Styrjöldin og það sem ekki má

 

Það bar við í gær, að mér var bent á með #, að á ferðinni væru greinar eftir bloggara á Morgunblaðsblogginu sem ekki þættu boðlegar og sem að ég þyrfti endilega að kynna mér! Ég gerði það og hef lesið þær yfir aftur og niðurstaðan er að þær séu vel þess virði að fólk kynni sér skrifin.

Þær féllu sem sagt ekki inn í línuna sem viðkomandi voru búin að marka sér varðandi átökin sem nú geisa í Úkraínu og er ég deildi slóð þeirra, kom í ljós að fleiri voru sama sinnis og ekki nóg með það, sendu mér ákúrur fyrir að vera að deila svona óhæfuboðskap.

Ástæðan var hver höfundurinn var, en ekki hvað hann skrifaði. 

Þangað erum við komin, að í umræðunni skiptir meira máli hver segir hvað og hvenær, en hvað viðkomandi segir.

Ég framsendi sem sagt greinarnar á Facebook og það fór eins og ég hafði gert ráð fyrir að fram stigu þeir sem allt vissu betur og allt vissu best!

Samt er það ekki mín tillaga að að því fólki verði falið að finna lausn á deilunum sem uppi eru um héraðið Donbass í Úkraínu.

Ástæðan er sú, að fram kom í skrifum þess, að það var fyrirfram visst um hver hefði gert hvað og að viðkomandi hefði gert það að óþörfu og því þyrfti að koma í veg fyrir að hann gerði fleira.

Ég hef staðið í þeirri meiningu að í samskiptum þjóða gilti, að sýna virðingu fyrir sjónarmiðum annarra, hverjir sem þeir eru og hversu illa okkur kann að líka við sjónarmið viðkomandi.

Tilgangurinn væri að komast að ásættanlegri niðurstöðu um deilumál sem upp koma og að leita skyldi allra mögulegra leiða til að forðast ófrið milli þjóða og þjóðabandalaga.

_ _ _

Fyrrverandi forseti Íslands var í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum vikum og honum varð það á aðspurðum, að telja rússneska ráðamenn einhverja, sem ég man ekki lengur nákvæmlega hverjir voru, vera venjulega menn og muni ég rétt, bar hann þeim þokkalega sögu.

Fyrir þetta fékk hann harða dóma á samfélagsmiðlum!

Fyrir nokkrum dögum steig fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna fram og hvatti til þess að fundin yrði lausn á deilum ríkjanna með milligöngu og samningaviðræðum og færði fyrir máli sínu sterk rök.

Ekki fékk gamli maðurinn þakkir fyrir og svo er að sjá sem ekki komist annað að, en að lúskra svo á Rússum að þeir gefist upp á að ,,frelsa“ Donbass og sunnanverða Úkraínu. Hvenær því á að verða lokið og hvað þurfa muni til fylgir ekki sögunni.

Gallinn er sá, að það á að koma í hlut Úkraína að sjá um framkvæmdina og að það verður að öllum líkindum verkefni sem þeir ráða fremur illa við, þrátt fyrir stuðning af ýmsu tagi og þó aðallega úr vopnabúrum NATO- ríkja.

Er það sem sagt þannig, sem menn vilja sjá framtíðina fyrir sér, að Úkraína og Rússland verði í langvinnu stríði hvort við annað og að það verði að lokum Úkraína sem vinni það stríð?

Finnst mönnum líklegt og vænlegt, að horfa fram á framtíð Evrópu þannig að í austanverðum hluta hennar geisi styrjöld þar sem öllum tiltækum vopnum er beitt?

Gæti verið að þessum ,,tiltæku“ vopnum yrði beitt víðar? Vilja menn að svo verði og vilja menn að ríkin tvö og heimsbyggðin öll verði rjúkandi rúst? 

Er það framtíðarsýnin?

Hverjir munu hagnast á slíku langtímaástandi, eða þar til yfir lýkur? Er það almenningur í löndunum tveimur? Eru það almennir íbúar NATO- landanna? Er það heimsbyggðin öll?

Svarið við þessum spurningum öllum er nei.

Þeir einu sem munu hagnast eru vopnaframleiðendur, væntanlega beggja stríðsaðila, en þó ekki alveg, því vopn til Úkraínu munu koma frá vestrænum framleiðendum og trúlega að mestu frá hergagnaframleiðendum í Bandaríkjunum. Þeir munu hagnast, um tíma, en ekki til lengdar

Það mun hinsvegar verða almenningur í nánast heiminum öllum sem mun líða fyrir vopnaskakið. Líða vöruskort af ýmsu tagi og njóta verri kjara vegna afleiðinganna á hagkerfi heimsins og ef allt fer á versta veg, líða fyrir tortímingu þeirra samfélaga sem við þekkjum í dag.

Og ekki skulum við halda að við séum friðlýst, verandi í NATO og með aðstöðu bandaríska hersins í Keflavík.

Því má öllu sæmilega vel gerðu fólki vera það ljóst, að betra er og vænlegra í öllu tilliti, að stillt verði til friðar og að það er betra en að stuðla að ófriði.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...