Morgunblaðið segir frá framkvæmdum við glæsilega laxeldisstöð í Ölfusi.
Fyrsta laxinum verður slátrað innan skamms í eldisstöðini í Ölfusi og menn hafa engar áhyggjur af afsetningu afurðanna. Um er að ræða landeldi, eins og sést á myndinni og því er af bloggara tekinn sá kostur að líta svo á að um landbúnað sé að ræða og rétt að óska mönnum velfarnaðar í þessum rekstri.
Og svo sem sést hér að neðan, er verið að ræða um fiskeldi í grein landbúnaðarráðherrans. Hún telur fiskeldið vera á traustum grunni og ekki má gleyma því að afurðin er að mestu flutt á erlenda markaði og skaffar þannig þjóðinni tekjur, ólíkt því sem oftast hefur verið, þegar staðið hefur verið í útflutningi á landbúnaðarvörum í seinni tíð, nema hvað útflutningur hrossa hefur skilað sínu.
Landbúnaðarráðherrann vill ekki banna minkarækt ólíkt burtflognum þingmönnum af síðasta kjörtímabili, sem töldu þjóðinni það helst geta orðið til framdráttar, að banna minka og blóðmerabúskap; ruku upp af visku sinni og göspruðu, en höfðu ekki vald til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd sem betur fer. Ólíkt danska forsætisráðherranum, sem lét drepa og grafa minka í stórum stíl.
Dönsku minkarnir sneru aftur, þó dauðir væru, og birtust á yfirborði jarðar fáum til fagnaðar og ráðherranum til háðungar og nú er unnið að endurreisn minkaræktar í Danmörk og til þess m.a. fengnir minkar af Íslandi, ef leyft verður að selja lifandi minka!
Kornrækt vex og gæti vaxið meira ef áhugi og skilningur ráðamanna væri fyrir hendi.
Á Suðurlandi er vitað um svínabú sem ræktar allt það korn sem til búskaparins þarf, auk þess sem margir kúabændur rækta korn til að fóðra kýrnar. Kornræktin hér á landi er á frumstigi en í framtíðinni verður eflaust ræktað korn og selt í samlög til áframvinnslu og geymslu líkt og gert er með aðrar landbúnaðarafurðir.
Vigdís Häsler skrifar um matvæli, neyslu landbúnaðarafurða og merkingar þeirra í aðsendri grein í Morgunblaðið, þar sem hún bendir á að það sé : ,,hæpið að löglegt sé að gefa í skyn að vara sé íslensk að uppruna þegar hún er merkt íslensku letri einu saman, undir íslensku vörumerki, sé innflutta hráefnið áfram einkennandi hluti vörunnar eða hún er eðlislík íslenskri búvöru".
Myndirnar af fréttum og greinum eru allar úr Morgunblaðinu
Engin ummæli:
Skrifa ummæli