Hugleiðingar í aðdraganda kosninga

Þorsteinn Pálsson skrifar um ,,mögulegar málamiðlanir" í Fréttablaðið í dag (5.8.2021) og horfir yfir svið stjórnmálanna af Kögunarhóli og útsýnið er eins og best getur orðið á Suðurlandi. 

,,Stundum er sagt að pólitík sé list hins mögulega", segir Þorsteinn og fer að hugleiða málin.

Hann bendir á að 88% Sjálfstæðismanna hafi löngun til að starfa áfram með Vinstri grænum eftir kosningar, en einungis 29% stuðningsmanna Vinstri grænna hafi áhuga á að sama ríkisstjórnarmynstri áfram.

Þorsteinn telur mat Sjálfstæðismanna raunsætt því þeir hafi ,,talað mjög skýrt í þá veru að þeir muni ekki undir neinum kringumstæðum fallast á málamiðlanir gagnvart Viðreisn að því er varðar gjaldmiðilsmál, tímabundinn nýtingarrétt auðlinda í þjóðareign og ný skref í Evrópusamvinnu" og bendir einnig á að Samfylkingin og Píratar hafi alfarið hafnað samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn vegna ,,málefnalegrar fjarlægðar".

Grein Þorsteins er glögg greining á stöðunni og rétt er fyrir áhugasama að lesa hana vel. Henni verður ekki fylgt lengra í þessum hugleiðingum og það sem hér fylgir eftir eru alfarið hugleiðingar ritara þessa pistils.

Trúlega er það raunsætt mat að Miðflokkurinn sé ekki álitlegur samstarfskostur eftir kosningar fyrir neinn flokk nema ef vera kynni Sjálfstæðisflokkinn, eða Framsóknarflokkinn og benda má á að Miðflokkurinn er afleggjari þess síðarnefnda og þar með þaðan sprottinn.

Vegna þessarar stöðu er eins líklegt að eftir kosningar verði það Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sem muni mynda stjórn. Þessir flokkar eiga margt sameiginlegt, eins og að grunnt er á einangrunarstefnu, nema að hjá Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum felst víðsýnin í afturhaldssamri afstöðu hvað varðar atvinnumál og að utanríkisstefnan byggist á þeirri skoðun að notalegt og gjöfult sé að hjúfra sig upp að Bandaríkjunum og vera einlægir NATO meðlimir.

Miðflokkurinn er hallur undir sjónarmið sem samtökin ,,Heimssýn" tala fyrir, en þar á bæ telja menn að víðsýnin felist í þröngsýni.

Þorsteinn telur að möguleikar Sjálfstæðisflokksins til stjórnarsetu eftir kosningar felist í samstarfi við Vinstri græn, en mitt mat er að möguleikarnir séu fleiri og að eins líklegt sé að núverandi stjórnarsamstarf verði endurnýjað með því að tosa Miðflokkin inn í ríkisstjórn.

Væri það gert ynnist m.a. það, að hugsanlegt málþófsbull þingmanna þess flokks lægi niðri meðan stjórnarsamstarfið entist og ef það endist vel, gæti verið þögn á miðflokksheimilinu fram að þarnæstu kosningum.

Vilji menn ekki Miðflokkinn í ríkisstjórn, þá verða þeir að verja atkvæði sýnu eitthvað annað en til núverandi stjórnarflokka, því sjónarmið Miðflokksins og þeirra falla í mörgu saman.

Svo má náttúrulega ekki gleyma því að flokkaflóran er fjölskrúðug og finnist mönnum gaspur og loforðaglamur út í loftið spennandi, má verja atkvæðinu á Flokk fólksins eða Sósíalistaflokkinn með Gunnar Smára sem vænlegan kandidat í forsætisráðherrastólinn!

Vilji menn vera þokkalega jarðbundnir og kjósa flokka sem líklegir eru til að leiða þjóðina fram á veginn, eru kostirnir eftir starófsröð: Píratar, Samfylking og Viðreisn.

Kostirnir eru sem sagt margir og eiga eflaust eftir að verða fleiri! 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...