Ritskoðun og vinátta í milliríkjasamskiptum

Rússafælni (fobia) í nýrri og áður óþekktri mynd er gosin upp og þrífst og dafnar vel eftir að hernaðar- innrás þeirra í Úkraínu hófst.

Hjá okkur Íslendingum lýsir það sér í því, að forðast skal allt sem rússneskt er.
Ekki á að kaupa inn olíur, né jarðefni s.s. málma og líklega verður þess krafist af hinum hreinu, að dúkkurnar óborganlegu sem hverfa hver inn í aðra, verði brenndar og plöturnar með Nótt í Moskvu rispaðar að hætti Ríkisútvarpsins.

Eitt það sérkennilegasta í þessari uppákomu er að ekki má græða á því að selja Rússum afurðir neinskonar, svo sem skyrsölubannið makalausa ber skýrt vitni.

Rússneskir íþróttamenn og þar á meðal fatlaðir, mega ekki keppa í íþrótt sinni og fleira mætti til telja.

Við ættum að hugleiða hverjir það eru sem græða á stöðu sem þessari.

Einnig að velta því fyrir okkur hvaðan við ætlum að versla inn til þjóðarbúsins það sem við þörfnumst, ef reglan um fullkomið samfélag viðkomandi viðskiptavinar, að okkar mati vel að merkja, á að vera allsráðandi?
Hverjum ætlum við að selja afurðir okkar, ef þessar kröfur eiga að gilda í þeim viðskiptum?

Það má líka hugsa til þess, að eitt sinn þótti gott fyrir litla Ísland að leita til Sovétríkjanna um gagnkvæm viðskipti þegar ,,vinirnir" í NATO vildu kúga íslenska þjóð og enn skemmra er síðan að leitað var ásjár þeirra þegar búið var að setja á landið ,,hryðjuverkalög" af Brexitlandinu því sem nú er.
Samningar náðust við Breta án þess að til hjálpar frá Rússlandi (sem leitað hafði verið) eftir kæmi og hjálpaði það þjóðinni til við að standa á sínu og þumbast við, gegn ofríki og kúgunartilburðum hinna bresku ,,vinarþjóðar".

Vinir í dag eru ekki endilega vinir á morgun í milliríkjasamskiptum og það er gott að hafa í huga.

Að ræða saman á sæmilega yfirveguðum nótum er almennt mun betri aðferð en að troða illsakir við nágranna sína.


Það segir sína sögu að nú er æsingurinn komin á það hátt stig að ekki er með öllu tryggt að hægt sé að lesa fréttina sem hér er með í mynd, vegna ritskoðunar á Facebook. Ritskoðunar sem gera má ráð fyrir að sé runnin undan rifjum bandarískra stjórnvalda og ,,heimsvaldasinna" segja sumir.
Þar á bæ og hjá fylgiríkjum þeirra er svo að sjá sem menn vilji ekki að almenningur geti kynnt sér málin nema frá þeirri hlið sem kemur frá Washington.
Það sýnir okkur hvert við erum komin: að eitt mesta auðræðisríki veraldar skuli komast upp með að stjórna umræðunni og stýra upplýsingastreyminu eins og því sýnist.
Íslenskir stjórnmálamenn eru kannski ekki verstir í þessu tilliti og sem dæmi, þá er Facebook enn betur stýrt í Svíþjóð eftir því sem ritara sýndist í stuttri heimsókn þangað.

Að tala saman um ágreininginn, í stað þess að eyðileggja og drepa, er mun betri kostur en að fara þá leið sem mörkuð hefur verið af vestrænum stjórnvöldum sem viðbrögð við innrás Rússa í Úkraínu.
Rússar telja sig hafa haft gilda ástæðu til að bregðast við með þessum hætti og um það má vissulega deila, en hitt er víst, að betra er að leysa ágreiningsmál með samningum en með hernaði.
Það er skoðun þess sem þetta ritar að ef úkraínsk yfirvöld hefðu haft burði til að bregðast við ásökunum Rússa um ögranir síðustu sjö til átta ára á austurlandamærum ríkjanna: að þá hefði mátt forða landinu frá þeim hörmungum sem það eru nú komið í.

Hörmungum sem geta smitað út í alla heimsbyggðina ef illa fer, því Bandaríkin og NATO eru nú þegar með óbeinum hætti (vopnasendingum) orðin þátttakendur í þessu sorglega stríði.

Vel getur verið að úkraínsk yfirvöld hafi ekki átt gott með að svara kalli um að grípa í taumana, að hinar vopnuðu sjálfskipuðu sveitir hafi verið orðnar of öflugar til að við yrði ráðið.
Sé það svo, þá segir það talsvert um það hvar ríkið var orðið statt og að koma hefði þurft því til hjálpar.
Það er hins vegar alls ekki víst að þeir sem við ,,völd" sátu og sitja á þeim bæ, hafi þótt það áhugavert að grípa í taumana og stöðva óöldina í landi sínu.

Sé það skýringin, þá skýrir það líka hvers vegna nágranninn í austri bregst við svo sem raun er nú á orðin.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...