Mynd úr einkasafni.
Fjörleg umræða fór af stað á umræðuvef á Facebook og þar sýndist sitt hverjum um eldi húsdýra. Einnig var hænsnahald í búrum rætt á þeim þræði og kom það ritara á óvart, þar sem hann vissi ekki betur en hænsnahald á þann hátt væri aflagt.
Undirritaður þekkti vel til á hænsnabúi fyrir nokkrum árum þar sem hænurnar voru hafðar í búrum, voru hvítar og fallegar og þess gætt að rúmt væri um þær.
Hvers vegna halda má páfafugla, finkur o.s.frv. í búrum en ekki hænur, hefur ekki verið skýrt, en trúlega má finna fyrir því rök!
Veldur hver á heldur, eins og þar stendur og hænurnar sem rætt var um á umræðuvefnum ,,Umræður um Landbúnaðarmál"(!), áttu svo sannarlega ekki verri ævi en hverjir aðrir búrfuglar; þær voru hvítar, fallegar og vel fiðraðar. Það sá undirritaður með eigin augum.
Hitt er víst, að hægt er að hafa hænur of margar í búrum og þá gegnir ekki sama máli, en allt er þetta í þátíð og því óþarft að ræða.
En einnig kom fram orðið ,,þauleldi" af einhverjum óljósum ástæðum. Lagst var í örlitla öflun upplýsinga um orðið og niðurstaðan varð heldur snauð og ekki með öllu ljóst hver meiningin gæti verið.
Er þar átt við eldi gripa þannig að þeim sé ofgert? Ef svo er, er þá ekki nær að tala um ofeldi?
Niðurstaðan varð:
Að búa skuli landbúnaðardýrum svo gott atlæti sem unnt er og það að ala þau til góðra afurða geta varla talist slæmir búskaparhættir.
Að búið sé til orð um fóðrun húsdýra, orð sem í raun þýðir ekki neitt þegar að er gáð, er mál sem þarfnast nánari skoðunar; hvaðan það kemur, frá hverjum og hver er tilgangurinn með smíðinni.
Orðið ,,eldi" er flestum kunnugt, sem að landbúnaði koma. Eldi fylgir því að halda húsdýr og ætti það ekki að koma á óvart.
Þaula merkir t.d. rækilega og því liggur beint við að reikna með að átt sé við rækilegt eldi, eldi til þaula, að ystu mörkum, en getur einnig þýtt mjög vel: og þar af leiðandi gott eldi!
Það er nokkuð ljóst, að þeir sem tóku upp þetta orð vildu búa til neikvætt orð yfir gott eldi á húsdýrum, en mögulegt er einnig að þeir hafi ætlað sér að búa til orð yfir eldi húsdýra sem fer yfir eðlileg mörk, en hafi sést yfir að slíkt orð er til og hefur verið notað lengi, þ.e. orðið ,,ofeldi".
Vont eldi húsdýra er að ala dýrin illa og hefur verið notast vandræðalítið við orðið vanfóðrun ef um það er að ræða. Vanfóðrun að öllu eða einhverju leiti. Vont eldi er líka að gefa þeim verulega umfram eðlilegar þarfir og þekkt dæmi þar um er t.d. ítroðsla á fóðri í gæsir til að búa til stóra gæsalifur.
Við erum ekki á þeim slóðum í íslenskum landbúnaði!
Þar er frekar um að ræða að upp komi mál þar sem vanfóðrun og vanhirða er til staðar og mjög oft er þar um mannlegan harmleik að ræða. Einnig eru til dæmi um að menn hafa ekki sinnt smölun sauðfjár að hausti, sem leitt hefur til útigangs og vanhirðu.
Þeir sem engjast af áhyggjum um að einhverstaðar og einhverntíma geti ef til vill og kannski verið um að ræða ofeldi húsdýra, ættu að kalla hlutina réttu nafni.
Ofeldi er til að mynda of algengt á gæludýrum, s.s. hundum og köttum og í einstaka tilfellum hestum, svo ekki sé nú minnst á menn! En það er fyrir utan þessa umræðu.
Vilji menn kalla þetta ,,þauleldi" þá er það um að segja:
Að hver verður að hafa sinn smekk og haga málfari sínu eftir því sem viðkomandi telur vera við hæfi!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli