vísar til uppruna og 18,3 tonn af unnum kjötvörum.“

Það var sem sagt samið um útflutning á lambakjöti og skyri, en á móti kemur að heimilt er að flytja inn tollfrjálst frá Bretlandi osta (30 tonn) og síðan 18,3 tonn af unnum kjötvörum. 

Af þessu sést að samningurinn gengur fyrst og fremst út á að opna möguleika á að geta losað íslenska ríkið við lambakjöt til Bretlands og að samningurinn snýst ekki um að opna fyrir útflutning á öðrum landbúnaðarvörum frá Íslandi til Bretlands utan þess sem fram kemur varðandi skyr.

Íslenskur landbúnaður er talsvert meira en lambakjöt og skyr og hefði verið æskilegt að utanríkisráðherra og leiðbeinendur hans hefði haft það í huga við samningagerðina og kannski hefur svo verið, þó við höfum ekki tekið eftir því, né haft af því fréttir.

Viðurkenna verður, að séð út frá þröngum  sérhagsmunum er samningurinn góður áfangi, en hagsmunirnir sem gleymdust(?) standa útaf og spyrja má hvort ekkert annað hafi komið til umræðu en kindakjöt og skyr, unnar kjötvörur og ostar?

Svo vikið sé að því sem segir í grein formanns Bændasamtakanna, þá er augljóst að núverandi stjórnvöld kunna vel ,,að etja saman búgreinum“. Að minnsta kosti er augljóst að samningurinn sem hér er til umræðu snýst um lítið annað en það að ,,selja“ úr landi svo sem unnt er framleiðslu sem verður til sem verktaka hjá ríkinu í gegnum búvörusamninga.

Þá má benda formanni BÍ og öðrum á, að fjáraustur úr ríkissjóði til sauðfjárræktarinnar í nafni COVIT-19, hefur ekki farið framhjá þeim sem fylgjast með landbúnaðarmálum og að athygli hefur vakið að engin raunveruleg greining fór fram á því hvort sauðfjárræktin þyrfti tæpan milljarð í ríkisframlag vegna pestarinnar, frekar en aðrar búgreinar.

Er sá styrkur samt sem dropi í það styrkjahaf sem sú búgrein nýtur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...