Svo sem sjá má hér að ofan, þá er staðan slæm. Tuttugu þúsund færri dilkum slátrað, stöðug fækkun sláturlamba og markaðskappar glíma við stöðuna!
Þegar rýnt er í greinina um ,markaðsstöðuna', kemur í ljós að salan er að aukast og hefur gert það um rúm 14% frá árinu á undan. Þegar salan eykst og framleiðslan dregst saman, er þá ekki líklegt að bjart sé yfir svo framarlega sem framleiðslan nægir markaðnum?
Eða er hér ekki allt sem sýnist? Er framleiðslan of mikil fyrir markaðinn, það er að segja hinn raunverulega markað, þann markað sem er fyrir vöruna á Íslandi?
Í greininni ,,Markaðsstaða íslensks lambakjöts" má kynnast því nánar hvað það er, sem veldur vanda í kindakjötsframleiðslunni og sölu afurðanna.
Þar segir m.a.: ,,velta [þurfi] við hverjum steini í því að bæta stöðu greinarinnar." og síðar: ,,Greinin á tækifæri til úrbóta með því að hlusta á kröfur nútímans og horfa til öflugra skilaboða til neytenda. Sinna fleiri staðsetningum á markaði en einungis þeirrar þar sem lægst verð fæst."
Samkvæmt þessu hefur mikið skort á að markaðsstarfi hafi verið sinnt, að mati þeirra sem greinina skrifa, sem eru þeir Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri Icelandic Lamb og Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda, og sinnan hefur snúið að þeim markaði ,,þar sem lægst verð fæst"!
Síðar segir: ,,íslenskt lambakjöt er eina íslenska matvaran með upprunavottun og sauðfjárrækt eina íslenska búgreinin sem hefur bannað notkun erfðabreytts fóðurs. Miðlun þessa skapar aukið virði hvers kyns afurða á öllum öðrum mörkuðum! Með notkun upprunamerkis íslensks lambakjöts og aðgreiningu með vísan í fullar upprunamerkingar er hægt að nýta tækifærin sem bjóðast. Tækifæri sem fljóta fram hjá verði verklagið áfram það sama og menn hafa vanist."
Og enn er hnykkt á því hve illa hafi verið staðið að markaðssetningunni til þessa og svo er að skilja, sem allt muni það nú standa til bóta, með nýjum mönnum við stjórnvölinn!
Hvað átt er við með ,,upprunavottun" er ekki gott að segja og tilvitnunin í bann við notkun erfðabreytts fóðurs er ekki síður sérkennileg, því engin trygging er fyrir því að ekki geti slæðst erfðabreytt fóður í sauðfé. Eitt er að banna og annað að framfylgja banni og svo dæmi sé tekið, þá er skylda að smala fé að hausti, en eins og bæði neytendur og sauðfjárbændur vita, hefur gengið alla vega, að fá sauðfjárbændur til að sinna þeirri smölun.
En áfram með greinarskrif tvímenninganna: ,,[...] það er einungis á Íslandi sem lambakjöt hefur keppt í verði við hvíta kjötið samkvæmt úreltri aðferðafræði (svo!). Sú verðsamkeppni getur ekki gagnast bændum í neinni kjötgreinanna, en himinn og haf er á milli framleiðni og framleiðsluhraða greinanna auk fjölmargra annarra aðgreinandi þátta."
Og Jörðin fer hring um Sólina og Tunglið um Jörðina o.s.frv.!
Um þetta er það að segja að lambakjötið hefur keppt við ,,hvíta kjötið" á þann hátt að hið opinbera hefur greitt verð kindakjötsins að stórum hluta og að auki heimilað innflutning á svínakjöti og alifugla, undir því yfirskini að með þeim innflutningi fáist gjöfulir markaðir fyrir lambakjöt í ESB- löndum, - menn þurfa víst að vera einhverskonar ,,framsóknar" til að skilja þá hagfræði, en það er önnur saga!
Síðar í greininni er því haldið fram að upp sé runninn samkeppnistími við kindakjöt á íslenskum kjötmarkaði, því upplýst er, að hvorki meira né minna en 345 tonn af erlendu kjöti sé væntanlegt á markaðinn.
Og fram hefur komið á öðrum stað að lítið sem ekkert bendir til þess að menn ætli að nýta sér heimild til innflutningsins.
Til marks um hve mikið magn þetta er á íslenskum kjötmarkaði, þá gæti hér verið um að ræða ca 1/15 hluta af skipsfarmi, sé miðað við þá farma sem ritari þessa pistils tók þátt í að flytja í grisjupokum og heilum skrokkum til Evrópu á sínum yngri árum, í íslenskri sláturtíð og farmarnir voru fleiri en einn og fleiri en tveir og stundum voru tvö frystiskip notuð til flutninganna!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli