Myndin sýnir lömb í fóðurkálsfitun í aðdraganda sláturtíðar.

Facebook rifjaði upp ágæta færslu Egils Gautasonar sem ég las á sínum tíma og varð til þess að ég náði mér í eintak af bókinni ,,Af hverju strái" og eftir að hafa náð mér í eintakið af bókinni sá ég að umsögn Egils Gautasonar var í öllum aðalatriðum rétt.

Niðurstaðan er, að það hafi ekki verið ofbeit fyrri alda sem olli gróðureyðingu heldur seinni tíma búskaparhættir, sem keyrðu um þverbak á seinni tíma síðustu aldar og minnistætt er mér þegar stjórnmálamaður sem ég hélt upp á, hélt því fram á framboðsfundi á Flúðum, að sjálfsagt væri að auka meðgjöf til sauðfjárbúskapar um jafnvirði þess, sem mér reiknaðist til eftir að heim var komið, að nema myndi öllu brúttóverðmæti Suðurlandssíldarinnar.

Um haustið er ég var vélstjóri á Jökulfelli, frystiskipi Skipadeildar SÍS, varð ég vitni að því að fullfermi af lambakjöti sem ekki var búið að frysta til fulls var hrúgað í lestir skipsins eftir slátrun þar til ekki komst meira fyrir.

Til að reyna að bjarga málunum voru frystikerfi skipsins keyrð á fullum afköstum milli lestunarhafna innanlands og síðan alla siglinguna til erlendra hafna í þeirri von að tækist að koma upp frosti í skrokkana, því allt var þetta í heilum skrokkum.

Skrokkarnir voru síðan tíndir úr lestinni og hífðir upp á bryggju m.a. í Osló og þóttu augljóslega einhvers virði, því menn voru m.a. staðnir að því að rífa heilu lærin af þeim og troða inn á sig og hlaupa síðan með í land!

Atkvæði íslenskra bænda þóttu svo mikils virði að sjálfsagt þótti að stunda þessa iðju og svo er enn, þó í breyttu formi sé, því nú dandalast lambakjötið heimsenda milli í frystigámum á kostnað íslenskra skattgreiðenda, svo sem alþjóð veit.

Færsla Egils er hér fyrir neðan:

,,Nýverið lauk ég lestri á fróðlegri bók Árna Daníels Júlíussonar, „Af hverju strái“, sem birtir aðra sýn á íslenska landbúnaðarsögu en hefur verið viðtekin hingað til. Helsta kenning bókarinnar er að það hafi ekki verið jarðvegseyðing og skortur á möguleikum til landbúnaðar sem héldu aftur af framþróun, fólksfjölgun og þéttbýlismyndum gegnum aldirnar, heldur hafi það einkum verið fámenni.
Árni fer yfir heimildir frá miðöldum um landbúnað og fólkfsjölda og kemst að þeirri niðustöðu að mikil fjölgun hafi verið á Íslandi fram að plágunni miklu 1402-1404. Fólksfjöldi hafi jafnvel verið 100.000 manns um 1400, kornrækt hafi þá verið mikið stunduð sunnan- og vestanlands, og stétt fiskimanna hafi verið farin að myndast. Nautgriparækt hafi verið mikilvægasta grein búfjárræktar, en sauðfjárrækt síður mikilvæg, túnrækt og beitarstjórn hafi verið vönduð til að viðhalda hárri framleiðni á hverja flatareiningu ræktunar- og beitilands. Meðal annars voru hlaðnir garðar þvers og kruss til að stýra beit.
Þó að uppblástur og hnignun jarðvegs hafi verið hafin, þá hafi hún ekki sett skorður við möguleikum til landbúnaðar, þar sem landbúnaður byggði að miklu leyti á tún- og kornrækt, en minna á hagabeit til fjalla, líkt og síðar varð. Í kjölfar Plágunnar miklu 1402-1404, og Plágunnar síðari 1494, hafi landsmenn síðan verið svo fáir sem 20.000. Fyrir þessu hefur Árni heimildir úr skjölum frá miðöldum.
Í kjölfar þessara hörmunga dró úr landhnignun, skógar jukust að flatarmáli og töluverð sjálfgræðsla varð. En þegar fólk var orðið færra í stóru landi dró úr kornrækt, túnrækt og nautgriparækt, en sauðfjárrækt jókst. Ástæðan er að fyrrnefndu greinarnar krefjast meiri vinnuafls en dreifbær beitarbúskapur. Umhirða um tún varð minni, og beitarstjórn minnkaði.
Á endanum hvarf kornrækt alveg, og leiddar eru líkur að því að það hafi verið vegna þess að þægilegra var fyrir bændur að fjölga fé heldur en að stunda hina vandasömu (en þó vel mögulegu) kornrækt. Kornrækt síðustu áratuga hefur sýnt að möguleikar til kornræktar eru miklir hérlendis, þó mismunandi milli héraða. Þannig hefur aukin sauðfjárrækt verið svar við auknum landgæðum (meira land á hvern íbúa), frekar en vegna versnandi landgæða. Sauðfjárræktin var þægilegri fyrir bændur, sem lifðu við góðan kost miðað við almúgann í Evrópu, sem þreifst að stærstum hluta á korni. Íslendingar lifðu praktuglega í vellystingum og slöfruðu daglega í sig fiski, kjöti og smjöri og skoluðu niður með mjólk á meðan aðrir Evrópubúar átu varla annað en brauð.
Stórabóla 1707-1709 hafði svo svipuð áhrif og plágurnar, sauðfjárrækt jókst á kostnað nautgriparæktar. Landnýtingin varð enn dreifbærari, og ekki fyrr en á 20. öld sem túnrækt nær sér aftur á strik. Bókin fjallar ekki um sögu landbúnaðar eftir Stórubólu, en tæpt á heimildum sem geta þess að beit á hálendisafréttum hafi verið lítil á miðöldum, en jókst á 18. og 19. öld, og náði hámarki á 20. öld. Sú tegund beitarbúskapar sem við könnumst við, með göngum allt upp til jökla og réttum og réttarballi, er fjarri því að vera jafngömul landnáminu, heldur mun yngra fyrirbrigði í landbúnaðarsögu Íslands.
Það eru ákveðin atriði í bókinni sem orka tvímælis. Til dæmis segir höfundur að landið hafi ekki verið ofnýtt á grundvelli samanburðar á mögulegri uppskeru landsins miðað við gróðurhulu, og fóðurþörf búfjár. Það er þröng, og dálítið úrelt skilgreining á ofnýtingu, þar sem að búfé getur haft nóg beitiland, jafnvel þó að land sé í hraðri afturför. Land getur haldið mikilli framleiðslugetu allt fram að algjöru vistkerfishruni. En það er aukaatriði. Aðalkenning bókarinnar er að fámenni í kjölfar plága hafi verið þjóðinni mestur dragbítur gegnum aldirnar.
En það er kannski ekki rétt að segja að Ísland hafi verið ofnýtt, landbúnaðarlega séð, heldur rangnýtt. Sá beitarbúskapur, sem varð ráðandi hérlendis á seinni tímum, var þægilegur fyrir fámenna þjóð í stóru landi, en hörmulegur fyrir náttúruna þegar fram í sótti.
Þetta er afar athyglisverð bók, og ég hvet alla sem áhuga hafa á landnýtingarmálum á Íslandi að lesa hana. Það er greinilegt að rannsóknum á miðöldum fer mikið fram, og náttúruvísindamenn ættu að líta meira til nýrra rannsókna sagnfræðinga á þessu sviði."

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...