Það þurfti sem sé allt að því heimsstyrjöld til að íslensk stjórnvöld lifnuðu við, lyftu brúnum, stofnuðu nefnd, pöntuðu skýrslu og álit og vafalaust sitthvað fleira, sem bæði er þarft og nauðsynlegt, til að eitthvað sé við að fást í hinni margfrægu stjórnsýslu.
Það er fæðuöryggi þjóðarinnar sem verið er að hugsa um,
þ.e.a.s. ef menn ná því að rífa sig upp út skýrslusamningum, nýjum tillögum og
greinargerðum, og eflaust þarf að rýna alla þessa vinnu og setja að lokum í til
þess skipaða nefnd.
Menn eru komnir svo langt í vinnunni, að einhver hefur nefnt
það að ekki sé með öllu vitlaust að huga að því hvort hægt sé að rækta meira af
korni í landinu.
Búinn hefur verið til mælikvarði og honum hefur verið gefið
nafn GFSI og ef að er gáð stendur þessi nafnleysa fyrir ,,Global Food Security
Index“ og þar með gæti verið að málið sé leyst, því fín nöfn með heimssýnarlegu
yfirbragði að hætti nútímastjórnsýslu er það sem leysir vandann, vandann sem
birtist upp úr þurru og vegna utanaðkomandi atburða vitringanna miklu og góðu,
sem settu viðskiptasamskipti heimsins á annan endann.
Það þótti ekki til eftirbreytni að farga bestu kúnni í
fjósinu hér áður fyrr, þ.e. áður en menn fundu það út að tyrfnar og timbraðar
skýrslur væru lausn alls vanda og rúmlega það. Vafalaust geta pappírspésar
nútímans fundið það út með stífum fundarsetum, kaffiþambi og kökuáti, að það sé
nú bara best að slá blessaða beljuna af, þó ekki væri nú nema vegna þess, að
kýr eru þeirrar náttúru að þurfa talvert af heyi til að éta og grasi líka, en
skýrsluritarar fundu það út á einum fundi sínum eftir allmiklar umræður,
vangaveltur og fyrirtöku hámenntaðra sérfræðinga, að gras fengist ekki til að
vaxa á Íslandi nema á sumrin, og tæplega það.
Af öllu þessu leiðir að rita þarf mikla skýrslu um
fæðuöryggi þjóðarinnar, og vegna þess að maður nokkur sem leið átti um, og
villtist í rangt herbergi í byggingunni að menn komust að niðurstöðu:
Kanna þarf og rita skýrslu um hvort hægt sé að rækta korn
til eldis manna og dýra á Íslandi.
Vitanlega þarf svo að rita skýrslu um niðurstöðuna.
Kanna þarf, hvort hægt sé að búa svo um hnúta, að hægt sé að
sigla með matvöru yfir hafið - sem skýrsluritarar uppgötvuðu á einum fundi
sínum að væri umhverfis Ísland, þ.e. landið sem þeir byggju á – þegar skollin væri á allsherjarstyrjöld með öllum tiltækum og þekktum vopnum og þar
með töldum kjarnorkuvopnum.
Fá fram ,,greiningu“ á, hversu miklar líkur væri á að slíkt
ástand skapaðist.
Og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis….
Út mun síðan koma um það bil 200 síðna skýrsla um málið,
þ.e.a.s. ef veröldin eins og við þekkjum hana verður enn til, þegar
skýrslusemjendur verða búnir að drekka síðasta kaffibollann og búnir að halda
útgáfuhóf í tilefni af vel unnu starfi.
Það sem helst gæti truflað þessa vinnu er, ef að pappír verður
ekki lengur til í landinu og að menn kynnu ekki lengur, að verka skinn til að
pára niðurstöðuna á.
Yrði það nú niðurstaðan, gæti það hugsanlega og kannski og ef
til vill gerst, að einhver sem ætti leið framhjá myndi koma blaðskellandi með
lítið og snoturt plagg, ritstýrt af Birni Bjarnasyni, með nafninu Ræktum
Ísland!
Og að því gefnu að nefndarmenn og konur og köku og
kaffiburðarfólk, væri ekki endanlega sprungið á limminu í þenkingum sínum, væri
málið leyst.
En þá þarf vitanlega að skrifa skýrslu um það!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli