Það er alvörumál að þurfa að skera niður bústofna

Myndir í þessari færslu eru klippur úr Bændablaðinu sem út kom 23.9.2021.



Það er varla hægt að setja sig í spor þeirra fjárbænda sem verða fyrir riðusmiti í bústofni sínum og því síður, þegar smit kemur upp aftur og aftur.

Víst er það þekkt að smit geta komið upp í bústofnum annarra tegunda en sauðfjár, en riðuveikin var litin það alvarlegum augum á sínum tíma að ástæða þótti til að setja sérstök lög, sem gilda um bætur til bænda vegna riðuveiki og sem greiðast úr ríkissjóði.

Bjargráðasjóður sá sem áður var, er ekki lengur til og því geta bændur ekki almennt leitað til hans ef þeir lenda í hremmingum vegna sjúkdóma eða smits í bústofni. Það er ekki lengur þannig að bændur kaupi sér tryggingu í sjóðnum með iðgjöldum og því er það komið undir velvild sitjandi ráðherra og félaga hans í ríkisstjórn, hvort sjóðnum eru lagðir til fjármunir til að geta greitt bændum hlut í tjóni sem þeir verða fyrir!

Á þessu þarf að taka af samtökum bænda og koma a.m.k. á þeim tryggingum sem þeir áður höfðu í gegnum Bjargráðasjóð og best væri að tryggingin væri betri en sú sem var, frekar en hitt.
Það er eðlilegt að mikið sé fjallað um riðuveiki í Bændablaðinu sem kom út í vikunni sem leið, en eins og kunnugt er, þá greindist hún á stóru sauðfjárbúi í Skagafirði.

Því hefur verið velt upp af því tilefni, hvort ekki sé hægt að taka öðruvísi á þessum málum en gert hefur verið til þessa, þ.e. að rækta upp fé sem ónæmt er fyrir sjúkdómnum og víst væri það góður kostur ef hann væri fyrir hendi.
Í framhaldi af því hefur verið upplýst: að sá kostur sé ekki til í íslenskum sauðfjárstofni.

Þegar riða greinist, er stofninn skorinn niður á viðkomandi bæ og við tekur fjárleysi í nokkur ár.

Hins vegar er heimilt að beita kindum sem gengu með þeim sem smitaðar voru í hálendishögum, strax árið eftir í sömu högum.

Það hefur sem sé verið fundið út, að ekki sé hætta á smiti frá riðuveiku kindunum í sumarhögunum, en að smithætta sé af heimahögum þess bæjar sem fyrir óláninu varð og því skuli hann vera fjárlaus. Þó gengu kindur þess bæjar í sumarhögunum árið áður!

Er öruggt að smitefnið sé ekki á hálendinu vorið eftir að smit greindist í fé sem gekk þar í haga sumarið áður?
Ef svo er, hversvegna þurfa þá bæir sem greinst hefur smit hjá, að vera fjárlausir í nokkur ár?







Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...