Í Bændablaðinu sem út kom 7. júní 2021 segir formaður Bændasamtaka Íslands í forystugrein, söguna af því sem fyrirhugað var að yrði, er gerður var tollasamningur milli milli Íslands og Bretlands.
Þó frásögnin sé ótrúleg, má gera ráð fyrir að hún lýsi því sem raunverulega var að gerast eða átti að gerast og er satt að segja ekki ótrúleg eftir að maður hafði haft á sínum tíma aðstöðu til að stinga nefinu í gættina á þáverandi stjórnarheimili, því sem var árið 2015 og áfram.
Þau stjórnvöld sem þá voru við taumana virtust vera tilbúin til að gera nær hvað sem var ef takast mætti að pranga inn á ESB- löndin kindakjöti og létu að lokum hagsmuni annarra falla fyrir borð í þeirri viðleitni sinni.
Sagan sem formaður B.Í. segir, er í stuttu máli: að til stóð að gera samning við Bretland um tollfrjálsan innflutning á umtalsverðu magni af meðal annars nautakjöti og fleiru í skiptum fyrir innflutning til Bretlands á lambakjöti.
Eða svo vitnað sé beint í grein Gunnars Þorgeirssonar í leiðara Bændablaðsins:
,,Landbúnaðurinn fékk kynningu á þeirri sviðsmynd, sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur nú afhjúpað síðustu daga í fjölmiðlum, þ.e. að til stóð að semja við Breta um innflutningsheimildir á 140 tonnum af nautakjöti (með eða án beins vissu nú samningamenn lítið um), 180 tonn af ostum, 50 tonnum af ís og 460 tonnum af öðrum kjötvörum. En okkur var tjáð að þetta væri hernaðarleyndarmál sem við mættum alls ekki ræða við nokkurn mann þar sem viðræður væru enn á viðkvæmu stigi að sögn ráðuneytis utanríkismála."
Það átti sem sagt að endurtaka leikinn sem leikinn var árið 2015 þegar þáverandi landbúnaðarráðherra gerði alræmdan samning við ESB, þar sem skipt var á kindakjöti til ESB fyrir innflutning þaðan á alifuglakjöti, svínakjöti og nautgripaafurðum ýmiskonar til Íslands.
Það að hafa ætlað að endurtaka þann leik í samningaviðræðum við Bretland árið 2021 sýnir fátt annað en að ráðamenn þjóðarinnar hafa engu gleymt og ekkert lært af fyrri reynslu.
Árið 2015 naut ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins stuðnings Bændasamtakanna, sem þá voru, sem áður, fyrst og fremst samtök sauðfjárbænda.
Nú er komið annað hljóð í strokkinn og samtök bænda eru undir nýrri og víðsýnni stjórn í sameinuðum Bændasamtökum og vonandi er að það samstarf haldi og að ekki sækji í fyrra horf með forystu sem af fyrri gerðinni, þeirri sem alla tíð hefur verið þar til nú.
Því er vart að treysta að hin gömlu öfl muni ekki í krafti fjöldans, en ekki framleiðslumagns markaðsstöðu eða verðmæta framleiddra afurða, reyna að ná undir sig yfirstjórn Bændasamtakanna. Við vonum að svo fari ekki, en treystum engu og þau sem nú eru á sviðinu mega ekki sofna á verðinum. Það er nefnilega auðveldara að finna fólk með félagsþorsta í fjölmennri stétt sauðfjárbænda en í mun fáliðaðri stéttum annarra búgreina.
Gunnar segir í niðurlagi greinar sinnar og það verða niðurlagsorð þessa pistils:
,,Bændasamtökin eru ekki á móti fríverslunarsamningum og frjálsri verslun. Bændasamtökin eru hins vegar á móti ósanngjörnum samningum sem flytja störf og verðmætasköpun frá Íslandi á erlenda grundu.
Ráðamenn þjóðarinnar ávarpa Búnaðarþing á hverju ári og tala lofsamlega um tækifærin og verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði á tyllidögum og í aðdraganda kosninga. Hina dagana virðast þeir ekki hafa mikla tengingu við hinn raunverulega heim vinnandi manns. En eins og ítrekað er rætt þá er einfaldara að flytja bara inn. Þá skiptir engu hvort aðbúnaður dýra sé fyrir borð borinn eða lágmarkslaun þeirra sem vinna að framleiðslunni.
[...]
Bændasamtökin hafa hlotið bágt fyrir síðustu ár þar sem fullyrt er að samtökin hafi ekki staðið nægjanlega með greininni. Í því samhengi er því vert að nefna að hér á landi hafa nefnilega tilraunir verið gerðar síðustu ár til þess að beita gamalgrónum meðölum, að deila og drottna. Sá leikur stjórnvalda að etja saman búgreinum [...] gengur ekki lengur. Flest búgreinafélög hafa ákveðið að sameinast í eina sterka heild. Þeir tímar eru einfaldlega liðnir að sú leikbók, að etja saman hvíta og rauða kjötinu, virki."
Engin ummæli:
Skrifa ummæli