Umræða um virkjanamál er bæði þörf og góð og slík umræða hefur farið fram á síðum Morgunblaðsins og Bændablaðsins síðustu daga.
Í grein sem Elías Jónatansson orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða ritar, veltir hann upp hugsanlegum virkjanakostum á Vestfjörðum og bendir á að: ,,Minnka má straumleysi um 90% með 20-30 MW virkjun í Vatnsdal" og síðar segir Elías: ,,Nærtækasta dæmið um slíka virkjun er 20-30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en með tilkomu virkjunarinnar sem er einungis í 20 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun gæti straumleysistilfellum hjá 90% Vestfirðinga fækkað um 90% og olíunotkun vegna varaafls einnig minnkað um 90%."
Á Vestfjörðum er staðan sú, að rafmagn er flutt að stórum hluta um langa leið og varaafl er byggt á dieselstöðvum. Við lestur greinar Elíasar sést, að hægt er að breyta því fyrirkomulagi og tryggja betur orkuöryggi svæðisins með virkjunum innan svæðisins.
Efst til vinstri hér að ofan er mynd af frétt Morgunblaðsins um hvernig vætutíðin hefur bætt stöðu í miðlunarlónum Landsvirkjunar og ekki er útlit fyrir að skerða þurfi orkuafhendingu líkt og gera þurfti fyrir aðeins ári síðan. Í greininni í miðið er farið yfir hvort æskilegt sé að virkja með vindmyllum og niðurstaðan birtist í fyrirsögninni. Skúli Jóhannsson fer síðan yfir raforkumarkaðinn í fróðlegri grein sem er lengst til hægri.
Að varmadælur séu alvöru orkuöflun er ekki ný tíðindi fyrir þá sem reynt hafa og þar eru möguleikarnir miklir. Víða eru volgrur sem hægt er að vinda orku úr og víst væri hægt að nýta betur heita vatnið með því að ,,vinda" úr því orkuna sem eftir er, eftir að það hefur verið nýtt til upphitunar og annarra hluta s.s. í sundlaugar o.fl.
Til þess að það sé hægt þarf að vera aðgengileg raforka og enn er borð fyrir báru hvað öflun hennar varðar, þó hætt geti verið við, að vinstrigræningjar og fleiri einkavinir náttuúrunnar gætu verið óþægur ljár í þeim þúfnaskurði sem fara þarf fram til að nýta aflið sem felst í fallvötnunum.
Á myndinni sem er neðst til vinstri er umfjöllun Bændablaðsins um erindi sem flutt var ,,á málþinginu Græn framtíð á degi landbúnaðarins 14. október."
Þar er sagt frá möguleikum sem eru til hitaorkuöflunar með varmadælum; möguleikum sem nýtast myndu bændum og öðrum vel.
Sumir bændur eru reyndar þegar farnir að notfæra sér þessa möguleika og líklegt að þar verði talsverð aukning.
Rétt er samt að benda á að til að knýja varmadælur þarf rafmagn og ef ekki er hægt að afla þess með nýtingu virkjanakosta vegna andstöðu vinstrigræningja allra flokka, þá verður lítið gert í málinu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli