Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtakanna ræddi við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum ,,Okkar á milli" í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi.
Vigdís hefur vakið athygli fyrir glæsilega framgöngu og rétt er að taka fram að undirritaður minnist þess ekki að hafa hitt hana, en hefur fylgst með framgöngu hennar og hrifist af.
Það er óhætt að segja að ferskir andar hafi leikið um Bændasamtökin síðustu ár, með nýju fólki, nýju skipulagi og viðhorfum og rétt er að það komi fram: að við vorum nokkuð mörg sem vorum búin að bíða lengi eftir þeirri breytingu.
Að mati þess sem þetta ritar byrjaði breytingin með Sindra Sigurgeirssyni og hefur síðan aukist og eflst með Gunnari Þorgeirssyni garðyrkjubónda.
Það leika sem sagt ferskir vindar um samtökin síðustu árin og var sannarlega kominn tími til.
Samtökin höfðu - líklega frá upphafi - snúist um búgreinarnar sauðfjárrækt, nautgriparækt og síðan allar hinar og helgaðist það vitanlega af því að þessar greinar höfðu fylgt búskap í landinu svo lengi sem elstu menn mundu.
Undirritaður er alin upp fyrstu árin eftir miðja síðustu öld á Seltjarnarnesi og man eftir hænsnabúi þar til eggjaframleiðslu; sér fyrir sér mennina við að flokka, merkja (stimpla) og raða eggjum í bakka og samkvæmt því eru að minnsta kosti hálfur sjötti áratugur síðan að hænsnarækt hófst í landinu og reyndar er það mun lengri tími!
Eftir að vera fluttur til Reykjavíkur um 1960 man ég líka eftir að rætt var um svínabúskap út á Reykjanesi og ekki má gleyma Jóni heitnum Guðmundssyni, sem að öðrum ógleymdum, stundaði kjúklingarækt til kjötframleiðslu á Reykjum í Mosfellsbæ. Kartöflubændur voru líka vítt um landið og vafstrið í kringum þá starfsemi gekk svo langt að stofnuð var illu heilli Grænmetisverslun landbúnaðarins.
Svo virtist sem allt þetta búskaparvafstur færi framhjá þeim sem stjórnuðu málefnum landbúnaðarins. Í þeirra augum var landbúnaðurinn sauðfjárrækt og nautgriparækt og önnur framleiðsla, sérstaklaga til kjötframleiðslu, var flokkuð sem ógn við hinar gömlu og grónu greinar.
En auðvitað vissu menn að annað var til og hafði verið til frá öndverðu, en það hentaði bara ekki að hugsa málin frá því sjónarhorni og svo er því ekki að neita, að kúa og sauðfjárræktin voru stærstar og þar voru hagsmunirnir mestir.
En aftur að upphafinu þeim Vigdísi og Gunnari og þó aðallega greininni hennar Vigdísar og viðtalinu í þættinum ,,Okkar á milli".
Vigdís er eitt þeirra barna sem ættleidd voru um langan veg til Íslands og sem ekki voru spurð hvort þau vildu fara til annars lands, til nýrra foreldra og í annan heim. Það kom fram í viðtalinu að Vigdís er þokkalega sátt við sinn hlut, er raunsæ og metur tilveruna af yfirvegun og skynsemi og talar norðlensku!
Það er skoðun undirritaðs að það hafi verið góður fengur að fá hana til starfa hjá Bændasamtökunum með Gunnari og öðrum þeim fersku vindum sem um samtökin hafa blásið síðustu misserin og að rétt sé að óska þeim góðs gengis í störfum sínum og í lífi sínu.
Hér verður ekki farið út í það að reyna að endursegja greinina sem Vigdís skrifaði, en áhugasamir geta reynt að lesa hana af skjáskotinu, en best er þó að ná sér í textann á vef Morgunblaðsins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli