Tvær þjóðir ein auðlind?
Líklegt er að við séum komin þangað, að ekki verði sátt um að virkjanir séu byggðar án þess að tillit sé tekið til hagsmuna þeirra sem leggja til aðstöðuna í formi lands og röskunar.
Fram til þessa hefur reglan verið sú að engin gjöld hafa verið greidd af mannvirkjununum til þeirra sem svo óheppnir eru, að vera ekki með stöðvarhús virkjunarinnar innan sinnar landareignar og skiptir þá engu máli þó mestöll virkjunin sé í raun innan þess sveitarfélags sem ekki leggur til land undir stöðvarhúsið. Þessi mismunun veldur óánægju sem eðlilegt er.
Eins og sjá má af skjáskoti úr Bændablaðinu hér að ofan eru menn farnir að tjá sig um málið og benda á að lög um orkuvinnslu hamli atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og að breyta þurfi lagaumgjörð orkuframleiðslu.
Í greininni bendir Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða og Gnúpverjahrepps á eftirfarandi:
,,„Orkan verður til á landsbyggðinni, ferðamenn koma til að skoða náttúruna úti á landi en þrátt fyrir það tekst okkur ekki að skapa sambærileg búsetuskilyrði á fjölmörgum stöðum þar sem verðmætin verða til og það er fyrst og fremst vegna þess að leikreglurnar eru ósanngjarnar. Ferðaþjónustan hefur skapað fjölda starfa um land allt og þar eru störfin og verðmætin sannarlega eftir í nærumhverfi starfseminnar.
Þegar kemur að framleiðslu orku, þá hefur verið byggt upp lagalegt umhverfi sem gerir það að verkum að nánast ekkert verður eftir í samfélögunum þar sem orkan verður til og allur efnahagslegur ábati verður þar sem orkan er notuð. Orka er undirstaða lífs okkar og án orku gerist ekkert.“”
Engin ummæli:
Skrifa ummæli