Bolli Sigurhansson og Björk Dagnýsdóttir - minning

Bolli og Björk ásamt vinafólki á Kili sumarið 1998. 

Tímann hafa sumir hugsað sér sem línu sem ætti sér upphaf í óendanlegri fortíð og stefndi til óendanlegrar framtíðar. Steinn Steinarr orti um tímann:

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.

  Þau Bolli og Björk voru ekki bundin við tímann á þann hátt sem flestir eru. Hjá þeim var hann ekki hin knappa mælieining sem hrjáir svo marga í samfélagi nútímans. Þau áttu ævinlega nægan tíma, að minnsta kosti fyrir aðra, en hvernig fólk voru þau?

  Því er ekki hægt að svara í einni stuttri setningu og víst er að sitt sýnist hverjum þar um eins og gengur, en fyrir um það bil 20 árum var ég kynntur fyrir þeim. Bolli var þá eins og svo oft að skipuleggja, og í þetta sinn var hann að vinna að hestaferð norður um Kjöl á fyrirhugað Landsmót hestamanna. Ferð sem varð undanfari að stofnun Hestaferðafélagsins sem Bolli varð síðar heiðursfélagi í.

  Þegar ég kom sem gestur á heimili þeirra hjóna kynntist ég einstakri gestrisni eins og svo margir höfðu áður gert. Það var ekki eins og ókunnur maður væri kominn í heimsókn heldur einhver sem margoft hefði til þeirra komið.

  Þannig voru þau. Heimili þeirra var opið og þeir sem þar komu voru boðnir velkomnir frá fyrstu stundu. Eðlileg, notaleg og frjáls og ekki var spurt um stétt eða stöðu. Allir voru jafnir í þeirra augum. Enda var lífsskoðunin sú að enginn væri öðrum æðri.

  Bolli var maður sem ekkert aumt mátti sjá og það átti einnig við um Björk. Þau stóðu saman í því sem öðru, þó verkaskiptingin á heimilinu væri skýr.

  Bolli var maðurinn sem taldi bæði sjálfsagt og eðlilegt að liðka fyrir því að undirritaður kæmist í fyrirhugaða hestaferð ásamt dóttur, þó seint væru kynnt til sögunnar. Hann var maðurinn sem skipulagði ferðina í þaula, skipti henni upp í áfanga, pantaði gististaði og sá til þess að allur nauðsynlegur búnaður yrði til staðar.

  Hann taldi ekki eftir sér þegar hann vaknaði upp um miðja nótt í öðrum áfanga umræddrar ferðar, að læðast út þegar aðrir sváfu og aka 70 kílómetra til að sækja hlut sem hann mundi eftir að gleymst hafði daginn áður og var síðan mættur manna fyrstur í morgunkaffið.

  Hann var maðurinn sem fann upp á því að senda hesta sína í aðra ferð átta árum seinna og fela þá í umsjá ungrar konu sem hann vissi að langaði til að fara, en hafði ekki hesta né fé til að geta farið. Það var nefnilega svo nauðsynlegt að hreifa hestana, að það var sjálfsagt að hann greiddi kostnað hennar af ferðinni ef hún vildi vera svo góð að liðka fyrir hann hrossin og nota þau til ferðarinnar.

  Seinna þegar bróðir fyrrnefndrar konu tók upp á því að brasa við að koma sér upp smiðju, þá linnti Bolli ekki látum  fyrr en hann var búinn að finna í fórum sínum loftljós til að lýsa upp fyrirhugað smiðjuhús. Ljósin voru náttúrulega eitthvað sem Bolli þurfti alveg nauðsynlega að losna við og það væri bara greiði við hann, ef hinn ungi maður vildi vera svo góður að nýta sér þau!

 Hér eru aðeins nefnd  örfá dæmi um hvernig Bolli Sigurhansson brást við ef hann sá einhverja leið til að gera öðrum gott og hjálpa. Hann var einnig margfróður, vel lesinn og upplýstur maður sem gaman og fróðlegt var að ræða við. Þau Björk höfðu ferðast mikið um landið sitt og einnig þau höfðu farið til fjarlægra landa svo sem Japan og Indlands og margra fleiri.

  „Hún Björk mín grét nú dálítið í Delhi”, sagði Bolli við mig þegar ég sagði honum að við hjónin værum á leið þangað og ástæðan fyrir þeim tárum var vitanlega eymd hinna snauðu sem Björk fann svo mikið til með.

  Þannig voru þau, manneskjur sem fundu til með öðrum og vildu láta gott af sér leiða. Manneskjur sem gott var að þekkja og gott að eiga að.

  Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að kynnast þeim, það var bæði gott og ekki síður skemmtilegt. Með þeim eru horfnir af sviðinu fulltrúar kynslóðar sem óðum er að hverfa. Kynslóðar sem mörgu kom til leiðar og lagði mikið af mörkum til að gera íslenskt samfélag að því sem það er í dag, en vel að merkja, átti engan þátt í að koma því í þau vandræði sem það er í núna.

Bolli Sigurhansson var fæddur 21. desember 1928 og lést 3. janúar 2010.Björk Dagnýsdóttir var fædd 8. júlí 1930 og  lést 5. maí 2008.

  Ég votta aðstandendum og vinum alla mína samúð, en eftir lifir minningin um gott fólk.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...