Eftirfarandi textar, þar sem fulltrúar framboða til Alþingis tjá stefnu flokka sinna, eru fengnir úr Bændablaðinu og er eingöngu um að ræða flokka sem ritari telur líklega til að verða raunverulegir áhrifavaldar á Alþingi sem hér er vitnað til.
Sé boðskapur flokkanna, eins og hann birtist í þessum textum lesinn, má ljóst vera að ef núverandi stjórnarflokkar sitja áfram við stjórnvölinn verða engar eða afar litlar breytingar í landbúnaðarmálunum.
Séu hugmyndir Viðreisnar og Samfylkingarinnar skoðaðar, virðist sem horft sé bæði til nútímans og framtíðarinnar.
Upphafsorð fulltrúa Vinstri grænna eru athyglisverð, því eftir fjögurra ára stjórnarsetu virðist sem ,,stefna ríkisins hafi ekki verið skýr" varðandi málaflokkinn og ætti það ekki að koma mörgum á óvart!
Viðreisn:
,,Við erum ekki sammála því að standa þurfi vörð um núverandi afkomu bænda. Í fyrra settum við tvö Evrópumet sama dag, bændur fengu lægsta afurðaverðið og neytendur hæsta verð. Það er óboðlegt fyrir bændur og neytendur. Við viljum breyta þessu og ætlum að gera það.Við ætlum að gera það með framsýni, með auknum tækifærum fyrir bændur til að framleiða fjölbreyttari og hagkvæmari vöru. Við ætlum að auka fjölbreytnina og innri samkeppni meðal bænda þannig að þeir geti selt betur og nær til neytenda. Við ætlum að tryggja aukinn sveigjanleika til að mæta breyttum kröfum sem neytendur eru að kalla eftir. Við ætlum að aðstoða bændur að nálgast markaðinn betur svo þeir geti svarað kalli neytenda eftir breyttum landbúnaðarafurðum. Við viljum auðvelda bændum að hámarka sína eigin afkomu með aukinni vinnslu og auknum sveigjanleika í framleiðslu með einföldun á íslensku reglugerðarverki. Við ætlum að umbreyta búvörusamningnum úr framleiðslutengingu og yfir í umhverfisvænni framleiðslu. Við ætlum að leggja aukið fé til útiræktunar. Við viljum leggja aukna áherslu á lífrænan landbúnað. Við viljum leggja aukna áherslu á hringrásarhagkerfið og sjálfbærni og við viljum sjá mikið meira fé renna í jarðræktarstyrki. Við viljum leggja aukna áherslu á möguleika til heimavinnslu."
Samfylkingin:
,,Við höfum engan áhuga á að draga úr fjárframlögum til landbúnaðar á Íslandi en teljum tímabært að ráðast í róttæka endurskoðun á landbúnaðarkerfinu í góðu samráði við bændur. Stuðningurinn við landbúnaðinn verður að fagna fjölbreytileikanum á sterkari hátt en nú er. Markmiðið hlýtur að vera að nýta styrki hins opinbera vel, gera það með það fyrir augum að auka frelsi og bæta hag bænda og neytenda, stuðla að nýsköpun og fjölbreytni, til dæmis aukinni grænmetisrækt og umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Ég held að eitt af því sem þarf að gera til að bæta afkomu bænda sé að auka frelsi þeirra og að hverfa frá því að einskorða styrkjakerfið í landbúnaði við tvær framleiðslugreinar. Það er tími til kominn að hugsa það upp á nýtt, skoða hvort væri ástæða til að styrkja fleiri landbúnaðar- og atvinnugreinar sem fólk hefur áhuga á að stunda í sveitum landsins, einfaldlega með því að styðja fólk til búsetu. Bændur hafa margir sýnt mikla hugvitssemi við að fullvinna sjálfir sínar vörur, selja beint frá býli, og við höfum séð hvað skýrar upplýsingar um hreinleika og uppruna vörunnar skipta miklu máli. Það þarf að gera bændum kleift að nýta eigið hugvit til framfara og að þróa eigin framleiðslu."
Framsóknarflokkurinn:
,,Það liggja tækifæri í því að hætta að líta á loftslagsvanda sem vanda landbúnaðar og landnýtingar heldur sjá sóknarfæri þar, auka tekjur landbúnaðarins og byggða um allt land í gegnum þær aðgerðir sem við þurfum að grípa til. Við viljum breyta lögum um samkeppnisumhverfi og auka heimildir til frelsi til athafna. Jafnframt að koma til með einhvern nýstárlegan öðruvísi stuðning við fjölbreyttari landnýtingu og landnot í því skyni að bæði kolefnisbinda en líka framleiða vöru sem skortur er á á Íslandi. Heimila þarf afurðastöðvum aukið samstarf í anda þess sem er hjá mjólkurframleiðendum og að frumframleiðendur hafi meiri rétt til samstarfs og samvinnu. Heimila þarf athafnafrelsi fyrir bændur í kjötgeiranum, heimila slátrun og vinnslu að undangengnum ákveðnu áhættumati og hugsanlega námskeiðum og leyfum. Við stefnum að því að segja upp tollasamningnum við Evrópusambandið vegna forsendubrests. Annars vegar vegna þess að við á Íslandi höfum eiginlega ekki nýtt neitt af þeim sóknarfærum sem landbúnaðurinn sóttist eftir þegar samningurinn var gerður upphaflega og hins vegar sú staðreynd að Bretland er farið út, með sín 15% af markaðnum. Núverandi ríkisstjórn kallaði eftir endurskoðun á samningnum, en til þess að draga Evrópusambandið að borðinu þá verðum við að segja honum upp. Það er það sem við ætlum að gera."
Sjálfstæðisflokkurinn:
,,Afkoma í kjötgreinum verður að vera betri til að viðhalda framleiðsluvilja. Ég horfi til þess að það sé hægt að ná meiri hagkvæmni með samstarfi milli afurðastöðvanna. Við verðum að átta okkur á því að það hefur orðið grundvallarbreyting á íslenskum búvörumarkaði. Við erum ekki lengur lokaður innlendur markaður, heldur erum við í samkeppni við miklu stærri markað erlendis. Því verður að skapa matvælaiðnaði og úrvinnslu á landbúnaðarvörum, sem er ein stærsta iðngrein á Íslandi, eðlileg samkeppnisskilyrði. Það er það sem hefur vantað upp á á undanförnum árum. Það mun algerlega ráða framtíð kjötgreina hér á landi, hvernig okkur tekst að breyta þessari umgjörð á næstu árum. Til viðbótar við það eru sóknarfæri í að gera búskapinn hagkvæmari og skilvirkari. Þar horfi ég ekki síst á eflingu RML og þjónustu við bændur, meiri rekstrarráðgjöf og rannsóknir í landbúnaði sem og til loftslagsmála. Íslenskur landbúnaður á að vera hluti af því verkefni. Íslenskur landbúnaður getur verið búbót, það er hægt að kaupa ákveðna þjónustu af bændum í loftslagsmálum sem mér finnst að eigi að flétta með eðlilegum hætti við byggðastefnu og/ eða landbúnaðarstefnu."
Vinstri græn:
,,Það hefur ekki verið skýrt hver stefna ríkisins er en nú eru komin drög að landbúnaðarstefnu sem er mjög mikilvægt fyrsta skref. Þar er m.a. talað um að draga úr framleiðslutengingu stuðningsins en auka hann við fasta búsetu, auk þess að efla jarðræktarstyrki. Við þurfum að bæta afkomu og efla innlenda framleiðslu og styðja við ræktun á fleiri tegundum, t.d. í grænmeti. Við þurfum að tryggja að bændur fái raforku á viðunandi verði þannig að þeir geti haft einhvern arð af því sem þeir eru að gera. Við þurfum líka að skapa afurðastöðvunum stöðu til þess að vera í samstarfi í sama mæli og við sjáum í nágrannalöndunum okkar. Við hljótum að geta gert slíkt hið sama og þetta hefur verið gert í mjólkuriðnaðinum. Við verðum að tryggja nauðsynlega aðkomu bænda að lausnum í loftslagsmálum, að þeirra framlag til loftslagsmarkmiða skapi þeim tekjur þannig að þeir sjái hag sinn í því."
Engin ummæli:
Skrifa ummæli