Þegar svona er komið er sjálfhætt, en gallinn er sá að við höfum heyrt eitthvað þessu líkt margoft áður frá bændunum sem búgreinina stunda, en að ráðherra ,,innviða", hvað sem það nú annars þýðir nákvæmlega, gefi út dánarvottorðið, skyndilega og óviðbúið, er nýlunda. Við þurfum samt ekkert að óttast í bráð, því yrfið nóg er til af kindakjöti, mun meira en þjóðin er tilbúin að torga og engar líkur eru til að skortur verði næstu ár. Afkoman hefur verið tryggð með greiðslum úr ríkissjóði til þessa og gera má ráð fyrir að svo verði áfram, að minnsta kosti svo langt sem séð verður fram í tímann. Að ráðamenn íslensku þjóðarinnar muni ekki tryggja að til sé kindakjöt, er ólíklegra en að Sólin sjálf komi til með að slökkva á sér.
Í Bændablaðinu sjáum við svo, að mikil framþróun hefur orðið í kúabúskapnum og að svo er komið að ekki er finnanlegt nema eitt fjós með fötumjaltakerfi, kerfi þeirrar tegundar sem ritari þekkir fyrst frá veru sinni í sveitavist í Leiráarsveit fyrir meira en sextíu árum.
,,Bærinn okkar" er þáttur í blaðinu, þar sem sagt er frá bæ í sveit og að þessu sinni er það Seljatunga í Flóahreppi og sannarlega er fallegt þangað heim að líta.
Matarkrókurinn er fastur liður í blaðinu og í þetta sinn eru það kjúklingavængir sem teknir eru til og matreiddir.
Jákvæðu fréttirnar eru þær að verð á korni er á niðurleið, en það rauk upp við innrás Rússa í Úkrainu.
Þá er sagt frá Spretthópnum skjótráða sem matvælaráðherra Íslands rauk á harðaspretti til að stofna vegna vanda sauðfjárbænda og nautgripa. Augu manna fyrir því að fleira væri matur en feitt kjöt munu óvænt hafa opnast, því við höfum haft spurnir af, að verið sé að leita upplýsinga um stöðu fleiri búgreina en þeirra sm hér er getið. Það fer samt ekki mjög hátt í umræðunni, nema að ,,innviðaráðherra", er búinn að gefa út það sem kalla má dánarvottorð sauðfjárræktarinnar.
Auðvitað eru það alifuglabændur, svínabændur og nautgripabændur, sem í erfiðleikum lenda í þeirri stöðu sem nú er er, en engum kemur á óvart að formaður Framsóknarflokkins átti sig ekki á því.
Áhugaverð síða er kynnt til sögunnar í Bændablaðinu, þar sem þróun kjötmarkaða er kynnt með glöggum og skýrum hætti. Trúlega mun ráðherra innviða kynna sér málin með lestri hennar.
Forsíða Bændablaðsins er skreytt með þessari fallegu mynd af naukálfi og miðað við það sem áður er komið fram, undrumst við að ekki sé frekar um að ræða mynd af sauðkind, en við blasir eftir örlitla umhugsun, að skýringin er að formaður Framsóknar ritstýrir ekki blaðinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli